Sagan af skóginum - Skógrækt fyrir unglinga

Page 1


SAGAN AF SKÓGINUM

SKÓGRÆKT FYRIR UNGLINGA

Jón Jósep Jóhannesson og Snorri Sigurðsson tóku saman

SAGAN AF SKÓGINUM

SKÓGRÆKT FYRIR UNGLINGA

SAGAN AF SKÓGINUM

SKÓGRÆKT FYRIR UNGLINGA

Jón Jósep Jóhannesson og Snorri Sigurðsson tóku saman

Sagan af skóginum

Skógrækt fyrir unglinga

©Jón Jósep Jóhannesson og Snorri Sigurðsson tóku saman.

Útgefandi: Mál og menning Reykjavík 2025

Öll réttindi áskilin.

Hönnun kápu: Fannar Þór Einarsson

Umbrot: Fannar Þór Einarsson

Prentvinnsla: Upplýsingatækniskólinn

Ljósmyndir: Hildur Guðmundsdóttir, Stefanía Jóhannesdóttir, Edda Oddsdóttir, Jón Arnar Sandholt.

Bók þessa má eigi afrita með neinum hætti, svo sem með ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis höfundar eða útgefanda.

ISBN 978-87-418-5774-9

EFNISYFIRLIT

INNGANGUR

Þetta er sagan af skóginum á Íslandi, að vísu aðeins örfáar svipmyndir af samskiptum þjóðar, lands og skóga. Þessi saga er að því leyti ólík öðrum sögum að sögu lok eru jafnlangt undan þegar bókinni lýkur og er hún hefst.

En þetta er bókin ykkar, hinna ungu Íslendinga. Það eruð þið sem haldið sögunni áfram og síðan taka aðrir við af ykkur og enn aðrir af þeim.

Í fáum orðum sagt. Við viljum færa Íslandi aftur þá skóga sem það átti einu sinni, fjölga trjátegundum þess og búa öðrum gróðri yl og næði í skjóli þeirra.

Mikið verkefni bíður okkar. Til þess að geta leyst það af hendi þurfum við að læra margt. Lærdóm og þekkingu getum við sótt til þeirra sem fróðari eru, hlýtt á mál þeirra sótt námskeið og skóla. En við getum líka sótt þekkingu í okkar eigin bók.

Ísland er með yngstu löndum jarðar og bera jarðmyndanir landsins glögg merki þess. Þau öfl sem sköpuðu landið eru enn að verki, enda er Ísland eitt af mestu eldfjallalöndum heims. Kunnar eru að minnsta kosti þrjátíu til fjörtíu eldstöðvar sem gosið hafa hundrað og fimmtíu sinnum frá landnámsöld.

Landið hefur að langmestu leyti hlaðist upp af tvenns konar bergtegundum, blágrýti og móbergi. Mótun þeirra er ólík enda breytist landslagið þar sem bergmyndanirnar mætast.

Blágrýtisfjöllin eru regluleg að lögun, hlaðin upp úr hraunlögum en móbergsfjöllin eru úr lausum, öskukenndum gosefnum sem hlaðist hafa upp undir jöklum og orðið síðan að föstu bergi.

Blá grýtis svæðin eru tvö, annað austanlands frá Breiðamerkursandi til Þistilfjarðar en hitt vestanlands frá Bárðardal til Kollafjarðar. Á milli blágrýtisspildnanna er lægð sem fyllst hefur yngri gosmyndunum, einkum grágrýti og móbergi. Á

þessu svæði eru enn flestar hinna virku eldstöðva. Auk þessa eru líparítmyndanir á víð og dreif um landið.

Fyrir um tíu þúsund árum eða í lok síðustu ísaldar hafði landslag á Íslandi fengið að mestu þann svip sem það ber nú. Þó hafa margs konar breytingar átt sér stað síðan af völdum eldgosa, vatns og vinda. Myndun landsins lýkur raunar aldrei. Eldgos hlaða upp landið en jöklar og ár brjóta það niður og úthafið sverfur strendur þess.

Gróður landsins var harla fáskrúðugur þegar ísöld lauk. Harðgerðar tegundir t.d. birki, víðir og ýmsar jurtir lifðu af fimbulvetur ísaldanna. Seinna barst til landsins fjöldi tegunda frá öðrum löndum.

Fyrst breiddust fáar, nægjusamar plöntur út um auðnina, svo sem grastegundir og nokkrar lágvaxnar blómplöntur ásamt birki og viði. Þetta er unnt að sjá enn í dag þar sem jöklar eyðast. Gróðurinn hafði nægan tíma til að breiðast um landið eftir því sem jöklanir hopuðu og loftslag hlýnaði. Hér voru engar skepnur til að granda honum í tíu þúsund ár, uns mannabyggð kom til sögunnar.

Gróðurinn skipaði sér í gróðurhverfi eftir því hvernig lífsskilyrði voru. Háfjallagróðurinn tók sér bólfestu við efstu gróðurmörkin sem neðar tóku önnur gróðurhverfi við. Þar sem vatn stóð uppi og deiglent var settist votlendisgróður að, í vötnum og tjörnum hafðist vatnagróðurinn við, en birkið lagði smám saman undir sig mestallt gróðurlendið og í skjóli skóganna dafnaði hinn fegursti blómjurtagróður. Birkið teygði sig einnig upp fjallshlíðarnar allt upp í fjögur til fimm hundruð metra hæð yfir sjó.

Þannig leit Ísland út, þegar fyrstu landnemarnir komu hingað.

Frá landnámsöld og fram á miðja fjórtándu öld lifðu Íslendingar aðallega á búskap og hlunnindum landsins. En hvað var það sem gerði vaxandi þjóð kleift að lifa nær eingöngu á landbúnaði í meir en fjórar aldir? Það var umfram allt víðáttumikið gróðurlendi, ekki hvað síst birkiskógarnir. Úr birkiskógunum fengu menn eldivið og viðarkol og efnivið í alls konar húsgögn og amboð. Á fyrstu öldum Íslands byggðar var járn unnið úr mýrarrauða. Var sú járnvinnsla nefnd rauðablástur, þurfti til hennar mikið

magn viðarkola. Einnig þurfti viðarkol til hvers konar járnsmíða og til að dengja gömlu, íslensku ljáina.

En birkiskógurinn veitti fyrst og fremst öðrum gróðri skjól og verndaði landið gegn uppblæstri. Hann mildaði veðráttuna, skýldi búfé í illviðrum og gerði kvikfjárrækt arðbærari. Hann var líka oft þrautalendingin í harðindum er heyskortur svarf að en þá var lim höggvið til fóðurs fyrir búfé. Þá var kornrækt miklu árvissari í skjóli skóganna.

Á fjórtándu öld dundu yfir þjóðina stórfelldar náttúruhamfarir. Heil byggðarlög eyddust af völdum eldgosa og jökulhlaupa t.d. í Skaftafellssýslum. Þessum hörmungum fylgdu síðan drepsóttir og hungurdauði.

Um miðja öldina fóru atvinnuhættir þjóðarinnar að breytast. Landbúnaði hnignaði þá ört, því að gróðurlendi var tekið að minnka mjög. Þjóðinni hafði fækkað, verkkunnáttu hrakaði og búskapur orðið einhæfari, kornyrkja t.d. lagst að mestu leyti niður. Íslensku landnemunum og afkomendum þeirra hefur eflaust þótt vænt um landið engu síður en okkur. En þá skorti reynslu og þekkingu til að nytja það skynsamlega og þetta kom harðast niður á skógunum. Þeir voru höggnir gegndarlaust þegar á fyrstu öldum Íslands byggðar. Þjóðin átti fárra kosta völ til þess að halda lífi frá ári til árs, frá öld til aldar. Hún átti þann kost einan að draga fram líf sitt á þeim náttúrugæðum, sem landið lagði í hendur henni. Þetta gerði hún.

Auðlindir landsins nýtti hún sér til bjargar og lét hverjum degi nægja sína þjáningu. Hún spurði ekki, hvernig sú lind yrði á morgun sem þurrausin var í dag og gekk svo nærri uppsprettunni sjálfri að hún varð aldrei söm eftir.

Fáir hafa lýst þessu betur en Stephan G. Stephansson:

Í þúsund ár hrísið og heyið

úr haganum reiddu menn inn.

Og naktara og nærskafnar flegið gat næstsetumaður en hinn.

Íslendingar gerðu sér ekki grein fyrir afleiðingum fyrr en í óefni var komið.

Víða í fornritum okkar er minnst á skógana sem verið hafa í landinu þegar ritin voru samin. Ari fróði segir að landið hafi verið viði vaxið milli fjalls og fjöru er það byggðist. Þessi frásögn er stórmerk því að hún er skráð af höfundi sem fáir véfengja.

Í Landnámu er víða getið um skóga. Við flettum upp í bókinni, finnum eftirfarandi kafla og lesum þar þessa sérstæðu og skemmtilegu frásögn:

„Þórir dúfunef var leysingi Öxna-Þóris; hann kom skipi sínu í Gönguskarðsós; þá var byggt hérað allt fyrir vestan; hann fór norður yfir Jökulsá að Landbroti og nam land á milli Glóðafeykis og Djúpár og bjó á Flugumýri. Í þann tíma kom út skip í Kolbeinsárósi, hlaðið kvikfé en þeim hvarf í Brimnesskógum unghryssi eitt en Þórir dúfunef keypti vonina og fann síðan. Það var allra hrossa skjótast og var kölluð Fluga.“

Í byrjun átjándu aldar lýsa Árni Magnússon prófessor og Páll Vídalín lögmaður Brimnesi þannig:

„Rifhrís er hér nokkuð til eldingar.“ Í dag er land þetta skóglaust með öllu.

Fátækt, einokun og versnandi stjórnarfar á Íslandi gerði þjóðinni æ erfiðara að byggja landið, og loks var svo komið um aldamótin 1700 að stjórnvöldin sáu að eitthvað varð að gera til þess að þjóðin yrði ekki aldauða.

Friðrik konungur fjórði skipaði því Árna Magnússon og Pál Vídalín til þess að rannsaka hag lands og þjóðar og gera tillögur til umbóta. Bjarni Pálsson, síðar landlæknir og Eggert Ólafsson ferðuðust einnig um landið laust eftir miðja öldina í sama skyni. Eggert samdi rit um ferðir þeirra félaga þar sem mikinn fróðleik er að finna um skógana á Íslandi.

Vegur Skúla Magnússonar landfógeta var þá mestur og eitt af umbótaáformum hans var að stofna til skógræktar í landinu. En þær tilraunir mistókust.

Nítjánda öldin hófst með Norðurálfuófriðnum mikla sem hafði örlagarík áhrif hér sem annars staðar. Skógræktarhugsjónin lá í gleymsku um sinn. En ekki var langt um liðið á öldina er ýmsir áhrifamenn fóru að rita um skógrækt. Þeir bentu á þær afleiðingar sem eyðing skóganna hefði haft í för með sér. Nú væri svo komið að síðustu skógarleifunum væri stefnt í beinan voða. Þess vegna yrði að gera eitthvað til að bjarga þeim frá tortímingu. Ekkert varð þó úr framkvæmdum fyrr en í lok aldarinnar.

Aldamótunum 1900 var fagnað um gervallt Ísland. Skáldin ortu hvatningarljóð til þjóðarinnar. Vonir um batnandi hag mótuðu kynslóðina sem þá tók til starfa og með henni hefst framfaraskeið í öllum greinum þjóðlífsins. Nokkrir einstaklingar höfðu ræktað tré í görðum sínum, náð góðum árangri og sýnt að gróðurskilyrði leyfðu ræktun trjáa.

Árið 1899 hófu danskir áhugamenn tilraunir með ræktun barrtrjáa á nokkrum stöðum og héldu þeim tilraunum áfram fyrstu sjö ár aldar innar. Nokkru seinna var Ræktunar félag

Norðurlands stofnað en það hafði mikið áhrif, einkum norðanlands. Ungmennafélög voru stofnuð um líkt leyti víða um land og tóku m.a. skógrækt á stefnuskrá sína. Árið 1907 voru sett á alþingi lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands fyrir forgöngu Hannesar Hafsteins. Landssjóður tók kostnað af skógræktinni á sínar herðar. Skógræktarstjóri var skipaður yfir allt landið en skógarvörður yfir hvern landsfjórðung. Tilraunum með ræktun barrtrjáa var haldið áfram til ársins 1913 en þá var þeim hætt og þráðurinn ekki tekinn upp aftur fyrr en eftir 1930. Starfssvið Skógræktar ríkisins verður nú tvíþætt: annars vegar friðun skógarleifa eins og fyrr, hins vegar fræsöfnun og uppeldi trjáplantna frá þeim stöðum á hnettinum þar sem loftslag er líkt og á Íslandi. Hér verða því tímamót í sögu íslenskra skógræktarmála.

Loks skal þess getið að Skógræktarfélag Íslands var stofnað á Alþingishátíðinni 1930 og þjóðin minntist lýðveldis á Íslandi 1944 með stofnun Landgræðslusjóðs.

Brautin er þó aðeins mörkuð en verkefnin bíða okkar.

Þetta var árangurinn af hugsjónum íslenskra aldamótamanna sem skáldið Hannes Hafstein lýsir í þessu erindi:

Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa, sveitirnar fyllast, akrar hylja móa, brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa, menningin vex í lundi nýrra skóga.

SKÓLAGARÐAR

Við köllum fram ímyndunaraflið og hugsum okkur að við séum stödd í skólagarði, þar sem við eigum að dveljast um tíma við nám og starf. Þessi skólagarður er á margan hátt öðruvísi en þeir sem íslensk æska hefur kynnst hingað til. Við sjáum mismuninn þegar lengra er lesið.

Umhverfið er hlýlegt. Skjólbelti úr víði, greni og birki hlífa hinum smágerða gróðri sem við erum að rækta. Hér sjáum við nokkrar trjátegundir í uppvexti en auk þess runna, blóm, kálplöntur og rótarávextir og er öllu þessu snyrtilega fyrir komið. Jafnframt vinnunni er okkur kennt hið nauðsynlegasta til þess að geta skilið ræktunina og farið rétt að öllu.

Við byrjum á því að læra ofurlítið um líf trjánna í skólagarðinum en seinna höldum við náminu áfram í Hallormstaðaskógi.

Gerð trjánna

Allar plöntur eru gerðar úr frumum. Utan um þær eru frumuveggir og innan þeirra er frymið en innst er frumukjarninn.

Í frymi grænu plantnanna er blaðgrænan. Hún er mest ofan til í blaðholdinu og í henni fara fram mikilvægustu efnabreytingar plöntunnar.

Í hverju tré eru margs konar frumur sem skipa sér saman og mynda vefi þess. Þar ríkir því verkaskipting eins og á sér stað í mannlegu samfélagi.

Börkurinn eða barkarvefirnir verja tréð gegn hnjaski og varna útgufun. Fyrir innan börkinn liggja sáldæðarnar sem eru myndaðar úr lifandi frumum. Eftir þeim berst næring sú sem grænu kornin vinna úr loftinu. Viðaræðarnar eru aftur á móti gerðar úr dauðum frumum sem eru vel tengdar saman og gefa trénu styrk og sveigjuþol.

Innan undir sáldæðunum er vaxtarlagið sem er eingöngu lifandi frumur. Við kynnumst starfi þess síðar. Þar fyrir innan

er svo viðarvefurinn sem er myndaður af dauðum viðaræðum og viðarfrumum. Innst er loks trjámergurinn.

Kolsýrunám

Trén eru lifandi verur eins og menn og dýr og þurfa þess vegna fæðu. Næringarefnin taka þau til sín úr jarðveginum og loftinu. Á blöðum og barri trjánna eru smáaugu sem andrúmsloftið smýgur inn um. En í loftinu er lítið eitt af koltvísýringi sem er samsettur af tveim frumefnum, kolefni og súrefni. Trén taka til sín koltvísýring úr loftinu en grænukornin vinna kolefnasambönd úr koltvísýringnum og vatni, svo sem sykur, mjölvi, tréni, olíur og fleiri lífræn efni.

Þessi mikilvæga starfsemi getur aðeins farið fram í nægilegri birtu og hita.

Allt líf á jörðunni á landi og í sjó á rætur sínar að rekja til þessara efnabreytinga og eru því plönturnar undirstaða lífsins á hnetti okkar.

Öndun

Kolsýrunámið fer aðeins fram í hinum grænu hlutum plöntunnar í birtu og hita eins og fyrr greinir, en allir hlutar hennar anda jafnt á degi sem á nóttu, bæði rætur, stöngull og blöð.

Trén anda að sér súrefni sem sameinast kolefnasamböndum en á þennan hátt losnar orka sem þau nota til efnabreytingar og vaxtar.

Öndunin er því andstæð við kolsýrunámið.

Öndun:

Súrefnið, sem plantan andar að sér, sameinast kolefnasamböndum hennar. Við það losnar orka, vatn og koltvísýringur.

Plantan léttist.

Kolsýrunám:

Úr kolefni og vetni myndar plantan lífræn efni, en súrefnið hverfur út í andrúmsloftið.

Plantan þyngist.

Öflun vatns og útgufun

Vatn er trjánum lífsnauðsynlegt við fæðuöflunina. Þau afla þess úr jarðveginum með rótunum og með því berast næringarefnin til hinna ýmsu hluta trésins.

Eins er útgufun vatns frá trjánum nauðsynleg, því að hún örvar vökvastrauminn og þar með flutning næringar um tréð. Útgufunin er mest frá laufi og barri trjánna og hún verður því örari sem heitara er í veðri. Einnig örva vindar útgufunina að mun.

