1 minute read

Landgræðsluskóli Háskóla sameinuðu þjóðanna

Next Article
Rannsóknasvið

Rannsóknasvið

Landgræðsluskólinn hóf starfsemi sína árið 2007 sem tilraunaverkefni utanríkisráðuneytisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins. Árið 2010 varð skólinn hluti af neti Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem telur á annan tug stofnana víðsvegar um heiminn með höfuðstöðvar í Tókýó. Landgræðsluskólinn hefur frá upphafi verið fjármagnaður af utanríkisráðuneytinu sem framlag Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og hýstur af Landbúnaðarháskóla Íslands í samstarfi við Landgræðslu ríkisins.

Meginmarkmið Landgræðsluskóla HSþ er að aðstoða þróunarlönd sem glíma við mikla landhnignun að stuðla að sjálfbærri landnýtingu og græða upp illa farið land. Það er gert með því að bjóða hingað til lands sérfræðingum frá samstarfsstofnunum Landgræðsluskólans á sex mánaða námskeið í landgræðslu, sjálfbærri landnýtingu og endurheimt vistkerfa. Námið byggir upp þekkingu innan viðkomandi stofnana og landa með þjálfun starfsfólksins sem hingað kemur, sem deilir síðan reynslu sinni og þekkingu þegar heim er komið.

Árið 2015 voru 13 nemendur við nám í Landgræðsluskóla HSþ, sjö konur og sex karlar frá sjö löndum: Kirgistan og Mongólíu í Mið-Asíu, og Eþíópíu, Gana, Malaví, Namibíu og Úganda í Afríku. Hópurinn útskrifaðist 17. september við hátíðlega athöfn á Keldnaholti að viðstöddum fjölda gesta þar á meðal rektor LbhÍ, Landgræðslustjóra og ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins. Frá upphafi hafa 76 nemar verið útskrifaðir úr skólanum, 49% þeirra konur og 51% karlar en skólinn leggur áherslu á að þjálfa bæði konur og karla. Samstarfsstofnanir Landgræðsluskólans eru í flestum tilfellum nokkrar í hverju landi, allt frá háskólum og rannsóknastofnunum til héraðsstjórna, ráðuneyta og annarra opinberra stofnana.

Auk sex mánaða námskeiðsins taka fastir starfsmenn skólans, sem eru þrír, þátt í ýmsum viðburðum og öðrum verkefnum er tengjast skólanum. Gott samstarf er við aðra Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi: Jarðhitaskólann, Sjávarútvegsskólann og Jafnréttisskólann auk þess sem samstarfsstofnanir í þróunarlöndum eru heimsóttar reglulega. Áhersla er einnig lögð á að auka tengslanet nemanna og þau styrkt til þátttöku í alþjóðlegum ráðstefnum sem einnig er liður í þeim hluta námsins sem snýr að því að auka færni nemanna í að miðla þekkingu í rituðu og töluðu máli. Á árinu styrkti Landgræðsluskólinn þrjá fyrrum nema, frá Gana, Mongólíu og Úsbekistan, til þátttöku í alþjóðlegri vistheimtarráðstefnu í Manchester á Englandi og einn fyrrum nemi frá Kirgistan sótti þing Eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna (UNCCD) í Ankara í Tyrklandi ásamt forstöðumanni Landgræðsluskólans.

This article is from: