Göngu- / Hjólaleið 3 Hótel Rauðaskriða – Fossselsskógur YFIRLIT LEIÐAR (sjá kort).
1. Hótel Rauðaskriða. (GPS til viðmiðunar: 65° 50,170´ N ; 17° 28,370´ W) 2. Hjólað frá Hóteli Rauðaskriðu að Vaðsafleggjara (1,7 km, 5-10 mín) (GPS til viðmiðunar: 65° 50,400´ N ; 17° 30,050´ W) 3. Hjólað meðfram Skjálfandafljóti og að bænum Vað 2 (5 km, 30-45 mín) (GPS til viðmiðunar: 65° 47,768´ N ; 17° 30,121´ W) 4. Hjólað frá Vaði 2 að skilti Skógræktarfélags S-Þingeyinga (1 km 10-15 mín) (GPS til viðmiðunar: N/A) 5. Gengið/Hjólað áfram inn í skóginn (0,8 km 10-15 mín) eins og hver vill (GPS til viðmiðunar: N/A)
Göngu- og Hjólaleið 3, frá Rauðuskriðu og upp með Skjálfandafljóti að Fossselsskógi er frekar auðveld yfirferðar, en nokkur brekka er þó þegar í skóginn er komið. Leiðin er í heild sinni 8,4 km hvora leið, þar af um 7-7,5 km hjólaður og síðan má ganga eins og hver og einn vill um skóginn. Hægt er að nálgast GPS slóð fyrir leiðina á þessu veffangi: http://www.wikiloc.com/wikiloc/view.do?id=1766618
Hjólað er frá hótelinu, eftir þjóðveginum, að afleggjaranum að bænum Vaði. Síðan er hjólað eftir honum. Á vinstri hönd er Mánafell en á þá hægri er Skjálfandafljót. Handan Skálfandafljóts til vesturs er Kinn og Kinnarfjöll en til suðvesturs er Kinnarfell og Fellsskógur. Hér við Skjálfandafljót er þónokkuð af gæsum og álftum, ásamt öndum, svo sem rauðhöfðaendur og stokkendur. Töluvert er af vaðfuglum einnig til dæmis jaðrakan, spói, stelkur, tjaldur o.s.frv. Á leiðinni að Vaði 2 er fyrst hjólað framhjá sumarhúsaþyrpingu á vinstri hönd og síðar framhjá bænum Vað 1. Skömmu eftir að hjólað hefur verið í gegnum hlaðið á Vaði 2 þarf að fara í gegnum hlið og síðan er haldið áfram suðurúr. Nú sést vel til Skipapolls og úðinn af Ullarfossi og jafnvel fossinn sjálfur ættu að sjást. Ullarfoss sést þó mun betur ef farin er göngu- og hjólaleið 1. Austan Ullarfoss er Skuldaþingey en vestan hans er Þingey. Fram að þessu hefur leiðin verið flöt en nú fer hún að liggja aðeins upp í hlíð Fljótsheiðar þar sem Fossselsskógur er. Fljótlega er komið að skilti sem Skógræktarfélag SuðurÞingeyinga lét koma fyrir, um Fossselsskóg og í framhaldinu kemur nokkuð löng brekka sem ýmist má hjóla eða ganga eftir því sem hentar. Þegar inní skóginn er komið greinast slóðarnir og verður ekki frekari leiðarlýsing hér enda skemmtilegast að ráfa bara um skóginn og njóta fulgasöngs og útsýnis á sinn hátt. Það er náttúrlega kjörið að vera með nesti og gera þetta að picknick ferð.
SKJÁLFANDAFLJÓT. Skjálfandafljót er jökulfljót sem á uppruna sinn í norðvestur hluta Vatnajökuls, nánar tiltekið í Vonarskarði sem er á milli Vatnajökuls og Tungnafellsjökuls og fellur til sjávar í botni Skjálfanda. Fljótið er um 180 km. á lengd og er það því fjórða lengsta vatnsfall á Íslandi. Vatnið í fljótinu er ekki eingöngu jökulvatn heldur rennur mikið af lindarvatni í það undan Ódáðahrauni. Þetta gerir það að verkum að fiskur gengur upp í fljótið og er umtalsverð silungs- og laxveiði í því, og hafa komið ár þar sem laxveiði hefur verið meiri í Skjálfandafljóti en í Laxá í Aðaldal. Í Skjálfandafljóti eru 7 fossar og heita þeir Gjallandi, Hrafnabjargarfoss, Ingvararfoss, Aldeyjarfoss, Goðafoss, Barnafoss og Ullarfoss. Á þessari leið má sjá Ullarfoss.
ÁHUGAVERÐIR STAÐIR.
MÁNAFELL Mánafell er lágt fell, um 186 m.y.s., sem er á vinstri hönd, þegar hjólað er í suðurátt, eftir að beygt er inná Vaðsafleggjarann. Það er kennt við landnámsmanninn Mána, frá Hálogalandi, sem getið er í Landnámu. Hann nam fyrst land á Tjörnesi og bjó á Máná nokkra vetur. Fluttist síðan og settist að á Mánafelli milli Rauðuskriðu og Fljóts. Við hann eru einnig kenndar Mánáreyjar við Tjörnes.
FOSSSELSSKÓGUR. Fossselsskógur, vestan í Fljótsheiði, er í landi Fosssels sem fór í eyði 1936. Þar var land friðað 1956 og er nú skógur á um 150 ha svæði. Skógurinn og jörðin eru í eigu Skógræktar Ríkisins en það er Skógræktarfélag Suður-Þingeyinga sem hefur umsjón með skóginum og ræktun þar. Skógurinn samanstendur aðallega af birki, furu og eitthvað er þar af lerki einnig. Í Fossselsskógir er allnokkuð af sveppum og er vinsælt að fara þangað í sveppatínsluferðir. Einnig vex þar þónokkuð af berjum s.s. hrútaberjum.
SKIPAPOLLUR OG ULLARFOSS. Til móts við Fellsskóg, fellur Skjálfandafljót í Skipapoll, sem er stór hylur um 1 km í þvermál. Sagan segir að landnámsmenn, þar á meðal Bárður Bjarnason, síðar nefndur Gnúpa-Bárður og sá sem Bárðardalur dregur nafn sitt af, hafi dregið skip sín frá sjó og hingað uppeftir, um 24km leið. Ullarfoss, neðsti foss Skjálfandafljóts, fellur í Skipapoll, umhverfis hann eru fallegar stuðlabergsmyndanir svipaðar og við Aldeyjarfoss. Það var Bárður landnámsmaður sem gaf Ullarfossi nafn til heiðurs
höfuðguðnum Ulli í norrænni goðafræði, en landnámsmenn trúðu gjarnan að landvættir eða jafnvel æsir gistu fossa og þeir væru því miklir helgistaðir. ÞINGEY OG SKULDAÞINGSEY. Ofan Skipapolls er Þingey. Við hana eru Þingeyjarsýslur kenndar og þar var þingstaður. Talið er að Þingey hafi orðið þingstaður ekki síðar en árið 963 og þar var eitt af 13 reglulegum þjóðþingum þjóveldisaldar. Þar voru haldin vorþing sem fram fóru í 5. eða 6. viku sumars og áttu að standa yfir í 4-7 daga. Minnst er á Þingey sem þingstað í Reykdælasögu og Víga-Skútusögu. Er þar meðal annars sagt frá kæru vegna launmorðstilraunar við Víga-Skútu sem bjó við Mývatn og frá misheppnaðri árás, Þorgeirs goða, á sama mann í aðdraganda eins vorþingsins. Hann safnaði þá saman mönnum til að koma Víga-Skútu að óvörum og ná meirihluta á þinginu, en hafði ekki erindi sem erfiði. Þingey er stór eyja, fimm og hálfur til sex km löng frá norðri til suðurs og um einn og hálfur km að breidd. Eyjan er flöt að mestu og þurrlend enda er undirstaða hennar eitt þeirra mörgu hraunflóða, sem fallið hafa norður Bárðardal í tímans rás. Jarðfræðingar telja að þetta hraun muni hafa runnið frá Trölladyngju í Ódáðahrauni fyrir um sjö þúsund árum. Þingey er nyrst á þessu hrauni og fara saman norðurendi eyjarinnar og nyrsti hluti þessa hrauns. Ullarfoss fellur svo af hraunbrún norðurenda eyjarinnar. Fornleifar hafa fundist í Þingey og hafa þær verið rannsakaðar þar að minnsta kosti fjórum sinnum. Rétt fyrir og eftir aldamótin 1900 kom hingað Daniel Bruun og gerði hann þá uppdrátt af þingstaðnum og lýsti fornminjum. Brynjólfur Jónsson stundaði einnig rannsóknir um 1905 og lýsir hann, í samantekt sinni, bæði búðatóftum og einnig tveimur hringjum við s.k. Þinghól, þar sem talið er að þingið hafi farið fram. Hugsanlega eru þetta merki um dómhringa þar sem blót fóru fram en það er þó ekki vitað. 2005-2007 voru stundaðar rannsóknir í eyjunni á vegum hins þingeyska fornleifafélags og Fornleifastofnunar Íslands, til nákvæmrar uppmælinga á rústunum og aldursgreiningar. Lítið hefur verið búið í Þingey og lítið til af heimildum um það. Þó er sagt frá því að þar var byggður bær á árunum 1843-1844 þar sem þingstaðurinn var og býlið nefnt Þingvellir. Byggðin er talin hafa verið þar fram til ársins 1865 en þá fallið niður enda lítið um engi í Þingey og gróðurlendi þurrt. Þingey var alfriðuð, með lögum, 1961. Norðaustan við Þingey er önnur minni eyja sem heitir Skuldaþingsey og er talið að þar hafi verið skuldakröfuþing. Þar hafa einnig verið stundaðar fornleifarannsóknir í seinni tíð og fundist ummerki um mannvirki.
HEIMILDASKRÁ.
Brynjólfur Jónsson. Árbók Fornleifafélagsins. 1906. Bls 3-6, Rannsókn á Norðurlandi sumarið 1905, I Suður-Þingeyjarsýsla Dögg Matthíasdóttir. Þingey. 1995. Verkefni við ferðamálabraut, Laugaskóla. Lög um afhendingu Þingeyjar í Skjálfandafljóti nr 62/1961 Óttar Indriðason. Morgunblaðið 25. Júní 1994 Lesbók. Bls 1-2, Þingey og umhverfi hennar. Ragnar Þorsteinsson. Byggðir og Bú Suður-Þingeyinga 2005. Bindi II. Bls 770-780. Búnaðarsamband Suður-Þingeyinga 2006. Fornleifastofnun Íslands, Þingey, sótt 2. Maí 2011 af http://www.instarch.is/rannsoknir/uppgroftur/thinghald_ad_fornu/thingey/
Copyright: Hotel Rauðaskriða 2011