Venjulegast geta trén bætt sér allt það vatn sem frá þeim fer við útgufunina. En sé hörgull á vatni í jarðveginum t.d. sakir langvarandi hita og þurranæðinga, þá er hætta á því að tréð geti ekki bætt sér missinn. Blöð þess linast og jafnvel visna og svo getur farið, að tréð deyi.

Öflun fæðu úr

jarðvegi

Jurtanæringarefnin leysast upp í vatni jarðvegsins og berast gegnum ræturnar og upp eftir viðaræðunum.

Næringarefnin sem trén taka til sín úr jarðveginum eru aðallega köfnunarefni, fosfór og kalí. Af öðrum næringarefnum má nefna kalk, magníum, brennistein, járn og bór.

Fyrrgreind efni hverfa aftur til jarðar þegar grös sölna eða tré falla og fúna. Öðru máli gegnir þegar land er slegið eða beitt, tré felld og flutt brott úr skógunum. Þá fer jarðveginn að skorta sum þessara efna, einkum köfnunarefni, fosfór og kalí. En unnt er þá að bæta úr næringarskorti með áburði.

Plönturnar verða veikbyggðar og hætta að vaxa, ef jarðveginn vantar steinefni eða köfnunarefni. Þess vegna er oft nauðsynlegt að gefa ungum trjám og runnum áburðarskammt en gæta verður þess að hafa hann ekki stóran. Of mikil áburðargjöf hefur skaðleg áhrif og getur grandað smáplöntum.

Fræ og lauf ilmbjarkarinnar (birki) að spretta fram að vori til. Þegar við finnum lyktina er vor í lofti.

Ljósm.: Stefanía Jóhannesdóttir

Eitt hið vandasamasta við alla ræktun er því að skera úr um áburðarþörfina.

Köfnunarefni eykur vöxt blaða og sprota.

Fosfór og kalí örva rótarvöxt og flýta fyrir blómgun og aldinþroska.

Tré, sem fá næga næringu, verja henni ekki eingöngu til vaxtar, heldur safna þau líka forðanæringu.

Í sólríkum sumrum safnast mikil forðanæring í trjánum til næsta árs. Vöxtur þeirra fer því mjög eftir veðráttu undanfarins sumars.

Vöxtur trjánna

Á hverju ári bætist við hæð trjánna. Þetta sést best á furu og greni, því að krans af greinum vex út úr stofninum þar sem ársvöxturinn byrjar. Þess vegna er auðvelt að geta sér til um aldur ungra trjáa með því að telja greinakransana.

En á gömlum trjám eru neðstu greinarnar fallnar brott svo að þessi aldursákvörðun er ekki einhlít. Því er ókleift að segja til umaldur gamalla trjáa fyrr en þau hafa verið felld en þá má telja árhringana.

Ljósir og dökkir hringar skiptast á í viðnum eins og sjá má þegar tré hafa verið felld. Þetta kemur af því að frumuskiptingin í vaxtarlaginu er mjög ör á vorin og viðurinn þá laus í sér og mjúkur. En er líða tekur á sumar verður frumuskiptingin hægari og dekkri. Öll tré sem eru af tvíkímblaðaflokknum svo og barrtré, gildna með þvi að bæta við sig nýju vaxtarlagi ár hvert.

Á veturna er hvíldartími trjánna.

Gott er að kunna skil á vexti plantna en við verðum einnig að muna að þær eiga sitt ákveðna æviskeið.

Grænu plöntunun er skipt í þrjá flokka eftir lífsskeiði þeirra: einærar, tvíærar og fjölærar plöntur.

Einærar jurtir spretta upp af fræi að vori, blómgast, fella fræ og deyja að hausti. Til þessara jurta teljast mörg fegurstu sumarblómin sem ræktuð eru í görðum.

Tvíærar jurtir safna forðanæringu fyrra sumarið en hið síðara blómgast þau, bera fræ og deyja að því loknu. Margar nytjajurtir teljast til þessa flokks, t.d. gulrófan og gulrótin.

Fjölærar plöntur eru þannig úr garði gerðar að þær geta lifað langa ævi og eru trén langlífust en þau geta lifað áratugum eða jafnvel öldum saman.

Broddfuran sem margir kannast við hér á landi, getur þannig

orðið allt að fjögur þúsund ára gömul. Hins vegar verður t.d. íslenska birkið aðeins um hundrað til eitt hundrað og fimmtíu ára gamalt.

Í skógunum þurfa að vaxa samtímis smáplöntur, ungur skógur, frætré og fullvaxinn skógur í hæfilegum hlutföllum. Ef ungu trjáplönturnar ná ekki að þroskast, eyðast skógarnir smátt og smátt.

GRÓÐURSETNINGARFERÐ

Í skólagarðinum skiptist á vinna og fræðsla jöfnum höndum allt sumarið.

Komið er fram í ágúst. Reitir okkar eru vel hirtir. Skjólbelti hafa verið klippt, grasfletir slegnir í síðasta sinn og kantar skornir. Á morgun hefst nýr þáttur í náminu. Við eigum að fara í gróðursetningarferð til Austurlands, í Hallormsstaðaskóg en þangað er ferðinni heitið vegna þess að þar er skógrækt á Íslandi lengst á veg komin.

Í Hallormsstaðaskógi

Hallormsstaðaskógur er við Lagarfljót sunnanvert. Landslag er þar hæðótt og víða nokkuð brattlent. Fjöllin suðaustur af Hallorms stað rísa allt að sex hundruð metra yfir sjávarmál og setja þau allmikinn svip á landslagið einkum Hallormsstaðaskóg.

Lögurinn, eða Lagarfljót öðru nafni, sígur þarna fram á leið til sjávar. Til að sjá er vatnsfallið líkara firði eða stöðuvatni en venjulegu fljóti. Ískalt jökulvatnið er gulgrænt á litinn og víða er það hyldjúpt. Svo lygn er þessi mikla móða á kyrrum sumardögum og svo mjúkar eru boglínur hennar í víkum og vogum að landslagið allt fær mildan blæ og ljúfan. Á bökkum þessarar miklu jökulelfar og upp frá þeim hefur vaxið frægasti og mesti skógur á Íslandi.

Grös, blóm, jurtir og lynggróður einkenna jurtagróður Hallormsstaðaskógar eins og annarra íslenskra birkiskóga. Gras- og blómlendi eru þar sem jarðvegur er frjór og rakur og virðist jarðrakinn hafa meiri áhrif á gróðurfarið en hæð yfir sjó.

Allt frá 1905 hefur Hall ormsstaðaskógur notið meiri eða minni friðunar. Innan skógræktargirðingarinnar eru sex hundruð og tuttugu hektarar lands, sem að mestu leyti er skóglendi.

Nú erum við stödd í Hallormsstaðaskógi. Við kynnumst hér

nýjum heimi og erum þó á Íslandi.Fyrsta daginn fáum við að vita hitt og þetta um fræ og meðferð þess.

Fræ

Öll skógrækt hér á landi er undir því komin að afla fræs af trjám sem vaxið hafa við svipaða veðráttu og ríkir á Íslandi. Það er brýn nauðsyn að kunna skil á fræi trjánna og meðferð þess það eð á því veltur allt um framtíð skóganna.

Fræið þarf hæfilegt raka- og hitastig til þess að spíra. Um spírunartímann verður því að hafa vakandi auga á sáðbeðunum. Einnig sækja fuglar mjög í allt fræ en frost og sjúkdómar spilla því oft. Það er því vandasamt starf að sá trjáfræi og annast smáplöntur.

Lauftré eru dulfrævingar. Þau blómgast og bera fræ í flestum árum en oft líða nokkur ár milli fræára barrtrjánna. Ef fræið á að ná góðum þroska, verður meðalhiti mánaðanna júní–september að vera allt að tíu stig á Celsíus.

Þess vegna ræður sumarhitinn mestu um útbreiðslu trjánna á norðurhveli jarðar og hversu hátt þau vaxa til fjalla.

Reklatré. Flest algengustu lauftrén sem vaxa í norðanverðri Evrópu teljast til reklatrjáa. Svo eru þau nefnd af því að blómin standa í reklum sem er þéttstæð, einkynja blómskipun. Til reklatrjánna teljast m.a. birki, víðir og ösp.

Barrtré eru berfrævingar. Fræblöð þeirra standa þétt saman og mynda köngla. Fræin liggja á milli fræblaðanna. Kvenblóm barrtrjánna oftast minni en karlblómin og standa tvö eða þrjú saman á greinarenda en karlblómin standa í klasa umhverfis neðsta hluta sprotans. Kvenblómin mynda könglana. Til barrtrjánna teljast meðal annars fura, greni og lerki.

Gróðrarstöðin

Nú vinnum við um sinn í gróðrarstöðinni á Hallormsstað en þá kemur sér vel að hafa unnið í skólagarði fyrr um sumarið. Allir sem kynnast vilja skógræktarstarfseminni verða að þekkja eitthvað til gróðrarstöðva því að þær eru undirstaða íslenskrar skógræktar.

