1 minute read
Fullveldisafmæli 2018
36 36 FULLVELDISAFMÆLI 2018
Á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum 18. júlí 2018 samþykkti þingheimur sameiginlega tillögu formanna stjórnmálaflokkanna um verkefni í þágu barna og ungmenna, og um rannsóknir sem stuðla að sjálfbærni auðlinda hafsins og um nýtt hafrannsóknaskip.
Unnið að lagfæringum á göngustígum fyrir hátíðarfundinn 2018.
Hátíðarfundur Alþingis á hundrað ára fullveldisafmæli
Hefð er fyrir því að Alþingi minnist merkra tímamóta í sögu þjóðarinnar með því að funda á Þingvöllum. Þann 13. október 2016 samþykkti Alþingi tillögu formanna allra stjórnmálaflokka, um að minnast skyldi aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands en árið 2018 voru hundrað ár liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki með sambandslögunum 1918. Meðal annars var ákveðið að halda hátíðarfund á Þingvöllum 18. júlí 2018, en þann dag 1918 var samningum íslenskra og danskra þingmanna um fullveldi Íslands lokið. Hátíðarfundurinn á Þingvöllum var einn af mörgum þáttum í hátíðahöldum á afmælisárinu sem undirbúningsnefnd Alþingis stóð fyrir með þátttöku fjölda félaga, samtaka, hópa og stofnana.
Vorið 2017 var skipaður vinnuhópur á vegum skrifstofu Alþingis til að annast undirbúning hátíðarfundar á Þingvöllum og átti þjóðgarðsvörður sæti í hópnum sem fulltrúi Þingvallanefndar og sem tengiliður við þjóðgarðinn. Aðrir í hópnum voru fulltrúar þeirra sem komu beint að framkvæmd mismunandi þátta hátíðarfundarins svo sem Ríkislögreglustjóra, Vegagerðarinnar, Framkvæmdasýslu ríkisins og Ríkisútvarpsins, auk starfsfólks Alþingis. Þegar leið að hátíðarfundi var ljóst að mikil vinna fólst í að stjórna og undirbúa framkvæmdir á vettvangi, samhæfa störf þeirra sem komu að undirbúningi hátíðarfundarins, t.d. Rarik, Vegagerðarinnar, Landsbjargar og annarra aðila. Starfsfólk þjóðgarðsins vann ötullega að undirbúningi hátíðarfundarins, bæði með áætlunargerð og sérþekkingu sinni á svæðinu auk aðkomu að mismunandi framkvæmdum.
Göngustígar voru undirbúnir og lagfærðir og lagt kurl í 500 metra af gönguleiðinni frá þjónustumiðstöðinni að hátíðarsvæðinu. Gott og hnökralaust samstarf var milli allra sem komu að undirbúningi og framkvæmd hátíðarfundarins. Undirbúningurinn miðaðist við að 2000-5000 manns kæmu til Þingvalla sem var töluvert minna en hafði verið á öðrum stærri viðburðum á Þingvöllum enda var hér eingöngu um að ræða hátíðarfund Alþingis án nokkurrar annarrar dagskrár á Þingvöllum. Mun færri komu á Þingvöll til að fylgjast með hátíðarfundinum en búist var við en bein útsending RÚV tókst vel og horfðu margir á sjónvarpsútsendingu frá viðburðinum.