4 minute read
Ávarp rektors
Níunda starfsár LbhÍ var viðburðaríkt. Einn markverðasti þáttur skólastarfsins á árinu 2013 var úttekt gæðaráðs háskólastigsins á faglegu starfi LbhÍ. Þessi úttekt var kynnt í september. Þetta var stór stund í sögu LbhÍ – og e.t.v. stærri en margir hafa gert sér grein fyrir, en í þessari skýrslu er trausti lýst á starfsemi skólans. Nokkrum mánuðum fyrr hafði úttektarnefndin gefið starfi skólans góða einkunn í heild (confidence). Í niðurstöðum nefndarinnar komu einnig fram mjög gagnlegar ábendingar um þætti til úrbóta sem ætti að vera mögulegt að bregðast við þannig að gæði skólastarfsins geti aukist. Í niðurstöðum nefndarinnar eru auk þessa nefnd þrjú atriði (contextual facts) sem nauðsynlegt er að hafa í huga þegar starfsemi skólans er metin og möguleikarnir skoðaðir: Landbúnaðarháskóli Íslands hefur verið undirfjármagnaður allt frá árinu 2005. Þetta hefur staðið í vegi fyrir þróun stofnunarinnar og takmarkað möguleika hennar til að innleiða ráðleggingar sem fylgdu með viðurkenningum fræðasviða á sínum tíma. Landfræðilega dreifð starfsemi LbhÍ rímar vel við hlutverk stofnunarinnar en flækir engu að síður skipulag hennar. Smæð stofnunarinnar ásamt háu hlutfalli fjarnema veikir rekstur sumra námslína.
Það er ánægjulegt að minnast þess að í ársbyrjun var verkefni nemanda frá LbhÍ tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Þetta var verkefnið Ströndin og skógurinn: Útivistarnotkun og sóknarfæri, eftir Sindra Birgisson, nemanda í skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Í ársbyrjun var hafinn undirbúningur vegna Landsýnar, sem leysti af hólmi Fræðaþing landbúnaðarins, en ráðstefnan var haldin í byrjun mars á Hvanneyri. Samhliða var ýtt úr vör vefritinu Skrínu.
Gerður var samningur við Veiðimálastofnun um aukna aðstöðu á Keldnaholti, einkum geymslurými. Þá var á árinu endurnýjaður samningur við atvinnuvegaráðuneytið um rannsóknir í landbúnaði. Sjóðir í vörslu LbhÍ komu til umræðu á fyrstu yfirstjórnarfundum ársins 2013. Hér er um að ræða sjóði sem eru Minningarsjóður Hjartar og Ragnheiðar, Blikastaðasjóður, Sólveigarsjóður, Vigdísarsjóður og Framfarasjóður Ingibjargar og Þorvaldar í Síld og Fisk. Engar úthlutanir höfðu verið úr sjóðunum í nokkur undanfarin ár en við uppgjör kom í ljós staða þeirra hafði styrkst til muna og umtalsverðir fjármunir voru til úthlutunar. Síðar var ákveðið að gera átak í innkaupum á bókum til bókasafns LbhÍ sem fjármögnuð voru með framlögum úr Vigdísarsjóði og Sólveigarsjóði. Undir vor voru svo auglýstir styrkir úr minningarsjóði Hjartar og Ragnheiðar. Gengið var frá úthlutun úr minningarsjóðnum og styrkir síðan afhentir í ágúst. Alls fengu 8 meistaranemar styrk upp á kr. 500.000 hver. Í apríl stóð votlendissetur LbhÍ fyrir opinni ráðstefnu á Hvanneyri í tilefni af skráningu Andakílsfriðlandsins hjá Ramsar en Votlendissetrið hafði unnið að tilnefningu þess um nokkurt skeið. Svæðið er sérstætt af Ramsarsvæðum á Íslandi, annars vegar hvað varðar fjölbreytileika votlendisvistgerða og hins vegar að starfstöð háskólans að Hvanneyri er staðsett í miðju friðlandinu sem gefur einstakt tækifæri til að samþætta bæði kennslu og rannsóknir í náttúrufræðum við friðun og framgang svæðisins. Útskrift vorsins var fjölmenn, en á fimmta tug voru útskrifaðir úr starfsmenntadeild, 35 BS nemendur og tugur meistaranema. Nemendur úr garðyrkjudeildum eru útskrifaðir annað hvert ár; næst vorið 2014.