Gróðrarstöðin á Hallormsstað er alls átján þúsund fermetrar eða tæpar sex vallardagsláttur að stærð. Hvergi sést yfir hana alla í einu því að henni er skipt í nokkra stóra reiti. Á hverju ári koma héðan um þrjú hundruð þúsund trjáplöntur sem er plantað á ýmsum stöðum, einkum á Hallormstað og austanlands.

Í stöðinni eru að jafnaði um ein og hálf milljón trjáplantna á aldrinum eins til fjögurra ára. Rétt er að minnast þess þegar horft er yfir þessar breiður af ungum trjáplöntum að þeim er líkt farið og ungum börnum. Þær eru viðkvæmari fyrir hnjaski en fullvaxin tré.

Skógarplöntur í uppeldi nema nú um einni og hálfri milljón á ári. Margar hendur þarf því til að planta þessu magni á sem skemmstum tíma þar sem íslenska sumarið er svo stutt.

Jarðvinnsla

Jarðvegur í gróðrarstöð þarf að vera myldinn, hæfilega rakur og nokkuð sandborinn. Vinna þarf jarðveginn vel en til þess eru nú notuð ýmis vélknúin jarðvinnslutæki.

Sáning

Trjáfræi er ýmist dreifsáð eða raðsáð í beð. Fræið er misjafnt að stærð og gæðum og því er ekki alltaf sáð sama magni í hvern fermetra. Fara verður gætilega með það og gæta þess að spilla því ekki í meðförum. Trjáfræ er dýrt og oft komið langan veg. Skógrækt rikisins fær m.a. fræ frá Alaska, Norður-Noregi og Rússlandi svo að nokkur helstu löndin séu nefnd.

Hirðing

Fjarlægja verður allt illgresi jafnóðum og það vex og sporna við sjúkdómum eftir mætti.

Fræ stafafurunnar eru bleik fyrsta árið og verða svo að brúnum könglum seinna meir. Ljósm: Stefanía Jóhannesdóttir

Vökvun

Vatn er nauðsynlegt öllum plöntum svo sem fyrr greinir. Því þarf að gæta þess vel að hvorki fræ né plöntur þorni um of í beðum, því að þá er dauðinn vís. Hættast er við ofþornun þegar sólfar er mikið og hlýindi. Þarf þá stundum að vökva daglega.

Dreifsetning

Plönturnar eru að jafnaði látnar standa tvö ár í sáðbeði. Snemma vors eru þær teknar upp, greitt gætilega úr rótum þeirra, þeim raðað í kassa og rakur mosi lagður yfir ræturnar. Úr kössunum eru plönturnar dreifsettar, en þá er þeim plantað í beð með fimm til tíu sentimetra millibili svo að þær fái nægilegt vaxtarrými. Í þessum beðum standa þær í tvö eða þrjú ár en þá eru þær orðnar svo stórar að þær eru hæfar til plöntunar.

Vetrarumbúðir

Öll þessi störf væru unnin fyrir gýg, ef ekki væri búið um plönturnar undir hinn umhleypingasama íslenska vetur. Er þetta gert með því að leggja lim yfir beðin og sand og mosa að plöntunum svo þær sviðni ekki undan vetrarstormum og í vorkuldum. Þetta er þó ekki einhlítt því að ávallt ferst eitthvað af plöntum, þrátt fyrir allan umbúnað.

Trjátegundir

Við sem erum svo lánsöm að dveljast sólríka vor- og sumardaga í skólagarði og höfum nú vikudvöl í Hallormsstaðaskógi, hljótum bráðlega að verða fær um að veita öðrum leiðbeiningar. Við getum strax sagt þeim þetta:

Birki eða ilmbjörk hefur myndað skóg hér á landi ein allra trjátegunda. Á Suðurvesturlandi og um Vestfirði er birkið víðast lágvaxið kjarr en svæðið frá Vestfjörðum að Eyjafirði er skóglaust með öllu. Í Þingeyjarsýslum eru allvíðlendir birkiskógar og kunnastur þeirra er Vaglaskógur, sem er einn beinvaxnasti og fegursti birkiskógur landsins. Á Austur- og Suðausturlandi eru Hallormsstaðaskógur og Bæjarstaðaskógur frægastir en á Fljótsdalshéraði eru mörg skóglendi. Á Suðurlandi eru skógarleifar í uppsveitum Árnessýslu; suður af Heklu, í Þórsmörk og Skaftártungu.

Birki þarf frjóan og rakan jarðveg ef það á að vaxa vel en það getur líka haldið lífi við erfiðari aðstæður en flestar íslenskar Laufblað af birki og birkifræ.

plöntur. Það er ljóselskt og þolir illa að standa í skugga. Stærstu bjarkir á Íslandi eru um 13 metrar á hæð.

Reyniviður myndar hvergi skóga en vex hér og hvar innan um aðrar trjátegundir. Reynirinn verður allt að tíu metrar á hæð.

Auk íslenska reynisins eru þessar erlendu reyniviðartegundir: gráreynir, silfurreynir og seljureynir.

Blæösp hefur fundist villt á fimm stöðum hér á landi og hefur verið ræktuð nokkuð í trjágörðum. Meiri vonir eru tengdar við aspartegund þá sem kennd er við Alaska og flutt var þaðan í fyrsta sinn hingað til lands árið 1944.

Alaskaösp hefur nú verið reynd víða um land og vaxið mjög hratt. Aðeins eitt kvæmi1 af henni hefur hingað til verið flutt til landsins en reyna þarf fleiri því að vorhret hafa skemmt hana víða um Suðurland.

Alaskaösp þarf frjóan og rakan jarðveg, gott skjól og gras má ekki vaxa að stofni hennar ef hún á að ná skjótum vexti.

Elri, hvítelri og rauðelri svipar til birkis og er af sömu ætt. Það hefur aðeins lítið eitt verið ræktað í trjágörðum hér á landi og í tilraunaskyni í skóginum á Hallormsstað.

Elri vex aðallega í rökum og djúpum jarðvegi, einkum meðfram ám og lækjum. Það er útbreitt um Asíu, Evrópu og NorðurAmeríku og vex þar á norðlægum slóðum.

Hið merkasta við elri er að á rótum þess lifa sveppir sem vinna köfnunarefni úr loftinu.

1 Kvæmi er notað sem þýðing á erlenda orðinu proveniens sem merkir uppruni.

Á vorin springa út fyrstu laufin á trjágreinum eftir kaldan vetur. Ljósm.: Stefanía Jóhannesdóttir

Blæösp. Alaskaösp.

Lerki.

Álmur, ættaður úr Norður-Noregi, hefur reynst vel hér á landi. Hann er fremur bráðþroska í frjóum jarðvegi og er fremur stormþolinn. Álmur hefur verið notaður í skjólbelti með góðum árangri.

Hlynur er fallegt tré með stóra, fagurlagaða krónu. Hann er ræktaður sem garðtré á nokkrum stöðum hér á landi.

Hlynur vex um Evrópu sunnan- og vestanverða og á Bretlandseyjum.

Enn mætti nefna ýmis lauftré og margar víðitegundir er vaxa í Hallormsstaðaskógi og einnig skrautrunnar sem henta íslenskum staðháttum og notaðir eru í skrúðgarða. En þetta verður að nægja.

Lengi er verið að fara um skóginn, þótt aðeins lauftrén séu skoðuð.

Nú líður að kvöldi og við verðum að halda heim á leið.

Við Kerlingará er numið staðar hjá björk nokkurri sem nú er orðin gömul og feyskin. Sagan segir að einhverju sinni hafi Páll Ólafsson skáld mælt þessi orð til hennar er hann fór þar um veg:

Gott átt þú, hrísla’ á grænum bala, glöðum að hlýða lækjarnið.

Árla næsta morguns, áður en vinna hefst, byrjum við að skoða barrtrén og fræðast um líf þeirra. Við förum inn í Guttormslund sem er vísir að fyrsta barrskógi á Íslandi og þar segir skógarvörðurinn okkur frá lerkinu og ræktun þess.

Hér sannast, að sjón er sögu ríkari.

Síberískt lerki hefur verið ræktað á nokkrum stöðum um alllangt skeið og er því meiri reynsla fengin um vöxt þess við íslenskar aðstæður en flestra annarra barrtrjáa.

Lerkið er ljóselskt tré og er mjög hraðvaxta i æsku. Það vex í alls konar jarðvegi en nær bestum þroska í frjórri jörð eins og flest önnur tré.

Lerki er kjörviður og er notaður í vönduð hús, báta og bryggjur. Bændur hafa sóst mjög eftir lerkistaurum úr Hallormsstaðaskógi í girðingar af því að slíkir staurar taka öðrum fram að gæðum. Rauðaviðurinn sem svo var nefndur á rekafjörum áður fyrr, var lerki.

Lerki er meginlandstré. Þess vegna er áhersla lögð á ræktun þess í innsveitum norðan- og austanlands þar sem úrkoma er lítil.

