Göngu- og hjólaleið 1 Hótel Raudaskrida- Barnafoss

Page 1

Göngu- / Hjólaleið 1 Hótel Rauðaskriða - Barnafoss YFIRLIT LEIÐAR (sjá kort).

1. Hótel Rauðaskriða. (GPS til viðmiðunar: 65° 50,170´ N ; 17° 28,370´ W) 2. Hjólað frá Hóteli Rauðaskriðu yfir Skjálfandafljótsbrú (2 km, 10 mín) (GPS til viðmiðunar: 65° 50,450´ N ; 17° 30,700´ W) 3. Hjólað upp með Skjálfandafljóti að Fellsskógi (5 km, 30-45 mín) (GPS til viðmiðunar: 65° 47,990´ N ; 17° 32,035´ W) 4. Gengið/Hjólað gegnum Fellsskóg til móts við Skipapoll og Ullarfoss (3 km, 60 mín) (GPS til viðmiðunar: 65° 46,860´ N ; 17° 32,035´ W) 5. Gengið áfram með vesturbakka Skjálfandafljóts að Barnafossi. (3 km, 60-90 mín) (GPS til viðmiðunar: 65° 45,050´ N ; 17° 31,480´ W) Göngu- og Hjólaleið 1, frá Rauðuskriðu og upp með Skjálfandafljóti að Barnafossi er tilvalin leið til að kynnast náttúrunni og sögunni nánar í næsta nágrenni Rauðuskriðu. Leiðin er í heild sinni 13 km hvora leið, þar af um helmingur hjólaður og helmingur genginn. Einnig má fara styttri hluta leiðarinnar allt eftir því hvað hverjum og einum hentar í slíkri dagleið. Hjólað er frá hótelinu, eftir þjóðveginum, yfir Skjálfandafljótsbrú en þegar yfir hana er komið er beygt til vinstri og slóða, meðfram fljótinu, fylgt. Leiðin er tiltölulega flöt þar til komið er í Fellsskóg þar sem nokkur hækkun verður en þó ekki umtalsverð. Gæta þarf þess að fara varlega þegar gengið er meðfram gljúfrinu fyrir ofan Skipapoll, að Barnafossi ef jörð er blaut. Fuglalíf er fjölbreytt á þessu svæði og má gera ráð fyrir að sjá margar tegundir andfugla á fyrsta hluta leiðarinnar, svo sem álftir, gæsir, endur og æðarfugl og einnig vaðfugla eins og stelki, jaðrakan, spóa og tjalda. Í og við skóginn má sjá spörfugla og síðan ránfugla eins og smyril og jafnvel uglur og fálka í giljunum. Þar eru einnig pípunefir á borð við Fýl. Hér má nálgast GPS slóð fyrir þessa leið: http://www.wikiloc.com/wikiloc/view.do?id=1747564


2 1

3

4

5

SKJÁLFANDAFLJÓT. Skjálfandafljót er jökulfljót sem á uppruna sinn í norðvestur hluta Vatnajökuls, nánar tiltekið í Vonarskarði sem er á milli Vatnajökuls og Tungnafellsjökuls og fellur til sjávar í botni Skjálfanda. Fljótið er um 180 km. á lengd og er það því fjórða lengsta vatnsfall á Íslandi. Vatnið í fljótinu er ekki eingöngu jökulvatn heldur rennur mikið af lindarvatni í það undan Ódáðahrauni. Þetta gerir það að verkum að fiskur gengur upp í fljótið og er umtalsverð silungs- og laxveiði í því, og hafa komið ár þar sem laxveiði hefur verið meiri í Skjálfandafljóti en í Laxá í Aðaldal. Í Skjálfandafljóti eru 7 fossar og heita þeir Gjallandi, Hrafnabjargarfoss, Ingvararfoss, Aldeyjarfoss, Goðafoss, Barnafoss og Ullarfoss. Á þessari gönguleið má sjá tvo þessara fossa ef öll leiðin er farin, Ullarfoss og Barnafoss.


