Stefna Alþjóðasambands kennara í menntamálum
Stefna Alþjóðasambands kennara, Education International, í menntamálum Byggjum framtíðina á góðri menntun Inngangur Alþjóðasamband kennara (EI) er málsvari þeirra sem starfa við menntastofnanir hvarvetna í heiminum hvort heldur þeir eru kennarar eða aðrir starfsmenn menntastofnana á öllum skólastigum. Þar sem það er stærsta bandalagið í heimi (Global Union Federation, GUF) og það eina sem hefur náð fótfestu í öllum heimshornum sameinar EI kennara og aðra starfsmenn menntastofnana og kemur á framfæri sameiginlegri sýn þeirra á menntastefnu, kennarastarfið, starfsskilyrði og tengd málefni. EI hefur að leiðarljósi grundvallarreglur um lýðræði, mannréttindi og félagslegan jöfnuð. Það er óháð ríkisstjórnum og stofnunum ríkjabandalaga og ekki undir áhrifum eða stjórn stjórnmálaafla, annarra hugmyndafræðilegra afla eða trúarhópa. Alþjóðasambandið stendur vörð um réttindi allra kennara og starfsmanna menntastofnana og berst fyrir því að allir njóti góðrar menntunar. EI er málsvari verkalýðsréttinda og styður við þróun sjálfstæðra og lýðræðislegra samtaka kennara, háskólafólks við kennslu og vísindaiðju sem og annarra starfsmanna menntastofnana. Samtökin vinna að því að skapa einhug og efla samvinnu. Þau berjast gegn (neikvæðri) mismunun í menntun og í samfélaginu almennt og hvetja til samstöðu starfsmanna menntastofnana í öllum löndum heimsins. Eftir átján ára vinnu við stefnumörkun á þingum sínum og ráðstefnum, bæði alþjóðlegum og svæðisbundnum, hefur Alþjóðasamband kennara ákveðið að leggja fram heildstæða stefnu í menntamálum. Þessi stefna felur í sér þá lykilþætti sem tilvera EI grundvallast á og endurspeglar þau markmið í menntamálum sem samræmast hefðum um starfsemi samtakanna. Stefnan er í beinni andstöðu við hina þröngu notagildishugmynd að menntun felist í því að kenna nemendum verkkunnáttu sem miðar að því að þeir verði starfsmenn á afmörkuðum sviðum samfélagsins. Áhersla er lögð á víðara sjónarhorn um menntun er tekur tillit til samfélagslegra og alþjóðlegra gilda sem og þátta er varða menningu, lýðræði, efnahagslegar þarfir og umhverfissjónarmið. EI leggur áherslu á að menntun sé mannréttindi og almannagæði og geri fólki á öllum aldursskeiðum kleift að fá sem mest út úr lífinu og öðlast skilning á sjálfu sér, hlutverki sínu og tengslum við aðra. Menntun er einnig lykill að því að miðla, greina og nýta þekkingu og reynslu og hún gegnir meginhlutverki í sköpun nýrrar þekkingar með rannsóknum og nýsköpun. Hlutverk hennar er víðtækara en vélræn notagildishugsunin endurspeglar, sem margir forsprakkar markaðs- og þjónustuhyggju leggja áherslu á. Þessi stefnuyfirlýsing byggir á hugmyndafræði og grunngildum EI og endurspeglar grundvallarsjónarmið og kröfur kennarasamtaka um allan heim. Það er sannfæring EI að góð menntun sé mannréttindi, stjórnvöld beri ábyrgð á frjálsum menntunarmöguleikum fyrir alla á jafnræðisgrundvelli sem og þjóðfélagslegu jafnrétti, góðri kennaramenntun og virðingu fyrir kennarastarfinu. Yfirlýsingin nær einnig til viðfangsefna sem þarfnast úrlausnar og vinna þarf skipulega og ötullega að. 1
Stefna Alþjóðasambands kennara í menntamálum
I: Menntun sem mannréttindi og almannagæði 1. Góð menntun nærir gáfur og sköpunarmátt manna, styrkir þannig einstaklinga persónulega og faglega og stuðlar að þróun samfélagsins á sviði félagsmála, menningar, efnahags, stjórnmála og umhverfismála. Hún stuðlar að friði, lýðræði, sköpunargetu, samstöðu, samfélagi án aðgreiningar, að sjálfbæru umhverfi og betri skilningi milli fólks og menningarheima. Með henni öðlast fólk gagnrýna þekkingu, færni og getu til þess að gera sér grein fyrir, kanna og leysa vandamál jafnt í eigin umhverfi og í umheiminum. 2. Lýðræðislega kjörnar stjórnir á öllum stigum stjórnsýslunnar eiga að fara með forræði í menntakerfinu og bera meginábyrgð á því. Þess háttar yfirvöld bera höfuðábyrgð á því að frjáls menntun, sem öllum er aðgengileg, sé vel fjármögnuð og í stöðugri þróun. Með öflun fjár gegnum réttlátt skattakerfi geta þau og verða að verja verulegum hluta tekna sinna til menntamála, eða sem samsvarar að lágmarki 6% af vergri þjóðarframleiðslu. Slík fjárfesting á að tryggja jafnan framgang menntunar á öllum stigum allt frá leikskóla til háskólastigs og símenntunar. Yfirvöld í samvinnu við kennara eiga að hafa umsjón með og stýra menntakerfinu með það stöðugt í huga að auka gæði. Löggjöf og framkvæmd hennar þarf að tryggja góða þjónustu, fagmennsku, aðgengi allra og lýðræðislega stjórnun. Í stuttu máli bera stjórnvöld ábyrgð á framboði á hvers konar menntastofnunum, lögum og reglum um þær og fjárveitingum til þeirra. 