1 minute read
Starfs- og endurmenntunardeild
Starfsmenntadeild
Helsta verkefni starfsmenntadeildar LbhÍ er kennsla (bókleg kennsla og verklegar æfingar) á framhaldsskólastigi í blómaskreytingum, búfræði, garð- og skógarplöntuframleiðslu, skógtækni, skrúðgarðyrkju og ylrækt. Auk þess heldur skólinn utan um verknám nemenda í öllum þeim greinum sem skólinn kennir.
Vorið 2008 útskrifuðust 16 nemendur af búfræðibraut. Af garðyrkjubrautum fengu 11 nemendur fulla útskrift (þ.e. höfðu lokið bæði bóklegu námi og verknámi) og 18 fengu námsferilsyfirlit við brautskráningu skólans. Þeir nemendur hafa lokið bóklegum greinum en hafa ekki lokið verknámi að fullu. Brautskráning nemenda af garðyrkjubrautum var flutt í Bústaðakirkju í Reykjavík vegna Suðurlandsskjálfta sem reið yfir tveimur dögum fyrir útskrift. Töluvert tjón varð á Reykjum vegna jarðskjálftanna og fór sumarið meira og minna í lagfæringar á húsnæði til að hægt væri að hefja kennslu við almennilega aðstöðu að hausti. Nemendur eru teknir inn í búfræði árlega en einungis annað hvert ár á garðyrkjubrautir. Haustið 2008 innrituðust 63 nemendur í garðyrkju og 27 í búfræði. Af þessum nemendum voru 56 í staðarnámi og 34 í fjarnámi. Ekki fékkst næg þátttaka á ylræktarbraut þannig að ekki var farið af stað með kennslu á þeirri braut. Stöðugildi í deildinni voru 13 þetta árið, þar af voru 3,5 tilheyrandi endurmenntuninni. Á sumardaginn fyrsta voru stofnuð Hollvinasamtök garðyrkjunnar sem hafa það að markmiði að styðja við garðyrkjunám í landinu.
Endurmenntun
Endurmenntun LbhÍ hélt alls 100 námskeið árið 2008 með 1541 þátttakendum. Námskeiðin voru haldin víða um land og í samstarfi við alla helstu fagaðila sem tengjast fagsviðum LbhÍ með einum eða öðrum hætti. Námskeiðaröðin Grænni skógar hefur haldið sínu striki og alls voru 73 þátttakendur þetta árið. Farið var af stað með nýja námskeiðaröð, Reiðmanninn en hún byggir á hugmyndafræði sem Reynir Aðalsteinsson hefur þróað. Alls voru það 44 þátttakendur sem tóku þátt í þessum fyrsta hópi Reiðmannsins og lofar það góðu um framhaldið. Auk þessa var fjöldinn allur af sérhæfðum fagnámskeiðum fyrir bændur, garðyrkjumenn og aðra fagaðila sem tengjast skólanum. Heilt yfir gekk starfsemi endurmenntunarinnar mjög vel á árinu. Endurmenntunin er í hægum og öruggum vexti og var heildarársvelta deildarinnar um 28,2 milljónir.
8