ÁHUGAVERÐIR STAÐIR.

SKJÁLFANDAFLJÓTSBRÚ. Brúin yfir Skjálfandafljót, við Rauðuskriðu, er ein af fjórum brúm yfir fljótið. Þessi brú var tekin í notkun 1935 og er um 200m löng. Hún er ein af elstu brúm landsins sem enn eru í fullri notkun. Fljótið hefur stundum flætt yfir bakka sína á vorin og síðast gerðist það 2004 og rauf það þá skarð í þjóðveginn við brúna þ.a. samgöngur rofnuðu.

MÁNAFELL Mánafell er lágt fell, um 186 m.y.s., sem er á vinstri hönd, handan fljótsins þegar hjólað er með fljótinu frá brúnni. Það er kennt við landnámsmanninn Mána, frá Hálogalandi, sem getið er í Landnámu. Hann nam fyrst land á Tjörnesi og bjó á Máná nokkra vetur. Fluttist síðan og settist að á Mánafelli milli Rauðuskriðu og Fljóts. Við hann eru einnig kenndar Mánáreyjar við Tjörnes.

FELLSSKÓGUR. Fellsskógur í austurhlíðum Kinnarfells, er einn af stórskógum Íslands hvað snertir stærð trjáa. Hann er hluti um 22 þús. ha friðlands. Nær þráðbein birkitré tíu til tólf metrar að hæð eru algeng, svo og mikið af vel dafnandi erlendum trjám. Ekki er góður akvegur að Fellskógi og því fáir sem um hann fara. Gengt Fellsskógi, austanmegin fljótsins er Fossselsskógur.

SKIPAPOLLUR OG ULLARFOSS. Til móts við Fellsskóg, fellur Skjálfandafljót í Skipapoll, sem er stór hylur um 1 km í þvermál. Sagan segir að landnámsmenn, þar á meðal Bárður Bjarnason, síðar nefndur Gnúpa-Bárður og sá sem Bárðardalur dregur nafn sitt af, hafi dregið skip sín frá sjó og hingað uppeftir, um 24km leið. Ullarfoss, neðsti foss Skjálfandafljóts, fellur í Skipapoll, umhverfis hann eru fallegar stuðlabergsmyndanir svipaðar og við Aldeyjarfoss. Það var Bárður landnámsmaður sem gaf Ullarfossi nafn til heiðurs höfuðguðnum Ulli í norrænni goðafræði, en landnámsmenn trúðu gjarnan að landvættir eða jafnvel æsir gistu fossa og þeir væru því miklir helgistaðir.