3. Vegna mikilvægis menntunar fyrir þjóðfélagið ber stjórnvöldum að verja menntakerfið gegn nýfrjálshyggjukenningum sem leiða til einka- og markaðsvæðingar menntunar. Sú neikvæða leið hefur í för með sér markaðsvæðingu og verslun með menntun og andleg verðmæti, ótryggra starfsskilyrða og kjara í menntakerfinu, innleiðingu stjórnunarhátta almenna markaðarins, einkavæðingu á framboði og innrás gróða- eða verslunarsjónarmiða í stjórnun menntastofnana. 4. Tilkoma markaðssetningar í menntun á heimsvísu, sem byrjaði á háskólastigi en er nú að finna á flestum skólastigum, ber með sér verulega hættu fyrir kennslu og rannsóknarhlutverk skólastofnana. Verslunar- og fjárfestingarsamningar á borð við GATS og fjölgun tvíhliða og svæðisbundinna samninga hafa greitt götu einkavæðingar í menntun. Þessir samningar binda og auka þrýsting af einkavæðingu og sölumennsku. EI telur að þjónusta í almannaþágu á borð við menntun eigi ekki að lúta reglum verslunarsamninga. Milliríkjasamskipti um menntun eiga að lúta lögmálum hennar en ekki viðskiptaboðum. Stjórnvöld eiga að tryggja nægilegt stofn- og rekstrarfjármagn til að gera megi viðurkenndar kröfur til kennslu og rannsókna. 5. Sterka alþjóðlega samstöðu þarf til að styrkja ríki sem hafa ekki bolmagn til að veita öllum góða menntun. Þetta er nauðsynlegt ef markmið samþykkta á borð við Dakaryfirlýsinguna um menntun fyrir alla og Þúsaldaráætlunarinnar (Millennium Development Goals) eiga að nást. Ríki og landsvæði með veikburða stjórnsýslu, fallin ríki, ríki hrjáð af ófriði eða náttúruhamförum, umdeild svæði, og svæði sem ekki er stjórnað lýðræðislega þarfnast alþjóðlegrar aðstoðar og stuðnings til að byggja samstætt menntakerfi sem þau þurfa nauðsynlega á að halda til þess að þróa þjóðfélög sín og efnahag. Slík aðstoð verður að vera í fullri samvinnu við réttbæra aðila á viðkomandi stöðum, þar með talin verkalýðsfélög og samtök þeirra sem starfa við menntastofnanir.
2
Stefna Alþjóðasambands kennara í menntamálum
6. Ábyrgð stjórnvalda á menntun nær til samþykktar, fullnustu og eftirlits með alþjóðlegum sáttmálum og reglugerðum er snúa að menntun. Þessi ákvæði er að finna í Mannréttindayfirlýsingu SÞ frá 1948, Alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, 1966, Samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum, 1979, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 1989, ILO/UNESCO ráðleggingum um réttarstöðu kennara, 1966, og Tilmælum UNESCO um stöðu starfsfólks við æðri menntastofnanir, 1997. 7. Þessi ábyrgð þýðir einnig að virða beri starfsréttindi eins og kveðið er á um í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 87 um félagafrelsi og rétt til að stofna félög, 1948, Samþykkt ILO nr. 98, um rétt til að stofna stéttarfélög og gera kjarasamninga fyrir félagsmenn þeirra, 1949, Samþykkt ILO nr. 111, gegn mismunun (til atvinnu eða starfa), 1958, Yfirlýsing ILO um grundvallarreglur og réttindi á vinnustað og eftirfylgni hennar, 1998, Yfirlýsing ILO um félagslegt réttlæti og sanngjarna hnattvæðingu, 2008. 8. Í samræmi við ofangreindar alþjóðlegar skuldbindingar verða stjórnvöld að styðja við sjálfræði stofnana á æðri skólastigum að því er varðar fræðimennsku, námskrár, stöðuveitingar og stjórnun. Sjálfræði stofnana hvað þetta varðar er forsenda fyrir akademísku frelsi sem tryggir að sjálfstæðar rannsóknir, kennsla og fræðimennska geti notið sín, en má ekki rugla saman við akademískt frelsi. Stofnanir eru algjörlega skuldbundnar til að sjá til þess að sjálfræði þeirra stuðli að verndun akademísks frelsis fyrir fjandsamlegum ytri aðstæðum og þær mega ekki misnota frjálsræðið til að veitast að eða afnema akademískt frelsi innan stofnunarinnar. Ennfremur ber að viðurkenna að stofnanir starfa á opinberum vettvangi og hafa almennar skyldur gagnvart yfirvöldum og almenningi. Lykilatriði í akademísku frelsi er réttur starfsmanna til að eiga fulltrúa hvar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar innan háskóla eða deilda, sem eiga enda að hafa meginreglur um þátttökurétt í heiðri. Þessi meginregla nær til tryggingar á rétti einstakra starfsmanna, til dæmis til að ákveða kennsluaðferð, rannsóknarforgang og rétt til eignarhalds á hugverkum.