Næst er ferðinni heitið að Jökullæk til að skoða rauðgrenitré.

Hlynur.

Þessi tré eru mjög fögur og hafa náð ágætum þroska. Hæstu tré eru yfir 13 m á hæð.

Rauðgreni vex um Norður-Evrópu. Um aldamót var farið að planta því í Tromsfylki í Noregi, jafnvel á stöðum sem eru fimm hundruð kílómetrum norðar en Ísland og þar eru nú gróskumiklir rauðgreniskógar.

Hér á Hallormsstað hefur verið plantað talsverðu rauðgreni hin síðari ár.

Rauðgreni hefur náð góðum vexti víða um land en því verður að velja skjólríka staði, helst í halla og það gerir miklar kröfur til jarðvegs, einkum að hann sé vel rakur. Árlega er flutt til Íslands töluvert af dönsku rauðgreni sem notuð eru í jólatré. Ekki munu líða mörg ár þar til Íslendingar fá nóg af jólatrjám úr íslenskum barrskógum. Það sáum við hér á Hallormsstað.

Nú er snúið við og numið staðar á Atlavíkurstekk þar sem ýmsar erlendar trjátegundir vaxa.

Hér stendur nú um tuttugu ára hvítgreni sem dafnað hefur allsæmilega. Heimkynni hvítgrenis er Norður-Ameríka.

Frá Atlavíkurstekk er haldið út í Mörk sem er kunnasti staðurinn í Hallormsstaðaskógi. Þar er gróðrarstöðin, þar voru fyrstu tilraunirnar gerðar með ræktun erlendra barrtrjáa og standa þar mörg fögur og hávaxin tré frá þeim tíma.

Blágreni er sú tegund barrtrjáa sem einna fyrst var gróðursett á Íslandi.

Í Mörkinni á Hallormsstað standa nokkur tré sem eru yfir hálfrar aldar gömul. Þau hafa vaxið vel og lofa góðu um ræktun blágrenis á Íslandi.

Blágreni hefur verið gróðursett á nokkrum stöðum hin síðari ár, m.a. hafa nokkrar þúsundir plantna vaxið upp af fræi blágrenitrjánna í Mörkinni.

Blágreni er upprunnið í Klettafjöllum Norður-Ameríku.

Lýsishóll nefnist svæði utarlega í skóginum og þarna eigum við að byrja að planta. Hér fer saman mikil gróska, fagurt útsýni og fjöldi erlendra trjátegunda sem fróðlegt er að kynnast. Við nemum staðar hjá sitkagreni fyrir neðan Fálkaklett og hlustum á útskýringar þeirra sem vita meira en við.

Sitkagreni er bráðþroska trjátegund og þrífst best í loftslagi þar sem úrkoma og loftraki er mikill. Það er útbreitt um vesturströnd Norður-Ameríku, allt norður í Alaska en það vex sjaldan meir en hundrað kílómetra frá sjó.

Af þessu sést að sitkagreni þolir vel sjávarseltu og raka og ætti

Rauðgreni. Grein með köngli.

því að vera hentug trjátegund fyrir eyland þar sem veðurskilyrði eru áþekk og í Alaska.

Sitkagreni hefur verið gróðursett í tilraunaskyni á Hallormsstað en þar er of þurrviðrasamt fyrir það.

Auk fyrrgreindra trjátegunda vaxa svartgreni og broddgreni í Hallormsstaðaskógi. Þá vaxa hér einnig nokkrar tegundir af þin: Síberíuþinur, balsamþinur, hvítþinur og fjallaþinur en hann er vænlegastur til ræktunar hér á landi af þessum tegundum. Fjallaþinur er hið fegursta garðtré og vinsælt jólatré.

Loks er skylt að nefna marþöll og fjallaþöll en lítil reynsla er enn fengin um þroska þeirra við íslenska staðhætti.

Útsýni er fagurt af Lýsishól. Í björtu veðri ber Snæfell við loft yfir sunnanverðu Lagarfljóti. Fljótið býr yfir sérstæðum töfrum á kyrru kvöldi síðsumars í þann mund er bregða tekur birtu.

En þó verður að halda heim. Staðnæmst er við Vínlæk, dálitla lind í Gatnaskógi. Þar nema allir staðar sem leið eiga um skóginn.

Skógarvörðurinn fer með okkur niður í Mörk, áður en við byrjum að vinna næsta dag og sýnir okkur ýmsar furutegundir.

Skógarfuran er með elstu barrtrjám heims. Hún vex um alla Norðurálfu allt frá Suður-Evrópu til nyrsta héraða Noregs og austur að Kyrrahafi.

Skógarfuran hefur verið gróðursett í Hallormsstaðaskógi og fræ fengið frá ýmsum stöðum í Noregi og Svíþjóð. Hún er með nægjusömustu trjám en samt sem áður hefur ræktun hennar á Íslandi gengið misjafnlega. Orsökin er sú að skjaldlús sækir á hana og gengur oft svo nærri henni að ungar plöntur deyja. Aðrar eru að veslast upp í mörg ár. Örfáar standa þó af sér lúsina og sumar ná sér aftur eftir langan tíma.

Elstu skógarfururnar á Hallormsstað voru gróðusettar um 1909 og eru nokkrar þeirra orðnar að fallegum trjám.

Fjallafuran er oftast margstofna runni, sem getur orðið allt að því fimm metra hár. Danir höfðu ræktað fjallafuru á jósku heiðunum í tugi ára áður en skógrækt hófst á Íslandi. Þess vegna var hún flutt hingað til lands, jafnskjótt og byrjað var á skógrækt hér.

Fjallafura er ennþá nægjusamari en skógarfura og þar sem hún vex bætir hún jarðveginn og eykur frjósemi hans. Stundum ber hún hér fullþroska fræ og hefur sáð sér út af sjálfsdáðun. Heimkynni fjallafurunnar eru í Alpafjöllum.

Bergfura er náskyld fjallafuru en sá er munur á þeim að bergfuran vex upp af einum stofni og verður alt að því tíu metra hátt

tré. Hún bætir jarðveginn á sama hátt og fjallafuran. Bergfura vex hátt yfir sjó í Alpafjöllum og Pýreneafjöllum.

Broddfura er háfjallatré og er mjög seinþroska. Hún verður aldrei stórvaxin fremur en bergfuran, er jafnvel ennþá harðgerðari og á Hallormsstað hefur hún borið þroskað fræ á hverju ári í meir en áratug. Broddfuru var sáð í Mörkina á árunum 1903–1906 og eru þar nú nokkrir tugir trjáa frá þessum árum.

Stafafura var ekki gróðursett á Hallormsstað fyrr en 1940. Þá voru fáeinar plöntur settar niður á Atlavíkurstekk. En á síðari árum hefur hún verið sett víða um land og dafnar yfirleitt vel. Hún er harðger, hraðvaxta og hefur borið hér þroskað fræ.

Heimkynni stafafurunnar eru vesturhéruð Norður-Ameríku.

Lindifura vex í fjöllum Mið-Evrópu og austur um alla Asíu.

Til hennar var sáð á Hallormsstað og víðar á árunum 1903–1906. Í Mörkinni standa nú um hundrað lindifurur á víð og dreif og hafa sumar þeirra náð ágætum þroska.

Lindifuran er eitt hið fegursta tré með löngu og mjúku barri og standa fimm nálar ávallt saman í knippi.

Við höfum nú skoðað helstu útlendu trjátegundirnar á Hallormsstað og vinnan verður æ skemmtilegri. Skógurinn er heill ævintýraheimur og við hlökkum til hvers dags því að alltaf gerist eitthvað nýtt.

Við hættum vinnu í þetta sinn, setjumst í hvirfingu og tökum lagið. Ljóð Laxness um skóginn varð fyrir valinu í þetta skipti:

Bláfjólu má í birkiskógi líta.

Blessað sé norðurhvelið, sem mig ól!

Hallormur, má þá ei til einhvers nýta þinn unga vin á nýjum sparikjól, . . .

JARÐVEGUR

Skógurinn er töfraheimur sem margir láta sér nægja að hrífast af en færri hafa kynnt sér.

Við skulum enn ganga út í skóg, virða fyrir okkur blóm og grös, fræðast um líf þeirra og sambúð þeirra við skóginn.

Frjómoldin er ein mesta auðlind hvers lands. Hún er kvik af lífi. Þar eru heimar ótal tegunda af smádýrum, gerlum og sveppum. Þessar lífverur breyta leifum plantna og dýra í næringu handa nýjum gróðri og stuðla að aukinni frjósemi. Þar sem hlýju og skjóls nýtur, búa þessar lífverur við betri lífskilyrði en á berangri og því eykst frjósemin á slíkum stöðum.

Ef til vill er brýnna fyrir Íslendinga en nokkra aðra þjóð sem fæst við skógrækt að gera sér grein fyrir þessu því að landið liggur langt í norðurvegi og má heita skóglaust eins og nú er komið. En þegar skógarnir hurfu, þvarr skjólið sem þeir veittu og jafnframt minnkaði frjósemi landsins og gróðurbreytingar fylgdu í kjölfarið. Við þurfum að hafa þetta í huga og velja um sinn til skógræktar þá staði, svæði eða héruð sem hagstæðust eru fyrir trjágróður.

Slíkir staðir eru margir eins og reynslan hefur þegar sannað.

Við skulum drepa á nokkuð atriði sem miklu máli skipta þegar land er valið til skógræktar:

Tré vaxa yfirleitt betur í halla en á flatlendi. Þar seytlar súrefnisríkt jarðvatn í sífellu um efstu lög jarðvegsins, flýtir fyrir rotnun jurtaleifa og þar verður jarðvegur frjór og gljúpur.

Trén þurfa skjól fyrir þurrustu vindáttinni. Helst ætti að velja trjálundum stað í halla mót suðvestri þar sem staðhættir leyfa.

Undir hömrum er skjól og bergið varpar frá sér hita, jafnvel eftir sólsetur.

Auðveldast er að átta sig á gæðum jarðvegs með því að athuga gróðurhverfin.

Í skógivöxnum löndum eru hæð og aldur trjáa notuð til að

Til að gróðursetja furu skal byrja á því að skera holu, um 20–30 sm í þvermál, með bjúgskóflu. Svo skal setja furuna ofan í og staðsetja við kantinn á holunni. Að lokum skal setja moldina úr holunni aftur þar sem hún var og vökva reglulega fyrstu vikuna.

dæma um grósku skógræktarsvæða. Síðan er vaxtarstöðum skipað í gróskuflokka.

Hér á landi er þessu á annan veg farið, þar sem við eigum aðeins birkiskóga sem sætt hafa misjafnri meðferð um langan aldur. En samt getum við haft hliðsjón af þessu. Hallormsstaðaskógi hefur nýlega verið skipt í þrjá gróskuflokka og gróðurhverfin síðan flokkuð eftir þeirri skiptingu. Þetta hefur auðveldað staðarval fyrir ýmsar erlendar trjátegundir og gefið þar með von um betri og árvissari vöxt.

Í fyrsta og besta gróskuflokknum vaxa elftingar, reyrgresi og ýmsar blómplöntur. Í slík gróðurhverfi er grenitegundum, þin og lauftrjám plantað. Í öðrum flokki vex língresi, bugðupunktur ásamt bláberja- og hrútaberjalyngi. Þar er aðallega plantað lerki. Kræki- og sortulyng lendir svo í þriðja og lakasta gróskuflokknum. Furutegundunum er valinn þessi flokkur, enda fá þær fegurstan vöxt í ófrjórri jörð.

Á bersvæði, þar sem land er beitt um langan tíma, hverfa flestar blómplöntur. Allerfitt er því að dæma um grósku slíks lands. En eftir nokkurra ára friðun skjóta blóm plönturnar upp kollinum á nýjan leik. Allr kannast við þetta úr laufskógagirðingum víðs vegar um land. Blágresi, brennisóley, brönugrös, fjalldalafífill, maríustakkur og umfeðmingur vaxa t.d. aðeins í frjórri mold. Þar sem raki er mikill vaxa geithvönn og mjaðurt. Gróðurhverfi, þar sem mest ber á heilgrösum, reyrgresi og elftingum er yfirleitt gott skógræktarland. Kræki- og sortulyng, svo og ýmsar blómplöntur, svo sem holtasóley, blóðberg, geldingahnappur, gulmaðra, lambagras og holurt vaxa helst í frjóefnasnauðu landi. Í tirjóttu og þurru mólendi ber oft mest á þursaskeggi og móasefi, en varhugavert er að taka slíkt land til skógræktar nema bylta því fyrst og bera í það lífrænan áburð. Mýrlendi þar sem ýmsar starir vaxa, getur loks orðið

ágætt til skógræktar ef það er hæfilega þurrkað. Þar bíða mikli verkefni. Í mörgum skógræktargirðingum eru leirflög, melar og rofabörð. Í slíkt land má ekki gróðursetja tré nema rækta jafnhliða annan gróður, til dæmis lúpínur.

Plöntun

Fátt virðist einfaldara en setja niður trjáplöntur. En þetta verk verður að leysa af hendi af nákvæmni og fyllstu alúð. Annars er allt unnið fyrir gýg.

Oft heyrist því fleygt að trjáplöntum sé víða holað niður í flaustri og þar við látið sitja.

Sannarlega má ekki kasta til þess höndum að planta trjám. Sakir hroðvirkni hafa margar plöntur farið forgörðum, margfalt fleiri en þær sem deyja af öðrum orsökum, t.d. í þurrki, frosti og illri meðferð í upptöku eða við flutning.

Hvenær á að planta?

Plöntun getur hafist þegar snjóa leysir á vorin og jafnvel áður en frost er úr jörðu. Þá er jarðrakinn mestur. Halda má verkinu áfram til miðs júní þegar tíð er vætusöm. En þá er vissara að hætta plöntuninni í bili. Mesta hitatímabil sumarsins er þá framundan og jarðvegurinn farinn að þorna. Í byrjun ágúst má venjulega hefjast handa á nýjan leik en hætta aftur í lok þess mánaðar. Þó má halda áfram nokkru lengur ef gróðursett er inni í skógi eða kjarrlendi.

Staðarval

Enginn skyldi hefja trjáplöntun fyrr en hverri tegund hefur verið valinn staður og reiknað út hve mikið land fer undir væntanlega plöntun. Þetta þarf að gera áður en plönturnar eru pantaðar svo tryggt sé að hver tegund fái jarðveg við sitt hæfi. Flokkun á landi eins og sagt er frá í kaflanum um jarðveg og grósku kemur í veg fyrir að menn panti óhentugar trátegundir.

Útvegun plantna

Þá kemur að því að útvega plöntur en þær verður að panta tímanlega frá næstu gróðrarstöð. Ef gróðursetja á greni mega plönturnar ekki vera yngri en fjögurra ára. Stærð og aldur plantnanna verður þó ætíð að miða við vaxtarskilyrði á staðnum. Þar sem grasvöxtur er mikill skal eingöngu planta stórum og þroskamiklum plöntum. Ekki sakar að skýra frá plöntunar-

stað, ástandi girðingar, landstærð og landgæðum um leið og plönturnar eru pantaðar svo að skógarverðir eigi auðveldara með að átta sig á verkinu og gefa leiðbeiningar.

Vinnutilhögun

Alla vinnu verður að skipuleggja mjög vel áður en plönturnar koma á áfangastað. Verkfæri þurfa að vera næg og góð og útvega þarf eftirfarandi áhöld í tæka tíð: bjúgskóflur, haka, stunguskóflu, þjalir, trjáklippur, beittan hníf, plöntupoka, snúrur og hæla eða merkjaflögg.

Allt á að vera komið á staðinn áður en plönturnar koma svo að verkið geti hafist án tafar.

Þegar plöntur koma á áfangastað skulu þær strax leystar úr umbúðunum, greiddar varlega í sundur og síðan settar í rásir.

Rásirnar skulu vera á skuggsælum og skjólgóðum stað. Þannig má geyma plöntur í nokkra daga. Ef sólfar er mikið er nauðsynlegt að breiða yfir þær en forðast skal að vökva þær um of.

Verkfæri

Hér á landi eru einkum notuð tvenns konar verkfæri við plöntun.

1. Bjúgskófla. Hún er aðallega notuð þar sem jarðvegur er ekki grýttur. Fljótlegt er að planta með þessu verkfæri og getur vanur maður sett niður sjö til átta hundruð plöntur með því á einum degi í góðu landi.

2. Plöntuhaki. Hann er notaður þar sem land er grýtt. Nokkru seinlegra og erfiðara er að planta með haka en bjúgskóflu.

Hvernig á að planta?

Trjáplöntur eru settar niður á mismunandi hátt. En eitt verður ávallt að hafa hugfast þegar planta er handleikin:

Hún er lifandi!

Hér á landi er mestallt trjáfræ innflutt og kostnaður við plöntuuppeldi mikill. Þess vegna er hver planta mikils virði.

Því er brýn nauðsyn að sá sem plantar minnist þess ávallt að án vandvirkni hans er einskis árangurs að vænta.

Þessar aðferðir eru algengastar við plöntun:

1. Plantað við lóðréttan holuvegg

a) Bjúgskófla

Hola er stungin eins og með venjulegri skóflu. Bjúgskófla er þannig gerð að stinga þarf aðeins á tvo gagnstæða vegu þannig að

moldarhnaus liggur laus á skóflunni í seinni stungu. Þess verður umfram allt að gæta að annar veggur holunnar sé lóðréttur.

Plantan er sett niður í holuna, lögð að lóðrétta veggnum og greitt úr rótum hennar. Síðan er hnausunum ýtt af skóflublaðinu ofan í holuna þannig að hann falli í fyrri skorður og loks er stigið á hann með öðrum fæti svo að plantan sitji vel föst.

