MINNISBLAÐ
Til:
OPINBERT
Frá:
BBA//Fjeldco
Dagsetning:
25. júní 2020
Efni:
Ný lög um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar
1.
INNGANGUR
1.1
Tilgangur þessa minnisblaðs er að gera grein fyrir nýjum lögum sem samþykkt voru á Alþingi þann 16. júní sl. um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar.
2.
AÐDRAGANDI OG TILEFNI LAGASETNINGARINNAR
2.1
Þann 16. júní s.l. tóku gildi lög um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja, sem lent hafa í alvarlegum rekstrarerfiðleikum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Með lögunum er fyrirtækjum gert kleift að komast í tímabundið skjól frá innheimtu- og fullnustuaðgerðum og er þeim einnig veitt undanþága frá því að vera tekin til gjaldþrotaskipta á sama tímabili, enda þótt skilyrði gjaldþrots hafi skapast.
2.2
Á sama tímabili gefst tækifæri til að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu slíkra fyrirtækja með margvíslegum hætti, enda þótt það sé í raun ekki skilyrði, ef tímabundna greiðsluskjólið eitt og sér kann að leyfa fyrirtækjum að komast á réttan kjöl að því loknu.
3.
SKILYRÐI ÞESS AÐ GETA NÝTT ÚRRÆÐIÐ
3.1
Skilyrði fyrir því, að fyrirtæki falli undir gildissvið laganna, eru eftirfarandi: 1. Atvinnustarfsemi fyrirtækisins hafi byrjað ekki síðar en 1. desember 2019 og að starfsmenn þess (einn eða fleiri) hafi verið í fullu starfi og a.m.k. á lágmarkslaunum alla þrjá mánuðina desember 2019 - febrúar 2020. 2. Starfsemi fyrirtækisins hafi raskast verulega og að orsakir þess verði raktar beint eða óbeint til opinberra ráðstafana sem gripið hefur verið til, eða aðstæðna sem að öðru leyti hafa skapast vegna faraldursins. 3. Heildartekjur af starfseminni hafi dregist saman með einum af eftirfarandi háttum:
1
a) Mánaðarlegar heildartekjur frá 1. apríl 2020 og þar til sótt er um úrræðið hafi lækkað um 75% eða meira í samanburði við meðaltal mánaðartekna á tímabilinu frá 1. desember 2019 til 29. febrúar 2020. b) Mánaðarlegar heildartekjur síðustu þriggja mánaða áður en sótt er um úrræðið hafi lækkað um a.m.k. 75% í samanburði við sömu mánuði árið áður. c) Fyrirsjáanlegt er að heildartekjur af starfseminni á næstu þremur mánuðum frá því sótt er um úrræðið lækki um a.m.k. 75% í samanburði við sama tíma á árinu 2019. 4. Samanlagður áætlaður rekstrarkostnaður og skuldir fyrirtækisins, sem falla í gjalddaga á næstu tveimur árum, séu meiri en heildarfjárhæð andvirðis peningaeignar þess, innstæðna, verðbréfa og krafna á hendur öðrum. 4.
BEIÐNI UM FJÁRHAGSLEGA ENDURSKIPULAGNINGU
4.1
Með beiðni um endurskipulagningu þurfa m.a. að koma fram: 1. Upplýsingar um eignir og skuldir, ásamt því hvort veðbönd eða önnur tryggingarréttindi hvíli á einstökum eignum og þá fyrir hvaða skuldum. 2. Greinargerð um það hvernig skilyrði fyrir endurskipulagningu eru uppfyllt. 3. Upplýsingar um aðstoðarmann við fjárhagslega endurskipulagningu, sem skylt er að ráða í öllum tilvikum (lögmaður eða löggiltur endurskoðandi), ásamt staðfestingu hans á því að hann taki verkefnið að sér og að hann uppfylli þau hæfisskilyrði gjaldþrotalaga, sem gilda um aðstoðarmann skuldara við greiðslustöðvun. 4. Síðustu tveir ársreikningar, svo og árshlutauppgjör frá sama tímabili, hafi þau verið gerð. 5. Yfirlýsing löggilts endurskoðanda eða viðurkennds bókara um að bókhald fyrirtækisins sé í lögboðnu horfi.
4.2
Beiðnin er lögð inn hjá héraðsdómi og hefur héraðsdómur endanlegt úrskurðarvald um það hvort að á beiðnina skuli fallist.