II: Aukum gæði menntunar 9. Allir þegnar sérhvers ríkis eiga rétt á góðri menntun. Framboð á menntun við hæfi allt frá barnæsku og út ævina er meginviðfangsefni í menntakerfinu. EI skilgreinir góða menntun út frá félagslegu samhengi og menningu. Gæði eru hvorki einsleit né einföld. Góð menntun er háð kringumstæðum í skólakerfinu svo sem bakgrunni nemenda, kennaramenntun, starfsskilyrðum, hópastærðum og framlögum til menntamála og þeirra væntinga sem gerðar eru vegna þarfa einstaklinga, þjóðfélagsins, menningar, efnahags og umhverfis. Ofangreindar hugmyndir um gæði einkennast aldrei af nauðhyggju þar sem þær eru háðar sköpunargetu og í stöðugri þróun. 10. Mikilvægi góðrar kennslu fyrir góða menntun verður seint ofmetið. Því verða kennarar á öllum skólastigum að hljóta tilhlýðilega þjálfun og réttindi. Þegar kennarar hafa verið ráðnir eiga þeir að halda áfram að bæta fagþekkingu sína með aðstoð leiðbeinanda meðan þeir eru að kynnast starfinu og eiga alla starfsævina að hafa aðgang að símenntun og
3
Stefna Alþjóðasambands kennara í menntamálum
starfsþróun. Stjórnvöldum ber að sjá kennurum fyrir símenntun og starfsþróun þeim að kostnaðarlausu. 11. Kennsla og námsumhverfi þarf að stuðla að árangri kennara og annars starfsfólks. Yfirvöld eiga að sjá til þess að stjórnskipulag hæfi þessu umhverfi og fjármagn til starfsins sé tryggt. 12. Góð menntun verður að byggja á trúverðugum menntarannsóknum. Fræði og framkvæmd þurfa að taka mið af þessum rannsóknum. Rannsóknir þurfa einnig að nýta fagreynslu kennara og hafa þá með í ráðum. Þetta myndi leiða til órjúfanlegra tengsla milli menntunar og rannsókna, skapa meiri skilning og þekkingu og bæta kennsluna. 13. EI telur að kennarar eigi að sýna mikla fagmennsku og bera samfélagslega ábyrgð. Kröfur til fagmennsku á að gera í fullu samráði við kennslustétt í hverju landi. Kennurum á að finnast tryggt að bæði kröfur um fagmennsku og framfarir þeirra í starfi séu í samræmi við kennsluna. 14. Yfirvöld eiga að sjá til þess að menntastofnanir bjóði upp á fjölbreytta námskrá sem setur fram almenn réttindi og skyldur allra nemenda. Ramminn þarf að vera nógu sveigjanlegur til að skólar geti lagað hann að þörfum allra nemenda sinna. Menntastofnanirnar sjálfar bera ábyrgð á að laga rammann að félagslegu umhverfi sínu. 15. Markmið mælinga þurfa að vera ljós öllum sem fást við menntun. Mat á menntakerfum, skólum og æðri menntastofnunum, á kennurum og á nemendum þjóna mismunandi tilgangi og má ekki blanda saman. Þegar einhver tegund mats er notuð til annars en henni var ætlað geta afleiðingarnar orðið ófyrirsjáanlegar og skaðlegar. Önnur tegund af skaðlegu mati er mat sem kemur ofan frá og hefur mikla þýðingu fyrir þá einstaklinga og starfsemi sem matið nær til. Mats- og prófakerfi sem mikið veltur á og refsikennt skólaeftirlit leiða skóla til að einblína á það sem er prófað og fylgst með og dregur úr getu þeirra til að brydda upp á nýjungum. Þau leiða til þrenginga á námskrám og draga úr sjálfstrausti kennara. Þetta býður einnig heim þeirri hættu að áhugi nemenda minnki, þeir verða óánægðari og gengur þá verr í námi. Allar mælingar á nemendum, kennurum, menntastofnunum og menntakerfum eiga að vera skýrar og njóta samþykkis kennara og samtaka þeirra. Raunar ætti að innleiða sjálfsmat sem grunnreglu við allt mat, einnig mat á kennurum. Eftirlit með kennurum og mat á starfi þeirra á að byggja á trausti og beinni þátttöku þeirra sem verið er að meta. Niðurstaða matsins á að sýna hvað megi betur fara og hvernig aðstoða megi við úrbætur. Þannig nálgun þýðir að kennarar eru líklegri til að taka matinu vel og vera áhugasamir um starfsþróun sem leiðir til betra skólastarfs. 16. Allar tegundir mats eiga að þessu leyti að styrkja frekar en refsa. EI hafnar sjálfvirku mati á menntun. EI telur að hin útbreidda misnotkun á hugmyndum um gæði til að afsaka staðlaðar prófgerðir sé skaðleg menntakerfinu í heild sinni af því að með því er reynt að troða kennslu og námsferli inn í mælanlega kvarða. Það er stöðlunin og einvítt viðhorf til prófa og mats á kennslu og námi sem EI gagnrýnir harðlega. Þess utan ber að gæta þess að sé of mikið í húfi í einhverju tilteknu matskerfi verður kennslunni beint að því að nemendur standist staðlaðar utanaðkomandi kröfur - fyrirbæri sem gjarnan er nefnt að „kenna undir próf“. Þetta kemur í veg fyrir nýbreytni og sköpun, þrengir námsframboð og
4
Stefna Alþjóðasambands kennara í menntamálum
vegur að faglegu sjálfræði. Með öðrum orðum, mat þar sem mikið er í húfi eða leiðir til refsingar vegur að árangri og sjálfstrausti menntastofnana. 17. Einhæf tæki sem leggja aðeins áherslu á niðurstöðu, svo sem stöðluð próf , listaröðun og goggun eru í síauknum mæli notuð til stefnumörkunar. Yfirvöld ættu að varast hugsanlega misnotkun á Pisa rannsókninni við stjórnun og skipulagningu menntakerfa. Þau ættu einnig að forðast að nota frumkönnun OECD á árangri og getu nemenda að loknu háskólanámi (AHELO) til þess hugsanlega að gera villandi samanburð á háskólamenntun í heiminum. 18. EI metur lykilhlutverk faglegra leiðtoga í að bæta menntun. Faglegir leiðtogar eiga drjúgan þátt í að efla sjálfstæði kennara og þróun þeirra í starfi. Faglegir leiðtogar verða að að vera sérlega vel menntaðir, þar með talið á sviði kennslufræða. Þeir sem leiða vinnu í skólum og öðrum menntastofnunum verða að fá þann stuðning og sérhæfingu sem hæfir krefjandi verkefni þeirra. Þeir sem stýra vinnu kennara eiga að taka virkan þátt í starfi sem leiðir til betri kennslu og öflugra náms í skólastofunni. Þeir þurfa einnig að fá aðstoð og efni sem nægir til að þeim takist ætlunarverkið. Leiðtogastarfið á að byggja á lýðræðislegri samvinnu starfsfélaga þar sem áhersla er lögð á umræður og samstarf. 19. Háskólasamfélagið gegnir lykilhlutverki fyrir allt menntakerfið, sér í lagi með kennaramenntun og menntarannsóknum. Undanfarin ár hefur verið veist að þessu samfélagi og grafið undan akademísku frelsi og samhug, sem og eðlislægu gildi þekkingarleitar, miðlunar og greiningar. Hin almenna þróun í átt að markaðsvæðingu og samkeppni milli háskóla ógnar gæðum og jafnræði. Þessari þróun verður að snúa við. Háskólasamfélagið hefur getu til þess að mæta þeim áskorunum sem við er að glíma á sviði vísinda, umhverfismála, efnahagsmála, þjóðfélagsmála og siðfræði. Háskólamenntun og rannsóknir stuðla að þroska og velferð einstaklinga bæði beint og óbeint með tilstuðlan betra samfélags.
