Göngu- / Hjólaleið 2 Hótel Rauðaskriða - Aðaldalshringur YFIRLIT LEIÐAR (sjá kort).
1. Hótel Rauðaskriða. (GPS til viðmiðunar: 65° 50,170´ N ; 17° 28,370´ W) 2. Hjólað frá Hóteli Rauðaskriðu að Hafralækjarskóla (10 km, 45-60 mín) (GPS til viðmiðunar: 65° 52,550´ N ; 17° 25,917´ W) 3. Hjólað frá Hafralækjarskóla að Grenjaðarstað (9 km, 40-50 mín) (GPS til viðmiðunar: 65° 49,240´ N ; 17° 20,979´ W) 4. Hjólað frá Grenjaðarstað að Laxárvirkjun (2 km, 10 mín) (GPS til viðmiðunar: 65° 49,128´ N ; 17° 18,842´ W) 5. Hjólað frá Laxárvirkjun að Hraunsrétt. (4 km, 20-30 mín) (GPS til viðmiðunar: 65° 50,160´ N ; 17° 21,086´ W) 6. Hjólað frá Hraunsrétt að Hóteli Rauðuskriðu (17 km, 90-110 mín) (GPS til viðmiðunar: 65° 50,170´ N ; 17° 28,370´ W)
Heildarvegalengd er u.þ.b. 42 km og má áætla ca 4 klst í hjólun, heildarlengd ferðar gæti verið 7-8 tímar allt eftir líkamlegu formi og stoppum á hverjum stað. Hér má nálgast GPS slóð fyrir þessa leið http://www.wikiloc.com/wikiloc/view.do?id=1742701
Aðaldalur liggur upp frá botni Skjálfandaflóa, milli Skjálfandafljóts að vestan og Laxár og Hvammsheiðar að austan og nær allt suður að Vestmannsvatni. Reykjadalur gengur til suðurs frá Aðaldal og eru engin glögg landfræðileg skil milli dalanna. Laxárdalur gengur svo til suðausturs frá Aðaldal upp til Mývatnssveitar. Á milli Reykjadals og Laxárdals, gengur Þeygjandadalur suður úr Aðaldal. Hann er í eyði en þónokkur fornleifagröftur hefur staðið yfir þar síðastliðin ár. Út við Skjálfandaflóa eru breiðir sandar en síðan tekur Aðaldalshraun við og þekur mestan hluta sléttlendisins, og er það um 100 ferkílómetrar. Aðalhraunbreiðurnar eru tvær; eldra hraunið rann úr Ketildyngju fyrir um 3500 árum og fyrir um 2000 árum rann annað hraun yfir það úr Þrengslaborgum í Mývatnssveit. Hraunið er víða vel gróið, vaxið birki, eini, hrís og lyngi. Byggðin er þéttust í kringum Laxárvirkjun og svo við Hafralækjarskóla, en þar er jarðhiti og sundlaug. Þar skammt frá er félagsheimilið Ýdalir. Kirkjur eru á Grenjaðarstað og í Nesi. Fjölbreytt fulgalíf er í Aðaldal og ræður Laxá þar miklu um. Andalíf er fjölbreytt við hana líkt og Mývatn. Ennfremur er allnokkuð af gæsum, álftum, og fálkar og uglur sjást líka af og til svo eitthvað sé nefnt, auk vaðfugla og spörfugla.
LAXÁ Í AÐALDAL. Laxá í Aðaldal er lindá og önnur vatnsmesta bergvatnsá landsins og ein þekktasta laxveiðiáin. Hún á upptök í Mývatni og rennur þaðan um Laxárdal og Aðaldal til sjávar í Skjálfandaflóa. Ofan við Brúarfossa nefnist hún Laxá í Laxárdal. Frá Mývatni til sjávar er áin um 58 kílómetrar að lengd. Náttúrufegurð þykir mikil við Laxá en áin rennur á hrauni allan Aðaldal að Æðarfossum neðan við Laxamýri, um 1 km frá sjó, en þar fellur hún fram af hraunbrúninni. Brúarfossar eru þó ekki svipur hjá sjón eftir að Laxá var virkjuð þar um 1950. Margir góðir veiðistaðir eru í Laxá og í henni hafa oft veiðst miklir stórlaxar.
ÁHUGAVERÐIR STAÐIR.
GRENJAÐARSTAÐUR. Grenjaðarstaður er fornt höfuðból, kirkjustaður og prestssetur í Aðaldal. Á Grenjaðarstað er reisulegur torfbær og er elsti hluti hans byggður árið 1865 en búið var í bænum til 1949. Hann er afar stór, um 775 fermetrar og einn stærsti torfbær landsins. Endurbygging bæjarins hófst árið 1955 og henni lauk 1958 og þá var opnað þar byggðasafn. Byggðasafnið er opið daglega frá 1. Júní, milli 10 og 18. Grenjaðarstaður var landnámsjörð samkvæmt því er segir í Landnámu, og bjó þar landnámsmaðurinn Grenjaður Hrappsson. Grenjaðarstaður var höfðingjasetur til forna og þar bjó meðal annars Kolbeinn Sighvatsson, sonur Sighvats Sturlusonar. Hann féll í bardaganm á Örlygsstöðum 1238 en var jarðsettur á Grenjaðarstað. Grenjaðarstaður var eitt af bestu brauðum landsins. Var staðurinn lagður til jafns við Odda, sem þótti besta brauð í Sunnlendingafjórðungi. Átti staðurinn fjölda jarða auk hjáleigna, reka, laxveiði og önnur ítök en heimaland var mikið og gagnsamt. Á meðal presta á Grenjaðarstað má nefna Jón Pálsson Maríuskáld (d. 1471) og Sigurð Jónsson (d. 1595), son Jóns biskups Arasonar, sem gerði skrá um eignir biskupsstólsins á Hólum og eignir kirkna á Norðurlandi. Þá má nefna Gísla Magnússon (1712-1779), síðar biskup á Hólum, sem lét byggja kirkjuna þar.
LAXÁRVIRKJUN. Laxárstöðvarnar eru þrjár og eru staðsettar í Laxá í Aðaldal. Þær nýta fallið í gljúfrunum við bæinn Brúar neðst í Laxárdal. Þaðan fellur áin út í Aðaldal. Virkjanirnar Laxá I og Laxá III eru rennslisvirkjanir. Það þýðir að virkjanirnar nýta eðlilegt rennsli Laxár. Áin rennur því beint inn í inntaksgöngin og að vatnsvélunum. Við Laxá II er hinsvegar inntakslón. Laxá I er elsta virkjunin í Laxá og nýtir hún efri hluta fallsins við Brúar. Frá stíflunni efst í gljúfrunum er vatnið leitt fyrst í jarðgöngum og síðan í trépípu að stöðvarhúsinu um 670 m leið. Fallhæðin er 39 m og framleiðslugeta virkjunarinnar er 5 MW. Í stöðinni eru tvær vélasamstæður og var sú fyrri tekin í notkun árið 1939 en hin síðari árið 1944. Laxá II var reist á árunum 1950 til 1952. Hún hýsir einu vatnsvél stöðvarinnar sem tekin var í notkun árið 1953. Afl hennar er 9 MW. Stíflumannvirki Laxár II voru byggð árið 1952 til að mynda inntakslón fyrir Laxárstöð II. Heildarfallið er 29 m. Aðrennslispípa liggur frá stíflunni niður að Laxárstöð II, 378 m langur tréstokkur. Hann er 4 m í þvermál og flytur um 40 tonn af vatni á sekúndu. Fallhæðin er 29 m. Fyrir ofan stöðvarhúsið er áberandi þrýstijöfnunartankur. Í vatninu sem rennur eftir tréstokknum er gífurleg hreyfiorka. Komi til þess að stöðva þurfi skyndilega vélar Laxár II myndast svokallaður vatnshamar í tréstokknum sem getur sprengt hann. Jöfnunartankurinn kemur í veg fyrir að slíkt gerist þar sem hann tekur þá við vatnshögginu. Jafnframt jafnar hann út rennslissveiflur í pípunni. Rör úr botni hans liggur niður að Laxá II. Laxá III, 13,5 MW að afli, er nýjasta virkjunin í Laxá og nýtir sama fall og Laxá I. Frá stíflu Laxár I er vatnið leitt í jarðgöngum í austari gljúfurveggnum að stöðvarhúsi um 60 m inni í berginu skammt frá stöðvarhúsi Laxár I og þaðan um frárennslisgöng út í Laxá. Þessir vatnsvegir eru alls um 850 m á lengd. Í stöðinni er ein vélasamstæða sem tekin var í notkun árið 1973. Inni í berginu er hvelfingin sem hýsir vélasamstæðu Laxár III. Upphaflega var hvelfingin hönnuð fyrir tvær vatnsvélar sem hvor um sig átti að framleiða 25 MW. Var þá miðað við 56 m háa stíflu ofar í gljúfrinu og að heildarfallhæðin yrði 83 m. Þessi virkjanatilhögun olli miklum deilum í þjóðfélaginu og gekk undir nafninu laxárdeilan. Laxárdeilan 1969 til 1973 snerist um áform um þriðju virkjun Laxár og baráttu landeigenda og ábúenda á bökkum Laxár og Mývatns gegn því. Framkvæmdir við fyrsta áfanga virkjunarinnar, Laxá III, hófust 1970 og var þannig staðið að verki að mannvirkin myndu nýtast við síðari áfanga. Þingeyingar fóru í mótmælaferð til Akureyrar og er talið að 500 manns hafi verið þar á ferð. Deilan var svo hörð að í ágúst 1970 var ein stífla Laxárvirkjunar við Mývatn, Miðkvíslarstífla, rofin með sprengiefni, dráttarvélum og handverkfærum og í desember kærði verktakinn við virkjunina skemmdarverk á vélum fyrirtækisins. Maurasýra hafði verið sett í olíu tveggja vörubíla. Miðkvíslarmálið upplýstist því 113 Mývetningar og fleiri Þingeyingar
lýstu verkinu strax á hendur sér. 65 þeirra voru ákærðir og fengu síðar væga og skilorðsbundna dóma fyrir verkið. Maurasýrumálið upplýstist aldrei. Deilunni lyktaði að lokum með samkomulagi um núverandi tilhögun þar sem hætt var við alla frekari stíflugerð og aðeins önnur vatnsvélin var sett niður.
HRAUNSRÉTT. Hraunsrétt er í landi jarðarinnar Hrauns. Réttin var byggð upp úr 1830, hlaðin úr hraungrýti. Öll réttin er 7232 fermetrar. Nú hefur réttin verið endurbyggð og er hún mikið menningarverðmæti auk þess sem hún er enn í notkun sem skilarétt.
HEIMILDASKRÁ:
http://is.wikipedia.org/wiki/Grenjaðarstaður http://www.husmus.is/index.php?option=com_content&view=article&id=11&Itemid=32 &lang=is http://is.wikipedia.org/wiki/Aðaldalur http://is.wikipedia.org/wiki/Laxárvirkjun http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=344090 http://www.thingeyjarsveit.is/starfsemi/menningarminjar/
Copyright: Hotel Raudaskrida 2011