ÞINGEY OG SKULDAÞINGSEY. Ofan Skipapolls er Þingey. Við hana eru Þingeyjarsýslur kenndar og þar var þingstaður. Talið er að Þingey hafi orðið þingstaður ekki síðar en árið 963 og þar var eitt af 13 reglulegum þjóðþingum þjóveldisaldar. Þar voru haldin vorþing sem fram fóru í 5. eða 6. viku sumars og áttu að standa yfir í 4-7 daga. Minnst er á Þingey sem þingstað í Reykdælasögu og Víga-Skútusögu. Er þar meðal annars sagt frá kæru vegna launmorðstilraunar við Víga-Skútu sem bjó við Mývatn og frá misheppnaðri árás, Þorgeirs goða, á sama mann í aðdraganda eins vorþingsins. Hann safnaði þá saman mönnum til að koma Víga-Skútu að óvörum og ná meirihluta á þinginu, en hafði ekki erindi sem erfiði. Þingey er stór eyja, fimm og hálfur til sex km löng frá norðri til suðurs og um einn og hálfur km að breidd. Eyjan er flöt að mestu og þurrlend enda er undirstaða hennar eitt þeirra mörgu hraunflóða, sem fallið hafa norður Bárðardal í tímans rás. Jarðfræðingar telja að þetta hraun muni hafa runnið frá Trölladyngju í Ódáðahrauni fyrir um sjö þúsund árum. Þingey er nyrst á þessu hrauni og fara saman norðurendi eyjarinnar og nyrsti hluti þessa hrauns. Ullarfoss fellur svo af hraunbrún norðurenda eyjarinnar. Fornleifar hafa fundist í Þingey og hafa þær verið rannsakaðar þar að minnsta kosti fjórum sinnum. Rétt fyrir og eftir aldamótin 1900 kom hingað Daniel Bruun og gerði hann þá uppdrátt af þingstaðnum og lýsti fornminjum. Brynjólfur Jónsson stundaði einnig rannsóknir um 1905 og lýsir hann, í samantekt sinni, bæði búðatóftum og einnig tveimur hringjum við s.k. Þinghól, þar sem talið er að þingið hafi farið fram. Hugsanlega eru þetta merki um dómhringa þar sem blót fóru fram en það er þó ekki vitað. 2005-2007 voru stundaðar rannsóknir í eyjunni á vegum hins þingeyska fornleifafélags og Fornleifastofnunar Íslands, til nákvæmrar uppmælinga á rústunum og aldursgreiningar. Lítið hefur verið búið í Þingey og lítið til af heimildum um það. Þó er sagt frá því að þar var byggður bær á árunum 1843-1844 þar sem þingstaðurinn var og býlið nefnt Þingvellir. Byggðin er talin hafa verið þar fram til ársins 1865 en þá fallið niður enda lítið um engi í Þingey og gróðurlendi þurrt. Þingey var alfriðuð, með lögum, 1961. Norðaustan við Þingey er önnur minni eyja sem heitir Skuldaþingsey og er talið að þar hafi verið skuldakröfuþing. Þar hafa einnig verið stundaðar fornleifarannsóknir í seinni tíð og fundist ummerki um mannvirki.


BARNAFOSS. Á næsta hluta gönguleiðarinnar rennur vestari kvísl Skjálfandafljóts um tilkomumikil gljúfur og kraftur fljótsins nýtur sín. Við enda leiðarinnar er komið að Barnafossi. Barnafoss er á móts við bæinn Barnafell sem farinn er í eyði. Þarna fellur fljótið í þröngu og allt að 100 m djúpu gljúfri, sem sagt er að djarfhugar hafi stokkið yfir. Til eru sagnir af því að í miklum frostum hafi klakabrýr myndast yfir fossinn og stundum hafi fé verið rekið yfir hann á veturna til beitar í Þingey. Oft var strengdur kaðall yfir ána við fossbrúnina til að flýta fyrir brúargerðinni. Nafnið fossins er talið tilkomið af því að börn hafi eitt sinn verið að leik í tunnu á hlaðinu að Barnafelli og að tunnan hafi oltið með þau í gljúfrið, þar sem þau fórust. Árið 1925 varð sá atburður einnig að mæðgin runnu á svelli heiman frá bæ niður að fossi og gátu enga björg sér veitt. Fjórtán ára sonur konunnar sá atburðinn og batt saman alla spotta, sem hann fann heima á bæ og fetaði sig síðan niður til móður sinnar og bróður og bjargaði þeim. Tveimur árum síðar fékk hann viðurkenningu úr sjóði Andrew Carnegies. Þessi drengur hét Sigurður Benediktsson (1911-1970).

HEIMILDASKRÁ.

Brynjólfur Jónsson. Árbók Fornleifafélagsins. 1906. Bls 3-6, Rannsókn á Norðurlandi sumarið 1905, I Suður-Þingeyjarsýsla Dögg Matthíasdóttir. Þingey. 1995. Verkefni við ferðamálabraut, Laugaskóla. Lög um afhendingu Þingeyjar í Skjálfandafljóti nr 62/1961 Óttar Indriðason. Morgunblaðið 25. Júní 1994 Lesbók. Bls 1-2, Þingey og umhverfi hennar. Fornleifastofnun Íslands, Þingey, sótt 2. Maí 2011 af http://www.instarch.is/rannsoknir/uppgroftur/thinghald_ad_fornu/thingey/

Copyright: Hotel Rauðaskriða 2011


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.