III: Menntun án aðgreiningar stuðlar að jafnrétti 20. Það er skylda stjórnvalda að tryggja öllum íbúum aðgang að góðri menntun við hæfi hvers og eins. Með Almennu mannréttindayfirlýsinguna að vopni auk ýmissa alþjóðlegra og milliríkja samninga telur bandalagið að hverskyns hindrunum eigi að ryðja úr vegi svo allir eigi jafnan aðgang að menntun, óháð kyni, bakgrunni eða persónulegum eiginleikum. EI setur þess vegna á oddinn hugmyndina um jafna möguleika til menntunar á öllum stigum hennar. Engum á að mismuna vegna sérkenna, hvort sem þau eru bundin kyni, kynþætti, minnihlutahópi, kynhneigð, trúarbrögðum, menningu, efnahag eða persónulegum sérkennum. Fólk með sérþarfir á að aðstoða við að ná sem lengst í lífinu. 21. Menntun fyrir alla þýðir að öllum nemendur sé kennt saman, og sömu kröfur gerðar til þeirra, að svo miklu leyti sem hægt er í sömu skólastofnun, burt séð frá kyni, trú, kynstofni, menningu eða efnahag ellegar líkamlegri eða andlegri getu. EI viðurkennir að sérúrræði geti þurft fyrir suma nemendur svo að þeir fái notið sín sem best. Sérstaklega mikilvægt er að góð tengsl séu milli þeirra sem sjá um sérúrræðin og annarra til að auðveldara verði að deila þekkingu og kunnáttu og stuðla að samvinnu innan
5
Stefna Alþjóðasambands kennara í menntamálum
stofnunarinnar. Með þessu er þess vænst að nemendur þroski hugmyndir um jöfnuð, umburðarlyndi og fjölbreytni. 22. Menntun fyrir alla er jafn mikilvæg fátækum þjóðum og þeim sem betur mega sín. Margslungnar tegundir útilokunar auka óréttlæti í menntunarmálum hvarvetna í heiminum. Þetta óréttlæti kemur síðan fram á öðrum sviðum samfélagsins. Þar sem nám án aðgreiningar er stundað kynnast nemendur heimi margbreytileikans og læra á unga aldri að verða ábyrgir borgarar sem láta sér annt um meðbræður sína. Raunveruleg menntun án aðgreiningar er krefjandi og útheimtir sameiginlegt átak yfirvalda, skóla , nemenda, foreldra og umhverfisins til þess að sameina megi í sömu skólastofnun nemendur með ólíkan bakgrunn og mismunandi líkamlega og andlega getu. 23. Erfiðleikarnir við að koma á menntun fyrir alla varpa ljósi á vandamál fátækra landa við að standa að skólum án aðgreiningar. Allt of mörg börn, unglingar og fullorðnir fá hvorki undirstöðumenntun né starfsþjálfun. Ónóg fjárfesting í menntun og þróunaraðstoð hefur staðið í vegi fyrir því að takast mætti að koma á skólum fyrir alla. Þetta vandamál er snúnara en ella vegna skorts á menntuðu starfsfólki til að sinna þeim sem eru utanveltu, vegna kynbundins óréttlætis, barnaþrælkunar og þess að öllum stigum náms er ekki sinnt. EI telur að til þess betur að mæta þörfum þeirra sem ekki hafa aðgang að námi verði bæði að auka fjármagn til skóla án aðgreiningar og breyta því hvernig átakinu „skólar fyrir alla“ er stjórnað. 24. EI álítur að kynbundin málefni séu mikilvægustu verkefni skóla án aðgreiningar vegna þess að þau snerta allt sem varðar menntun. Frá fyrstu stigum ber að takast á við kynbundna mismunun og eyða henni. Yfirvöld eiga að sjá til þess að allir, stúlkur og konur, drengir og karlmenn hljóti fulla menntun. Þau þurfa líka að gæta að jafnrétti kynja að því er varðar árangur, störf, stöðuveitingar og stjórnun í menntun. Skólastofnanir og félög starfsmanna þurfa að koma sér upp áætlun um almenna kynbundna samþættingu. 25. Menntun og þjálfun kennara áður en og eftir að þeir hefja störf er snar þáttur í að gera þeim kleift að aðstoða nemendur með ólíkan bakgrunn, mismunandi getu og viðhorf. Slík kennaramenntun ásamt þjálfun og símenntun á að vera kostuð af almannafé og miða að því að kennarar geti betur tekist á við fjölbreytni og nýtt hana til að styrkja námið með aðstoð nýrrar upplýsinga- og samskiptatækni í skólastofunni. Mikilvægt er að hafa góða innleiðsluáætlun sem laðar nýliða að starfinu og gerir það árangursríkara. 26. Þörf er á nægum fjölda af menntuðu aðstoðarfólki til að nám nemenda með sérþarfir beri árangur. Samstarf og teymivinna kennara og aðstoðarfólks er mikilvæg í skólastofnunum til að tryggja að kennarar aðstoðarfólk og nemendur fái bestu mögulegu ráð og leiðbeiningar þegar upp koma ágreiningsmál tengd samþættingu. 27. Til að stuðla að skólaumhverfi án aðgreiningar, bæði hvað varðar nemendur og kennara, ætti samþættingin að ná til stjórnenda og leiðtoga skólastofnana þannig að kennarar ásamt foreldrum og nemendum hafi meira um mál að segja. 28. Allir sem uppfylla inntökuskilyrði eiga að hafa aðgang að menntun á hærri skólastigum burtséð frá félagslegri stöðu og fjárhag. Helst á menntun á hærri skólastigum að vera gjaldfrjáls.
