1 minute read

4 Lokaorð

LOKAORÐ

Landbúnaðarháskóli Íslands er eini háskólinn á Íslandi sem starfar á búvísindasviðinu. Í stefnu skólans 2019-2024 er lögð áhersla á að auka rannsóknir, nýsköpun og kennslu, efla innviði, mannauð og kynningarstarf. Byggð hefur verið upp aðstaða á Hvanneyrarbúinu og á Hestbúinu sem hefur verið nýtt til ræktunarstarfs, rannsóknaverkefna og kennslu með góðum árangri. Fyrir liggur að bæta þurfi aðstöðu til rannsókna og nýsköpunar til að viðhalda samkeppnishæfni Íslands í landbúnaði og matvælaframleiðslu, ekki síst vegna aukinnar alþjóðlegrar samkeppni, sjálfbærniþátta og fæðuöryggis. Hér er ekki einungis horft til endurbóta og viðhalds á Hvanneyrarbúinu og Hesti, heldur einnig til uppbyggingar á Jarðræktarmiðstöð, kaupa á Mið-Fossum og öflugra rannsókna í útiræktun og ylrækt, annarra hefðbundinna greina og nýrra greina sem eru að koma fram á sjónarsviðið. Vísindalegt gildi felst í þeim tækifærum sem eru í bættri aðstöðu Landbúnaðarháskóla Íslands til rannsókna- og nýsköpunarverkefna. Hagnýtt gildi felst í bættri þekkingu á núverandi stöðu íslensks landbúnaðar í samanburði við það sem best gerist í nágrannalöndunum og betri skilningi á möguleikum til nýsköpunar og uppbyggingar í greininni. Með bættri aðstöðu, auknum rannsóknum og nýsköpunarverkefnum er lagður grunnur að framtíðaruppbyggingu og stefnumótun í landbúnaði með áherslu á heilnæmi, sjálfbærni og öryggi matvæla. Landbúnaðarháskóli Íslands vill leggja sitt af mörkum til að viðhalda og bæta samkeppnishæfni Íslands á sviði matvælaframleiðslu, tryggja fæðuöryggi hérlendis, auka hágæða framleiðslu og styðja við útflutning. Uppbygging og viðhald á góðri aðstöðu er forsenda þess að vel takist til því það er ljóst að betri búskapur skilar bættum þjóðarhag.

This article is from: