4 minute read
Golf del Sur á Tenerife
„Mest spennandi nýjung í langan tíma,“segir Peter Salmon um Golf del Sur á Tenerife sem er nýtt golfsvæði hjá VITAgolf
Golf del Sur er mjög skemmtilegt og fjölbreytt 27 holu golfsvæði á Tenerife sem skiptist í þrjá níu holu velli, Norður-, Suður- og Links-völlinn. Golf del Sur er einn af níu golfvöllum á Tenerife eyjunni og annað tveggja golfsvæða alveg syðst á eyjunni.
Golf del Sur var fyrsti völlurinn á Suður- Tenerife og fagnar nú aldarfjórðungsafmæli. Níu vellir eru á eyjunni en ljúft veðurfar hefur dregið marga sólardýrkendur og kylfinga á svæðið í gegnum tíðina. Íslendingar hafa þó ekki beint hópast þangað í golf þó margir hafi farið eingöngu til að sækja sólina og blíðuna. Ástæðan hefur aðallega verið vegna óhagstæðs verðlags á golfinu. Ekki hefur verið í boði líkt og á Spáni, þar sem hægt hefur verið að fá allan pakkann með fluginu, ótakmörkuðu golfi, mat og gistingu. Nú er að verða breyting þar á eftir að VITAgolf náði samningum á Tenerife.
„Golf del Sur í Tenerife er einfaldlega mest spennandi nýjung sem við hjá VITAgolf höfum boðið lengi. Það er aðeins 10 mínútna akstur frá flugvellinum að okkar glæsilega 4 stjörnu+ Vincci Golf hóteli sem er staðsett alveg við ströndina. Frá hótelinu er svo 2 mínútna akstur á hinn mjög svo skemmtilega 27 holu Golf Del Sur golfvöll, sem margir telja að sé besti golfvöllurinn á Tenerife. Við bjóðum alla rástíma að morgni til og svo er ótakmarkað golf í boði það sem eftir er dags. Í göngufæri frá hótelinu eru ýmsir skemmtistaðir, fjöldinn allur af börum og veitingahúsum þar sem hægt er að borða og drekka á mjög hagstæðu verði. Þegar við bætum við besta veðri í Evrópu allan ársins hring ásamt mjög hagstæðum hótel- og golfpakka á þessum slóðum er ekki hægt annað en að mæla eindregið með Golf del Sur sem frábærum valkosti fyrir golfferðina,“ sagði Peter Salmon, framkvæmdastjóri VITAgolf.
„Black sand“ á Tenerife
All nokkur stór mót atvinnukylfinga karla og kvenna hafa farið fram á Golf del Sur, m.a. í þrígang á Evrópumótaröð karla og sex sinnum á Evrópumótaröð kvenna. Ólöf María Jónsdóttir, fjórfaldur Íslandsmeistari kvenna í höggleik lék í sínu fyrsta móti sem atvinnukylfingur á Tenerife árið 2005. Stóð sig vel og varð í 41. sæti.
Það sem grípur fljótlega augað þegar maður hefur leik og er sameiginlegt með öllum 9 holu völlunum eru svartar glompur sem skera sig skemmtilega úr í fallegu umhverfinu. Heimamenn nota jarðveginn úr eldfjallaeyjunni í glompur. Svarti sandurinn er aðeins þyngri og fýkur því ekki eins og hvíti sandurinn gerir víða. Flatir eru fjölbreyttar og frekar stórar og oft eru brautirnar nokkuð víðar. Vatnstorfærur setja svip sinn á mörgum brautum. Umhverfið er fallegt og nýtur sín í miklum andstæðum þar sem grænt grasið er umvafið öðrum litum frá sandi og eyðimerkurútliti.
Andstæður í fallegu umhverfi Við lékum Norður-völlinn fyrst í heimsókn okkar á Golf del Sur og náðum 9 holum fyrir myrkur á komudegi okkar til Tenerife í febrúar sl. eftir beint flug með Icelandair frá Keflavík. Það var bónus að ná því. Opnunarholan er „blind“ en skemmtileg og næstu þrjár brautir sem eru par 3, 5 og 4, eru allar mjög flottar en þó sérstaklega 3. brautin sem 480 metrar á gulum teigum og par 5. Hrjóstrugt umhverfi eyjunnar blasir við alla leið til hægri og gefur manni smá eyðimerkurtilfinningu. Andstæðurnar eru því miklar þegar maður gengur eftir grænu grasinu. Fjórða brautin er par 4 og liggur aðeins upp í móti, mjög skemmtileg. Af og til sér maður eðlu en dýralíf er fjölbreytt á Tenerife. Á 7. braut mættum við spakri andamömmu með tíu unga á göngu. Hún kippti sér ekkert upp við það þó við smelltum af þeim myndum.
Daginn eftir lékum við Links og síðan Suðurvöllinn. Byrjunin á öllum 9 holunum er góð og fyrsta brautin á Links er þar engin undantekning. Brautir 3 og 4 eru par 5 og sú fjórða er afar glæsileg braut þar sem stór vatnstorfæra á stóran þátt í upplifuninni. Teigstæðið á næstu braut, þeirri 5. er hátt uppi og þar er skemmtilegt að munda dræverinn þó holan sé ekki löng.
Þriðja 9 holu serían okkar var Suðurvöllurinn. Erfið en flott byrjunarhola en svo kom „forsíðu“-braut vallarins, par 3, 180 metrar af gulum teigum. Svartur sandur umlykur flötina og þessi „signature“ hola er kölluð „spælda eggið“ vegna útlitsins. Þessi níu holu hringur er skemmtilegur og fjöl- breyttur með góðri blöndu af par 3, 4 og 5 brautum eins og á hinum.
Að sögn forráðamanna Golf del Sur er völlurinn vinsæll meðal kylfinga en tæplega 50 þúsund kylfingar sækja hann árlega. Flestir koma á tímabilinu október til apríl. Klúbbhúsið er fínt, sömuleiðis veitingasala og golfverslun. Hægt er að fá leigðan golfbíl og sömuleiðis eru kerrur í boði, bæði rafmagns og venjulegar. Þá er einnig hægt að geyma golfsettið á staðnum í lokaðri geymslu við völlinn.
Hótelið sem VITAgolf býður upp á er við ströndina. Herbergin eru vel búin og aðstæður góðar, s.s. bar og veitingastaður og sólbaðsaðstaða er mjög skemmtileg með sundlaug og fallegu útsýni út á sjóinn.