6
Stefna Alþjóðasambands kennara í menntamálum
IV: Kennarastarfið er lykilstarf í samfélaginu 29. Kennsla er starf sem skiptir sköpum fyrir nám barna og ungmenna og félagslegan, menningarlegan og efnahagslegan þroska þeirra. Hún er algjört skilyrði fyrir því að takast megi að miðla og hugfesta félagsleg gildi svo sem lýðræði, jafnrétti, umburðarlyndi, skilning á menningu og virðingu fyrir grundvallarfrelsi einstaklinga. Kennarastéttin þarf að hafa fagmennsku að leiðarljósi, eiga siðareglur og vera annt um góð kjör og réttindi, allt til jafns við það sem tíðkast meðal starfsstétta með sambærilega menntun. Fagmennska kennarastéttarinnar á að ná til kennara á öllum stigum, bæði á frjálsum markaði og hjá hinu opinbera. Kennarar þurfa að temja sér þessi viðhorf meðan þeir eru í námi. 30. Mjög áríðandi er að gera kennarastarfið eftirsóknarverðara. Sú kynslóð kennara sem nú er í starfi eldist og allt of margir nýir kennarar hverfa úr starfi innan nokkurra ára. Stjórnvöldum og forstöðumönnum menntastofnana ber skylda til að sjá til þess að bæði þeim sem nú eru að störfum og verðandi kennurum finnist kennarastarfið og starfskjör þess eftirsóknarverð og standist samanburð við kjör sambærilegra starfsstétta. Virða ber umhyggju kennara og háskólafólks fyrir menntun og velgengni nemenda sinna. Til að halda uppi góðri kennslu og námi verða stjórnvöld og vinnuveitendur að láta það hafa forgang að efla sjálfstæði og sjálfstraust kennara í uppeldismálum og tilkall þeirra til akademísks frelsis og rannsókna. Í þessu samhengi er starfsöryggi sérlega mikilvægt og stemma verður stigu við lausráðningu í kennslu og rannsóknarstörfum sem hefur aukist mjög en er starfinu mjög öndverð. 31. Huga verður sérstaklega að stöðu ungra kennara, háskólafólks, fræðimanna og annars starfsfólks. Þeir sem ungir eru að árum sæta oft fyrstir skammtímaeða lausráðningu án eðlilegra væntinga um starfsferil eða starfsframa. Starfsmannastefna á öllum stigum verður að bjóða upp á skýra möguleika á framgangi byggðan á fagmennsku, menntun, og viðurkenningu á aukinni ábyrgð í starfi. Mismunun af hvað tagi sem er á ekki að koma til greina. 32. Kennarar njóta í auknum mæli aðstoðar annars starfsfólks. Þessi þróun er sérdeilis mikilvæg fyrir gæði menntunar og samþættingu. EI ítrekar að aðstoðarfólk eigi að hafa sömu stöðu, réttindi og starfsskilyrði og aðrir starfsmenn menntastofnana með sambærilega menntun og reynslu. 33. Aðgangur að kennarastéttinni og skyldum hlutverkum verður að vera án aðgreiningar svo sem vegna kyns, kynþáttar, aldurs, kynhneigðar, fötlunar, stjórnmála- og trúarskoðana eða efnahags- og félagslegrar stöðu. Yfirvöld þurfa að fylgjast með ráðningarmálum til að koma í veg fyrir mismunun. 34. Háskólar eiga að bjóða upp á kennaramenntun til viðeigandi lokaprófa á háskólastigi sem og framhaldsnám og fá til þess nægt fjármagn. Réttindi að loknu kennaranámi merkja þó ekki að kennarinn sé fullnuma. Þegar nýútskrifaðir kennarar eru ráðnir þurfa þeir að fá skiplagða handleiðslu inn í starfið. Allir kennarar eiga að hafa aðgang að faglegri símenntun sér að kostnaðarlausu. Ef kennarar eiga að geta bætt sig í starfi þurfa þeir að geta sagt til um menntunarþarfir sínar og haft áhrif á framboð símenntunar. Sérhver ríkisstjórn ætti að ná samkomulagi við kennarafélög um leiðir til að bæta árangur kennara 7
Stefna Alþjóðasambands kennara í menntamálum
í starfi. EI veit að mörg kennarasamtök bjóða upp á góðar leiðir til slíks fyrir meðlimi sína og kennara almennt og hvetur þess vegna stjórnvöld og vinnuveitendur til að efla og styrkja kennarasamtök í þessum efnum. Með slíkum stuðningi munu kennarar ná að mæta háum gæðakröfum. 35. Siðareglur og gildi kennarastarfsins hjálpa kennurum að taka faglegar ákvarðanir og kennarar ættu sameiginlega að að þróa þannig reglur og beita þeim. Reglur af þessum toga gera kennurum auðveldara að helga sig kennarastarfinu og vinna með nemendum, starfsfélögum, foreldrum og skólasamfélaginu. Þær eru mikilvæg lyftistöng fyrir fagmennsku í öllum menntastofnunum, hjálpa til að auka starfsánægju og styrkja sjálfsmynd kennara. Mikilvægt er að kennarar og samtök þeirra séu með í ráðum séu stofnuð kennsluráð. 36. Þar sem menntastofnunum er ætlað æ flóknara og fjölbreyttara hlutverk verður að gæta að mikilvægi samráðs og samvinnu nú þegar kröfur um skilvirkni og árangur eru háværar. Í skólaumhverfi án aðgreiningar leiðir af sjálfu sér að allir þurfa að vinna saman, sér í lagi kennarar, aðrir starfsmenn, nemendur og foreldrar, í anda sameiginlegs skilnings á skólastarfinu og almennrar samkenndar og umburðarlyndis. Því er þörf á að styrkja vinnustaðalýðræði.