Verkefni skólans eru mýmörg, en gera má grein fyrir einu slíku sem er um margt einkennandi fyrir starfið. Á árinu gerðu LbhÍ og Faxaflóahafnir með sér samkomulag um samstarf á sviði umhverfismála. Samkomulagið felur í sér samstarf þessara aðila um umhverfismál, skipulagsmál og landnýtingu. Meðal annars eru aðilar sammála um að eiga samstarf um endurheimt Katanestjarnar á Grundartanga, skógræktina á Grundartanga, umhverfismælingar á gæðum sjávar á hafnarsvæðum Faxaflóahafna sf. auk fræðslu og ráðgjafar á ýmsum sviðum. Þá er opnað á þann möguleika að nemendur LbhÍ geti unnið doktors- eða mastersverkefni um afmörkuð efni sem tengjast hafnarsvæðunum, en í LbhÍ eru nemendur sem stunda nám um nýtingu auðlinda landsins, umhverfisfræði og skipulagsfræði, sem tengist með beinum hætti ýmsum verkefnum Faxaflóahafna sf. á sviði landmótunar, landþróunar, umhverfismála og skipulagsmála. Aðilar munu gera sérstakt samkomulag um hvert það verkefni sem ákveðið verður að vinna en óhætt er að segja að af nógu sé að taka. Verkefni af þessu tagi eru dýrmæt fyrir skólann, samfélagið og alla sem að þeim koma. Á árinu var unnið að því að skapa auknar tekjur af nemendagörðum á sumrin með ferðaþjónustu. Gengið var til samninga við Kristján Karl Kristjánsson sem rekur Ferstiklu. Hann mun reka Hótelið Sól næstu árin í hluta af nemendagörðunum. Þetta er mikilvægt skref í átt að aukinni ferðaþjónustu á Hvanneyri. Lögum um opinbera háskóla var breytt á liðnu ári og taka breytingarnar gildi 1. júlí 2013. Hluti af nýjum veruleika er að LbhÍ starfar nú eftir sömu lögum og aðrir opinberir háskólar í stað búnaðarfræðslulaga og ákvæða í lögum um rannsóknastofnanir atvinnuveganna sem þar með voru felld úr gildi. Á aprílfundi háskólaráðs var m.a. fjallað um samstarf háskólanna og nefnt sem dæmi að samstarfsnetið gengi vel. Á fundinum var mikið rætt um samstarf eða samvinnu við HÍ. Það var mál manna að skoða þyrfti tækifæri og ávinning af frekara samstarfi við HÍ. Á fundi háskólaráðs var samþykkt tillaga þess efnis að fram fari viðræður við Háskóla Íslands þar sem markvisst verði kannaðir möguleikar skólanna til samstarfs. Sérstök áhersla verði lögð á samstarf sem skilar faglegum ávinningi, nýjum tækifærum og öflugra starfi á fagsviðum LbhÍ til framtíðar. Þessi tillaga var samþykkt samhljóða. Á árinu var mikið fjallað um framtíð Landbúnaðarháskóla Íslands en ljóst er að hann stendur á vissum krossgötum. Tækifæri þeirra fræðasviða sem hann hvílir á eru mörg og möguleikar til nýsköpunar miklir. Það þarf hins vegar að velja honum góða leið þannig að starfið megi áfram blómstra. Það er ósk okkar allra að það megi takast sem best.
Ágúst Sigurðsson