Komi það fyrir að rætur plantna séu langar svo að þær bögglist í botni holunnar, verður að rótstýfa með beittum hníf eða trjáklippum.

b) Haki

Þegar haki er notaður við plöntun er grasrótin höggvin af 20x20 sentimetra fleti og hola gerð með hakablaðinu þannig að einn veggur hennar verði lóðréttur, moldinni rótað upp úr holunni með hakablaðinu og mulin, ef með þarf.

Þessi plöntun er að því leyti frábrugðin hinni fyrri að besta gróðurmoldin er nú sett næst rótum plöntunnar, grasrót fjarlægð og áburðargjöf því auðveldari.

Sjálfsagt er að planta með haka þar sem land er grýtt eða grasvöxtur mikill.

Eftir plöntun skulu greni og furutegundir standa jafndjúpt og þær stóðu í græðireit en lerki og lauftrjám nema birki, reyni og elri skal planta nokkru dýpra.

2. Plantað með útflattri rót

Grenitegundum er stundum plantað á þennan hátt og er þá haki notaður. Grasrótin er höggvin af eins og getið er um hér að framan. Síðan er jarðvegur losaður niður í sjö sentimetra dýpt og honum rótað upp úr flaginu með hakanum, Þá er plantan tekin, sett ofan í jarðsárið og greitt úr rótum hennar til allra hliða. Besta gróðurmoldin er lögð á hvolf kringum plöntuna.

Ef þjappað er hæfilega að plöntunni með öðrum fæti á hún að hafa nægilega festu í moldinni.

3. Garðplöntun

Alldjúp hola er þá grafin með venjulegri stunguskóflu, lífrænn áburður settur í botn holunnar og honum blandað saman við jarðveg. Þá er plantan tekin og henni haldið í miðri holu á meðan greitt er úr rótum og holan fyllt emð mold. Að lokum þarf að stíga þéttingsfast í kringum plöntuna svo að hún sitji föst. Á þennan hátt eru stórar plöntur yfirleitt settar niður.

Skref 1: Grafið 30–50 sm djúpa holu, eftir því hversu stórar ræturnar á plöntunni eru.

Skref 2: Raðið plöntunum í röð með 20–40 sm millibili.

Skref 3: Setjið mold ofan á ræturnar og þjappið vel. Gott er að þrýsta með líkamsþunganum.

Skref 4: Hafið 1–3 meters bil á milli raða, eftir því hve breið plantan verður fullvaxin.

Gróðursetning með haka. Fyrst skal höggva beint niður, ekki meira en 5°halla. Næst skal höggva aftur, nú með u.þ.b. 45°halla. Að lokum skal setja plöntuna ofan í og setja moldina aftur á sinn stað.

Við höfum nú rifjað upp ýmislegt sem okkur er kennt um plöntun en við höfum ekki enn minnst á hvernig vinna okkar í skóginum fer fram.

Við byrjum á því að taka nokkra tugi trjáplantna úr beðinu sem þær hafa vaxið í, setjum þær í kassa eða plöntustamp og förum með þær út í Lýsishól. Þar eru plönturnar settar niður eins og fyrr segir. Ráðstafanir eru gerðar til þess að rætur plantnanna þorni ekki, hvorki í upptöku né við plöntun og strangt eftirlit haft með því. Fyrst í stað er ætlast til að tveir vinni saman og setji niður og gangi frá einni plöntu á mínútu. En afköstin vaxa með aukinni leikni.

Okkur er skipt í fimm manna hópi og gert ráð fyrir að hver hópur setji niður til jafnaðar áttatíu plöntur á klukkustund. Einn úr fimm manna flokknum er verkstjóri sem fylgist með því ásamt kennaranum, að vandlega sé plantað. Við vinnum þá af kappi í tuttugu mínútur en síðan er hvíld í tíu mínútur. Sá tími er notaður til að fræða okkur um skógrækt en stundum njótum við einnig hvíldarinnar eins og okkur best lystir. Vinnum síðan enn í tuttugu mínútur og aftur er tíu mínútna hvíld. Þannig koll af kolli.

Hér hafa snúrur verið strengdar og ætlast er til að plantað sé meðfram þeim svo að bil milli plönturaða sé jafnt. Þá er lerki og greni sett í plöntupokana og vinnan hefst skipulega.

Plantað er í brekku og við byrjum neðst. Þegar lokið er við að planta með hverri snúru er hún færð til. Bil milli þeirra er haft um 1,50 m og á milli plantnanna er haft svipað bil. Þó verður að gæta þess að velja bestu staðina fyrir plönturnar þótt gert sé ráð fyrir þessu millibili og planta hvorki á þúfnakolla né í dældir milli þúfna, þar sem hætta er á að vatn safnist fyrir. Ekki má heldur setja í flög eða melfláka.

Unglingarnir planta af krafti og stinga fyrst fyrir með bjúgskóflu eða haka. Þeir gæta þess að taka plönturnar ekki úr

pokunum fyrr en holan er fullgerð. Annars þorna ræturnar. Þeir varast einnig að sólin nái nokkuð að skína á ræturnar.

Í fyrstu eru þeim mislagðar hendur en æfast fljótt. Sumir eiga erfitt með að festa plönturnar nægilega, nokkrir böggla ræturnar og aðrir setja plöntuna of djúpt. En það verður hverjum að list sem hann leikur.

Þannig líður dagurinn og brátt er vel unnu dagsverki lokið. Við göngum frá plöntum og áhöldum og hver hreinsar mold af sínu verkfæri.

Við höfðum nú plantað nokkrum þúsundum trjáa í skóginn.

Eftir tuttugu ár getum við vonandi sagt eins og Stephan G. Stephansson í kvæðinu Í Nýjaskógi:

Nú prýða sig hæðirnar tvítugum trjám. – Í tirjunum grúfðu þær sviðnar og auðar er kynni vor hófust, frá kolli o´n að tám með kvikuna bera og vorgróður-snauðar.

Þetta erindi á þó enn betur við þegar við förum að planta í skóglaust land.

Til minnis

1. Farið gæti lega með rætur plantnanna og látið þær hvorki þorna né sól skína á þær.

2. Geymið aldrei plöntur í umbúðum dægurlangt, hvorki utanhúss né innan.

3. Hellið aldrei vatni á rætur trjáplantna og dýfið þeim því síður niður í vatn.

4. Kynnið ykkur nákvæmlega hve djúpt á að setja hverja trjátegund.

5. Greiðið vel úr rótum plantnanna og skerið heldur af þeim lengstu með beittum hníf en að láta þær bögglast í holunni.

6. Látið ætíð bestu gróðurmoldina falla næst rótunum við plöntun.

7. Farið gætilega með áburð og látið tilbúinn áburð aldrei snerta ræturnar.

8. Skiljið aldrei eftir djúpa laut við plöntuna að plöntun lokinni.

9. Forðist að planta í þurranæðingi eða breyskjuhita.

10. Fylgist vel með vexti plantnanna fyrstu árin eftir plöntun og setjið nýjar plöntur í stað þeirra sem deyja.

GIRÐINGAR

Einn daginn hættum við vinnu fyrr en endranær.

Úti við Hafursá eru menn að lagfæra skógræktargirðinguna og endurnýja nokkurn hluta hennar. Við skulum skreppa þangað. Það á að sýna okkur hvernig verkið er unnið og hvernig svona girðingar eigi að vera. Við eigum sem sé að kynnast flestu sem lýtur að skógrækt.

Girðingar skal vanda vel því að þær eiga að standa lengi. Fyrst þarf að velja besta girðingarstæðið, því næst útvega gott efni og í þriðja lagi setja niður trausta hornstaura og máttarstólpa á réttum stöðum. Þá er net og gaddavír strengt á þessa staura en grennri staurar reknir niður á eftir og girðingin einnig reist á þá. Skógræktargirðingar eru rúmur metri á hæð, sjaldan yfir hundrað metrar milli máttarstólpa og tíu metrar á milli venjulegra staura. En á milli þeirra eru negldar tvær renglur á girðinguna til að treysta hana. Ganga þarf sérstaklega vel frá hlið-, máttar- og hornstólpum.

Jarðýtur eru stundum notaðar til að jafna girðingarstæði svo að auðveldara sé að beita vélknúnum tækjum við verkið og létta flutninga efnis. Ekki þarf að hlaða undir slíkar girðingar.

Okkur þótti gaman að sjá vinnubrögð girðingarmannanna við Hafursá því að svona vinnu höfðum við ekki áður séð. En hitt þótti okkur merkilegt að þarna voru eingöngu notaðir lerkistaurar úr Hallormsstaðaskógi. Við höfðum einmitt verið að planta lerki og okkur fannst það öðlast meira gildi við þessa sjón.

Hvað gæti þjóðin sparað mikið ef hún ræktaði nógan efnivið í girðingastaura í landinu sjálfu, og hvað gætu margir unglingar fengið sumarvinnu við þessa ræktun?

Samt er hið mikilvægasta enn ótalið. Við hugsuðum til allra litlu plantnanna í skóginum. Þær myndu flestar tortímast og aldrei verða að trjám ef landið væri ógirt.

Við biðjum því alla að taka höndum saman og muna:

µ að loka alltaf hliði á eftir okkur

µ að klifra ekki að óþörfu yfir girðingar

µ að klippa aldrei sundur girðingar til þess að komast leiðar okkar með farartæki.

SKÓGRÆKT

Áður en við förum frá Hallormsstað, skulum við biðja skógarvörðinn að koma með okkur út að Ormsstöðum. Þar er margt merkilegt að sjá: Hér er svæði sem nýlega hefur verið ræst fram og hér er nýtt að læra um skóginn og ræktun hans.

En svo oft erum við búin að nefna skógrækt að orðið er farið að skýra sig sjálft. Við erum hætt að hugsa um hvað í því felst.

Og því leggjum við þessa spurningu fyrir skógarvörðinn að leiðarlokum: “Hvað merkir orðið í raun og veru? Hverju eigum við að svara ef við erum spurð?”

Skógrækt merkir ræktun skóga í þeim tilgangi að afla viðar. Er þá ýmist átt við ræktun eldri skóga eða gróðursetningu trjáplantna þar sem ekki var skógur fyrir. Skógræktin mótast aðallega af tvennu, annars vegar fjárhagshliðinni en hins vegar af þvi hvaða trjátegundir skuli rækta án þess að frjómáttur jarðvegsins þverri.

Framræsla

Súrefni er nauðsynlegt öllum gróðri. Trén taka til sín súrefni bæði gegnum rætur, barr og blöð. En þegar kyrrstaða er á vatni í jarðvegi verður hann snauður að súrefni. Þar að auki er mjög blautur jarðvegur tyrfinn og kaldur og loftið því svalt sem liggur að honum. Plantað með haka. Útflött rót.

ÓVINIR SKÓGARINS

Eftir vikudvöl í Hallormsstaðaskógi getur ekki hjá því farið að við höfum komið í Atlavík. Við skulum skreppa þangað enn einu sinni áður en við höldum burt frá Hallormsstað.

Atlavík er lítil vík innarlega í Hallormsstaðaskógi upp frá Lagarfljóti. Tær lækur liðast niður víkina um sléttar grundir grasi grónar, vaxnar kjarri hér og þar. Til beggja handa eru háir, skógivaxnir ásar. Víða sér í nakta hamraveggi sem teygja sig fram að fljótinu, mynda víkina og veita henni skjól.

Atlavíkur er getið í Landnámu og Droplaugarsonasögu og segir þar að Graut-Atli hafi numið þarna land og búið í Atlavík. Enginn veit nú lengur hvenær byggð lagðist þarna niður.

Síðan Hallormsstaðaskógur var friðaður hefur Atlavík orðið fjölsóttur ferðamannastaður, því að landslagið er fagurt og einkennilegt. Tjaldstæði eru þarna mörg og góð. Á sumrin er Atlavík vinsælasti samkomustaður Austfirðinga.

Í þetta sinn förum við til Atlavíkur til að gerast sjálfboðaliðar og hreinsa til eftir síðustu samkomu. Það er allmikið verk; tölum ekki um í hverju það er fólgið. Hitt er nóg að sjá verksummerki.

Birkifeti, einn af óvinum skógarins.

Ljósm.: Edda Oddsdóttir

Getur það verið að til séu svo lítilsigldir Íslendingar að fegurð og helgi landsins komi þeim ekkert við? Því miður virðist svo og þeir eru allt of margir. En við vitum að það er vanþekking, fáfræði og hugsunarleysi sem á sökina. Leggjumst því á eitt til að opna augu fólks með því að benda því á að spilla ekki fegurð landsins.

En meira að segja þeir sem vilja vel í öllu geta spillt gróðri og fegurð í andartaks gáleysi.

Í skógi og kjarrlendi hefur oft orðið stórtjón vegna þess að ógætilega var farið með eld. Sérstaklega er mikil hætta í þurrkatíð einkum á vorin. Mosinn og sinan eru þá afar eldfim og mikið bál getur kviknað af litlum neista.

Óstöðug veðrátta veldur einnig miklu tjóni öðru hverju.

Þá gera alls konar sveppir og skordýr usla í skóginum. Stundum veldur þetta skemmdum sem illt er við að ráða. En í trjágörðum og smálundum má halda þessum ófögnuði í skefjum.

ÖRNEFNASKRÁ

Alaska 21, 23, 25, 26

Alpafjöll 26, 27

Asía 23, 27

Atlavík 43

Atlavíkurstekkur 26, 27

Austurland 19, 48

Árnessýsla 22

Bárðardalur 7

Breiðamerkursandur 7

Bretlandseyjar 24

Brimnesskógur 10

Bæjarstaðaskógur 22

Djúpá 10

Evrópa 10, 20, 23, 24, 25, 26, 27, 30, 37

Eyjafjörður 22

Fálkaklettur 25

Fljótsdalshérað 22

Flugumýri 10

Gatnaskógur 26

Glóðafeykir 10

Guttormslundur 24, 47

Gönguskarðsós 10

Hafursá 37

Hallormsstaðaskógur 19, 22, 24, 25, 26, 30, 37, 43, 48, 49

Hekla 22

Jökullækur 24

Jökulsá 10

Kerlingará 24

Klettafjöll 25

Kolafjörður 10

Kolbeinsárós 10

Kyrrahaf 26

Lagarfljót 19, 26, 43

Landbrot 10

Lýsishóll 25, 26, 34

Mið-Evrópa 27

Mörk 25, 26, 27

Noregur 21, 24, 25, 26

Norður-Ameríka 10, 23, 25, 27, 30, 43, 47

Norður-Noregur 21, 24

Nýiskógur 35

Ormsstaðir 39, 40

Pýreneafjöll 27

Rússland 21

Skaftafellssýslur 9

Skaftártungur 22

Snæfell 26

Suðausturland 22

Suðurland 22, 23

Suðvesturland 10

Svíþjóð 26

Tromsfylki 25

Vaglaskógur 22

Vestfirðir 22

Þingeyjarsýsla 22

Þistilfjörður 7

Þórsmörk 22

Alaskaösp 23

Álmur 24

Balsamþinur 26

Bergfura 26, 27

PLÖNTUSKRÁ

Birki 8, 9, 13, 15, 17, 19, 20, 22, 23, 27, 30, 33, 40

Bláber 30

Bláfjóla 27

Blágreni 25

Blágresi 30

Blóðberg 30

Blæösp 23

Brennisóley 30

Broddfura 16, 27

Broddgreni 26

Brönugrös 30

Bugðupunktur 30

Elfting 30

Elri 23, 33

Fjallafura 26, 27

Fjallaþinur 26

Fjallaþöll 26

Fjalldalafífill 30

Fura 16, 20, 26, 27, 30, 33

Geldingahnappur 30

Gráreynir 23

Greni 13, 16, 20, 24, 25, 26, 30, 31, 33, 34, 49

Gulmaðra 30

Gulrófa 16

Gulrót 16

Hlynur 24

Holtasóley 30

Holurt 30

Hrútaberjalyng 30

Hvítelri 23

Hvítgreni 25

Hvítþinur 26

Ilmbjörk 15, 22

Krækilyng 30

Lambagras 30

Lerki 20, 24, 25, 26, 30, 33, 34, 37, 40, 49

Lindifura 27

Língresi 30

Maríustakkur 30

Marþöll 26

Móasef 30

Rauðelri 23

Rauðgreni 24, 25

Reynivður 23

Reyrgresi 30

Seljureynir 23

Silfurreynir 23

Sitkagreni 25, 26

Síberíuþinur 26

Skógarfura 26

Sortulyng 26

Stafafura 27

Svartgreni 26

Umfeðmingur 30

Víðir 8, 13, 20, 24

Þursaskegg 30

Ösp 20, 23

Jón Jósep

Jóhannesson

Snorri Sigurðsson

Þetta er sagan af skóginum á Íslandi, að vísu aðeins örfáar svipmyndir af samskiptum þjóðar, lands og skóga. Þessi saga er að því leyti ólík öðrum sögum að sögulok eru jafnlangt undan þegar bókinni lýkur og er hún hefst.

En þetta er bókin ykkar, hinna ungu Íslendinga. Það eruð þið sem haldið sögunni áfram og síðan taka aðrir við af ykkur og enn aðrir af þeim.

Í fáum orðum sagt. Við viljum færa Íslandi aftur þá skóga sem það átti einu sinni, fjölga trjátegundum þess og búa öðrum gróðri yl og næði í skjóli þeirra.

Mikið verkefni bíður okkar. Til þess að geta leyst það af hendi þurfum við að læra margt. Lærdóm og þekkingu getum við sótt til þeirra sem fróðari eru, hlýtt á mál þeirra sótt námskeið og skóla. En við getum líka sótt þekkingu í okkar eigin bók.

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.