V: Styrkja þarf stöðu kennarasamtaka í samfélaginu 37. Kennurum sjálfum er ljós styrkur af skipulögðu fastmótuðu samráði. Skipulögð, sjálfstæð, lýðræðisleg samtök sem hafa umboð kennara hafa veruleg áhrif á mótun menntastefnu á landsvísu, heima í héraði og á alþjóðavettvangi. En þau er jafnframt lykillinn að því að fagmennska sé í heiðri höfð og siðareglum fylgt. Kennarar og starfsfólk menntastofnana, hvar sem er og á hvaða stigi sem er, hvort heldur hjá hinu opinbera eða einkaaðilum, eiga að hafa leyfi til að stofna sjálfstæð, lýðræðisleg stéttarfélög. Yfirvöld verða að virða þennan samtakarétt, þar með talinn verkfallsrétt. 38. Samtök kennara gegna miklu hlutverki í samskiptum stjórnvalda, vinnuveitenda og launþega þegar rædd eru vinnu- og starfsmannatengd mál í menntastofnunum. Slík samræða krefst þess að aðilar beri gagnkvæma virðingu hver fyrir öðrum og leitast sé við að bæta gæði og stöðu menntunar, fagmennsku og starfskjör. Samtök kennara verða að standa jafnfætis öðrum í þessari umræðu. Þau semja líka sem heild fyrir kennara og aðra starfsmenn menntastofnana. Stéttarfélög kennara verða að mega grípa til hefðbundinna vopna launamanna ef veist er að umbjóðendum þeirra eða ábendingar þeirra hunsaðar. Gera verður kjarasamninga við stéttarfélögin um laun, launaþróun og starfsskilyrði þeirra sem starfa að menntamálum. 39. Síðasta áratug hefur EI komið á mikilvægum samskiptum við önnur félagasamtök í baráttu sinni fyrir bættri menntun um allan heim. Það er ljóst orðið að slík tengsl eru til góðs. Auk þess eflir samvinnan félagsleg gildi menntunar með því að stuðla að friði, lýðræði og auknum skilningi á fjölmenningu og umhverfismálum.
8
Stefna Alþjóðasambands kennara í menntamálum
VI: Alþjóðleg samstaða um menntun 40. Núorðið gegna alþjóðleg samskipti og sambönd mikilvægu hlutverki í þróun menntunar í heiminum. Sjálfsagt er að ýta undir og liðka fyrir öllum slíkum samskiptum og tengslum. Ekki er hægt að ofmeta þátt þeirra í að efla alþjóðlega samvinnu og gagnkvæman skilning. Auk samskipta af þessu tagi milli stjórnunaraðila og stofnana er rétt að glæða samskipti milli skóla, kennara, nemenda, háskólafólks og fræðimanna. 41. EI er málsvari alþjóðlegra verkalýðssamtaka sem meta mikils samstöðu og samvinnu og hugsjónir þess dofna ekki þótt á móti blási eða hvessi. Reynslan kennir að alþjóðleg bönd styrkjast með tímanum því að samskonar vandamál kalla á lík viðbrögð, svipaðar lausnir. Styrkur hins alþjóðlega bandalags kemur einnig fram í gagnkvæmum samstöðuyfirlýsingum og fjárstuðningi þegar kreppir að. 42. EI leggur áherslu á að sérstaklega þurfi að huga að þörfum Afríku. Slíkt er algjört skilyrði fyrir framtíðarþróun álfunnar. Meðal annars er þörf á umtalsvert meiri utanaðkomandi þróunaraðstoð til að styrktar menntunar á svæðinu. Svo menntun og rannsóknir nái að blómstra þarf að styrkja öll svið menntunar og efla almannatengsl. Bæta verður starfsskilyrði og réttindi kennara og annarra starfsmanna menntastofnana, svo og efla kennarasamtök og opinberar stofnanir í Afríku. 43. Menntun er lykill að því að sameina þjóðir, færa fólk nær hvert öðru og stuðla að manngæsku. Mannfélög líða víða um heim fyrir vopnuð átök, kúgun og styrjaldir. Það er mikilvægt að sýna hversu miklu menntun skiptir í að skapa friðsæld og fordæma verður þau tilvik þegar veist er að menntun til að koma höggi á lýðræði og umburðarlyndi. EI ítrekar nauðsyn þess að byggja aftur upp menntakerfið þar sem ófriði hefur slotað. 44. Bandalagið hafnar þeirri skoðun alþjóðlegra efnahags- og viðskiptastofnana að menntun sé eins og hver önnur söluvara sem eigi að lúta markaðslögmálum. Bandalagið starfar náið með alþjóðlegum menntastofnunum, til að mynda UNESCO, ILO, Global Unions og OECD. Bandalagið tekur undir stefnu þeirra í menntamálum sem lýtur að því að betri menntun sé hornsteinn samfélagsins.