4.3
Héraðsdómi er skylt að hafna beiðninni ef öll ofangreind skilyrði, upplýsingar og gögn eru ekki fyrir hendi, ef héraðsdómur hefur rökstuddan grun um að upplýsingar séu vísvitandi rangar eða villandi eða ef hann telur tilnefndan aðstoðarmann vanhæfan og fyrirtækið sinnir því ekki að tilnefna annan aðstoðarmann í staðinn.
4.4
Mikilvægt er að hafa í huga að beiðnin sem slík hefur réttaráhrif frá þeim degi sem hún berst héraðsdómi og meðal annars þau réttaráhrif, sem fjallað er um hér að neðan. Þau réttaráhrif falla niður ef beiðninni er hafnað eða þegar fjárhagslegri endurskipulagningu lýkur eftir að beiðnin hefur verið veitt.
2
4.5
Beiðni um heimild til fjárhagslegrar skipulagningar samkvæmt lögunum þarf að berast héraðsdómi fyrir 1. janúar 2021 og er þannig um mjög tímabundna aðgerð að ræða.
5.
HEIMILD TIL FJÁRHAGSLEGRAR ENDURSKIPULAGNINGAR OG RÉTTARÁHRIF
5.1
Ef héraðsdómur fellst á beiðnina, veitir hann heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar til ákveðins dags og stundar innan þriggja mánaða frá dagsetningu úrskurðarins. Á síðari stigum er unnt að óska eftir framlengingu á því tímabili einu sinni eða oftar, ef nauðsynleg skilyrði eru uppfyllt, en almenna reglan er þó sú, að endurskipulagning má ekki standa lengur samanlagt en eitt ár.
5.2
Innan sex vikna frá dagsetningu heimildarinnar skal aðstoðarmaðurinn halda fund með lánardrottnum fyrirtækisins til að kynna þeim stöðu skuldarans og ráðagerðir um hvað gera megi til að koma endurskipulagningunni fram.
5.3
Réttaráhrif heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar eru í megindráttum eftirfarandi: 1. Óheimilt er að ráðstafa eignum eða réttindum nema með samþykki aðstoðarmanns og (i) ráðstöfunin er nauðsynlegur þáttur í daglegum rekstri fyrirtækisins eða endurskipulagningunni (og endurgjaldið er eðlilegt), (ii) verið er að greiða skuld, sem fellur undir skilyrði 2 hér að neðan, (iii) verið er að greiða þóknun umsjónarmanns og annan kostnað af endurskipulagningunni eða (iv) um er að ræða aðgerðir til að koma í veg fyrir verulegt tjón. 2. Óheimilt er að greiða skuldir eða efna aðrar skuldbindingar, nema (i) að því leyti sem skuldbindingin yrði efnd eða skuldin greidd eftir stöðu hennar í réttindaröð ef til gjaldþrotaskipta kæmi í beinu framhaldi af því að heimildin félli niður eða (ii) ef það er nauðsynlegt til að varna verulegu tjóni. 3. Óheimilt er að stofna til skulda eða annarra skuldbindinga eða leggja höft á eignir eða réttindi nema það sé nauðsynlegt til að (i) halda áfram atvinnurekstrinum eða (ii) varna verulegu tjóni. 4. Ákvæði í samningum eða réttarreglum um afleiðingar vanefnda taka ekki gildi gagnvart fyrirtækinu, en þó má krefja fyrirtækið um dráttarvexti, dagsektir eða févíti vegna vanefnda. 5. Ekki má taka bú fyrirtækisins til gjaldþrotaskipta og jafnframt má ekki kyrrsetja eignir þess, gera fjárnám í þeim eða ráðstafa þeim með nauðungarsölu, auk þess sem stjórnvöld geta ekki beitt þvingunarúrræðum gegn fyrirtækinu vegna vanefnda við ríkið eða sveitarfélög. 6. Sé krafa tryggð með lögveði þegar beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar berst héraðsdómi, skal sá tími sem heimildin er í gildi vera undanskilinn lögbundnum fyrningarfresti lögveðs.
3
6.