VII: Tækni í þágu betri menntunar 45. Ný upplýsinga og fjarskiptatækni (IT) skapar spennandi möguleika á að efla menntun. Gagnvirkur hugbúnaður, stafrænn aðgangur að bókasöfnum og nýjar leiðir til samskipta nemenda, kennara, annarra starfsmanna og almennings eru aðeins brot af þeim möguleikum til að auðga menntun sem skapast með því að fella slíka tækni inn í hefðbundin störf í skólastofunni. Þessi tæki eru óþrjótandi náma fyrir kennara við störf þeirra. Kennarar, háskólafólk, fræðimenn á háskólastigi og annað starfsfólk menntastofnana gegna æ ríkara hlutverki við að innleiða IT í kennslu sem leiðbeinendur eða sérfræðingar í hinu tæknivædda umhverfi sem margir nemendur hrærast núna í. 46. Þessi nýja tækni á ekki að koma í stað venjulegrar kennslu heldur sem viðbót. Vegna innleiðslu IT í menntastofnanir þarf að huga betur að því að bæta þjálfun kennara og símenntun þeirra, að gerð námskráa, vinnuálagi kennara og innra skipulagi menntastofnana. Hún kallar einnig á meira jafnræði í heiminum hvað varðar aðgang að 9
Stefna Alþjóðasambands kennara í menntamálum
þessari tækni. Ef hún er ekki nýtt á árangursríkan hátt og gerð flestum aðgengileg getur hún aukið bilið milli auðugra og fátækari þjóða í heiminum. Ennfremur á að virkja tæknina til að auðvelda sambönd milli nemenda sjálfra, nemenda við kennara og við annað starfsfólk menntastofnana. 47. Nýir miðlunarmöguleikar auðvelda boðleiðir milli ólíkra menningarsvæða. Kennarar vita að þessi tækni er áhrifamikið tæki við að skapa veröld jafnréttis, lýðræðis og samstöðu. Í skólastofunni getur fjölmiðlun opnað mönnum nýja sýn með því að tengja nemendur og kennara frá mismunandi heimshornum. Þessa tækni ber að nýta til að kynna nemendum aðra menningarheima með því að glæða áhuga á tungumálanámi og með nemendaskiptum. 48. Fjölmiðlun hefur verið notuð til að koma á lýðræði þar sem áður ríkti einræði og spilling. Samtök kennara fagna henni sem áhrifaríkri leið til samskipta við meðlimi sína. Fjölmiðlun getur styrkt lýðræði innan samtakanna með nýjum leiðum til samræðna og samráðs. Hún getur nýst til að efla þátttöku, þar sem meðlimir eiga nú auðveldara með að hafa bein áhrif á stefnumótun, störf og þjónustu samtakanna. Auk þessa býður hún upp á nýtt form á samvinnu samtaka og almennings.
VIII: Menntun alla ævi í þágu betra lífs 49. Þar sem samfélög hvarvetna í heiminum verða æ flóknari má menntun ekki stöðvast við lok skólaskyldu. Menntakerfi þurfa að gera fólki kleift að halda áfram að mennta sig alla ævi. Þetta er sér í lagi mikilvægt fyrir fullorðnar konur sem hafa misst af menntun fyrr á ævinni. Huga þarf sérstaklega að símenntun á sviði starfs- og háskólamenntunar þar sem hún gerir fólk ekki aðeins hæfara til að skipta um störf heldur eflir hún persónulegan þroska og gerir borgarana færari um að takast á við ný viðfangsefni. 50. Menntakerfi verða að taka tillit til áskorana er varða samfélagið, menningu, efnahag, stjórnmál og umhverfi. Að þessu leyti er öflugt starfsmenntakerfi grunnþáttur í öllum nútíma menntakerfum. Kennarar og aðrir starfsmenn menntastofnana þarfnast stöðugt aukinnar fagmenntunar svo þeir megni að halda í við örar breytingar á samfélaginu og efnahagsumhverfinu sem þeir búa nemendur sína undir. 51. Menntakerfi þurfa einnig að vera vakandi fyrir getu sinni til að hafa áhrif á heilsufar nemenda. Gera ætti nemendur meðvitaðri um atriði er snerta heilsu og lífshætti svo þeir verði ábyrgari fyrir eigin heilsu og heilsufari annarra umhverfis þá. Mötuneyti í menntastofnunum eiga að bjóða upp á hollt fæði og námskrár upp á ráðleggingar varðandi hreinlæti og kynferðismál. 52. Menntakerfi verða að opna augu nemenda fyrir aðsteðjandi vandamálum í heiminum og aðstoða þá við að kljást við þau. Þetta er sérstaklega mikilvægt hvað varðar framtíð jarðar og sjálfbærni. Allar menntastofnanir verða nú að gera menntun um sjálfbærni að sjálfsögðum þætti í námskrám sínum. Nemendur verða borgarar og neytendur framtíðar og verða að gera sér grein fyrir þeim áhrifum sem mannkynið hefur haft á umhverfið og afleiðingum áframhaldandi neyslumenningar fyrir framtíð jarðarinnar. Í kjarna hverrar námskrár verður að vera umfjöllun um sjálfbærni.