AÐGERÐIR, SEM FALLA UNDIR FJÁRHAGSLEGA ENDURSKIPULAGNINGU
6.1
Helstu aðgerðir, sem falla undir fjárhagslega endurskipulagningu samkvæmt lögunum, eru eftirfarandi: 1. Engar sérstakar aðgerðir, þ.e. þegar fyrirtæki telur að tímabundna greiðsluskjólið eitt og sér geti leyft því að komast á réttan kjöl að heimildinni lokinni. 2. Frjálsir samningar við lánardrottna, einkum um nauðsynlega gjaldfresti af skuldum og hugsanlega aðra eftirgjöf til að tryggja rekstrarhæfi starfsemi fyrirtækisins til frambúðar eftir að heimildinni lýkur. 3. Einfaldari gerð nauðasamnings, sem getur tekið til vaxta, innheimtukostnaðar, gjaldfrests eða gjalddaga skulda, brottfalls eftirstæðra krafna, sem og breytinga á gjalddögum veðkrafna, enda nægi ein af þessum ráðstöfunum eða fleiri til samans til að tryggja megi rekstrarhæfi starfsemi fyrirtækisins til frambúðar. Hér þarf engu að síður að gæta að jafnræði lánardrottna, auk þess sem fyrirtækið skal leggja fram frumvarp að nauðasamningi ásamt skriflegu og rökstuddu erindi fyrir umsjónarmann áður en einn mánuður er eftir að tímabili heimildarinnar. Ef umsjónarmaður tekur erindið til greina, er litið svo á að í þeirri afstöðu felist jafngildi þess að á sama tíma hefði frumvarp skuldarans að nauðasamningi verið samþykkt með atkvæðagreiðslu eftir VIII. kafla gjaldþrotaskiptalaga og þannig þarf ekki atkvæðagreiðslu lánardrottna í þessu tilviki. Í kjölfarið verður fyrirtækið að krefjast staðfestingar á slíkum nauðasamningi fyrir héraðsdómi eftir almennum reglum gjaldþrotaskiptalaga. 4. Nauðasamningur eftir reglum gjaldþrotaskiptalaga, en með eftirfarandi frávikum til einföldunar frá almennum reglum: a. Skriflegri beiðni um slíka heimild er beint til umsjónarmanns, auk skriflegra meðmæla frá a.m.k. fjórðungi þeirra lánardrottna sem nauðasamningurinn varðar eftir fjárhæðum krafna talið. b. Ef umsjónarmaður verður við ósk fyrirtækisins um nauðasamningsumleitanir, tilkynnir hann það héraðsdómi án tafar sem og þeim lánardrottnum, sem þegar er vitað um. Að því loknu hefjast nauðasamningsumleitanir og gilda um þær, svo og um staðfestingu nauðasamnings og réttaráhrif hans, almenn ákvæði 44.-63. gr. gjaldþrotaskiptalaga. 5. Varðandi nauðasamninga eru einnig gerðar tímabundnar breytingar á gjaldþrotaskiptalögum með þeim hætti að nauðasamningar, sem gerðir eru á grundvelli laganna um fjárhagslega endurskipulagningu, geta tekið til samningsveðkrafna. Þannig getur nauðasamningur kveðið á um breytingu á greiðsluskilmálum veðkröfu, þar á meðal lengt lánstíma eða frestað gjalddaga á greiðslu hluta skuldarinnar eða hennar allrar í allt að 18 mánuði, með nánari skilyrðum. Er tilgangur þessa tímabundna úrræðis sá að skuldari slíkrar kröfu fái til aukið ráðstöfunarfé til að efna samningskröfur eftir ákvæðum nauðasamningsins. Þá er þessi breyting tímabundin í þeim skilningi að hún miðast við
4
gildistíma laganna og á þannig eingöngu við um tilvik þar sem beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar hefur borist héraðsdómi fyrir 1. janúar 2021. 7.
LOKAORÐ
7.1
Markmið nýju laganna um fjárhagslega endurskipulagningu er að gera slíkt úrræði eins einfalt og aðgengilegt og unnt er. Um mikla réttarbót er að ræða, sem vonandi verður fyrirmynd að varanlegum reglum um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja í framtíðinni.
*** BBA//Fjeldco veitir víðtæka þjónustu á sviði endurskipulagningar og lögmenn stofunnar taka m.a. að sér að vera aðstoðarmaður samkvæmt lögum um fjárhagslega endurskipulagningu. Ef einhverjar spurningar vakna við lestur þessa minnisblaðs eða ef óskað er eftir nánari upplýsingum, vinsamlega hafið samband við eftirfarandi lögmenn BBA//Fjeldco: -
Þórir Júlíusson, thorir@bbafjeldco.is, s. 6180100. Halldór Karl Halldórsson, halldor@bbafjeldco.is, s. 7776699. *** BBA//Fjeldco
5