10
Stefna Alþjóðasambands kennara í menntamálum
SAMANTEKT (I)
Menntun er mannréttindi og almannagæði sem hið opinbera verður að fjármagna og stýra.
(II)
Stjórnvöld eiga að setja lög um menntun í löndum sínum sem grundvallast á sanngirni, jafnræði og gæðum.
(III)
Stjórnvöldum ber að virða alþjóðlega sáttmála um rétt starfsmanna menntastofnana til að stofna félög sem semja fyrir þá og hlíta öðrum ákvæðum er varða stöðu kennara og annarra starfsmanna.
(IV)
Stjórnvöld ættu að verja að lágmarki 6% af vergri landsframleiðslu til menntamála.
(V)
Sérhver einstaklingur á óskoraðan rétt til náms við hæfi sem gerir honum kleift að þroskast og verða ábyrgur þjóðfélagsþegn.
(VI)
Allir eiga rétt á góðri menntun.
(VII)
Allir nemendur eiga að hafa aðgang að fjölbreyttu, vel samsettu námi.
(VIII)
Skilgreining á góðri menntun er háð umhverfi og menningu. Hugtakið „gott“ er hvorki einfalt né einsleitt. Góð menntun er háð aðstæðum (bakgrunni nemenda, menntun kennara, starfsskilyrðum, hópastærðum og framlögum til menntamála), menntunarferlinu (þar á meðal kennslu og heimilisaðstæðum) og þeim væntingum sem hafa má (vegna þarfa einstaklinga, samfélagsins, menningar, efnahags og umhverfis). Þegar tillit er tekið til aðstæðna er mat á gæðum aldrei undirorpið nauðhyggju heldur háð sköpunargetu og í sífelldri þróun. Góð og bætt menntun öllum til handa byggir á sem bestum starfsháttum, starfsreynslu og menntarannsóknum.
(IX)
Kennarar eiga að gera miklar faglegar kröfur til sín og vera ábyrgir gagnvart samfélaginu. Mat á störfum þeirra ætti að framkvæma í samstarfi við jafningja þeirra og til þess bærra sérfræðinga. Gagnkvæmt traust skal ríkja og leitast við að hjálpa kennurum að koma auga á hvar þeir geti bætt sig.
(X)
Tryggja þarf góða kennaramenntun, aðgang að framhaldsnámi og skipulega innleiðslu í kennarastarfið. Alla starfsævina eiga kennarar að njóta góðrar símenntunar sér að kostnaðarlausu.
(XI)
Kennarar eiga að njóta mikillar virðingar í þjóðfélaginu í samræmi við menntun og hæfileika vegna þeirrar ábyrgðar sem starfi þeirra fylgir við þróun samfélagsins.
(XII)
Kjör þeirra sem sinna störfum við menntastofnanir eiga að vera sambærileg við kjör annarra sem hafa sambærilega menntun.
(XIII)
Allir eiga að hafa jafnan rétt til menntunar. Ekki á að líða mismunun af neinu tagi, hvorki vegna kyns, fötlunar, trúarbragða, kynþáttar, þjóðernis, kynhneigðar, efnahags , menningar eða persónuleika.
11
Stefna Alþjóðasambands kennara í menntamálum
(XIV)
Menntun skal vera án aðgreiningar og halda skal á lofti jafnrétti, umburðarlyndi og virðingu fyrir fjölbreytni.
(XV)
Háskólamenntun á að vera öllum opin sem standast inngönguskilyrði án fjárhags- eða félagslegra hindrana. Vernda ber hana gegn samkeppni og markaðsvæðingu.
(XVI)
Gæta þarf sérstaklega að kynbundnum sjónarmiðum, einkum staðalímyndum og hindrunum á skólagöngu vegna kynferðis, því slíkt hefur áhrif á alla nemendur og starfsmenn.
(XVII)
Líta ber á kennslu á öllum stigum sem sérfræðistörf sem njóti sömu virðingarstöðu og önnur áþekk störf.
(XVIII)
Kennarar skulu fylgja ákveðnum siðareglum og gildum til að efla stöðu sína.
(XIX)
Starfsmenn eiga að koma að stjórnun menntastofnana sem þeir starfa við og hafa áhrif á hvernig símenntun gagnast þeim. Þeir þurfa að starfa í góðri sátt við aðra sem málið varðar eins og foreldra og nemendur við að bæta og þróa viðkomandi menntastofnanir
(XX)
Sjálfstæð, lýðræðisleg kennarasamtök sem hafa fullt umboð gegna mikilvægu hlutverki í þróun og framboði á góðri menntun í þjóðfélaginu. Þau eiga að fá að taka fullan þátt í allri umræðu um menntamál og vera viðurkennd sem fullgildir samningsaðilar fyrir hönd kennara og annarra starfsmenna.
(XXI)
Alþjóðleg samstaða og samvinna EI við aðildarfélög og á heimsvísu við alþjóðlegar stofnanir sem móta stefnu í menntamálum hefur mikla þýðingu fyrir þróun og framboð á góðri menntun öllum til handa.
(XXII)
Nútíma tækni þarf að vera öllum aðgengileg vegna þess gagns sem hún getur gert við að bæta menntun.
(XXIII)
Nám á að vera öllum aðgengilegt alla ævi og auðga líf fólks.
12