2 minute read

Hefur notið tímans heima með barni og eiginkonu

Suðurnesjamanninum hefur gengið vel hjá Malmö.

Arnór Ingvi Traustason, atvinnuknattspyrnumaður, hefur æft heima í veirufríi í Malmö í Svíþjóð en er byrjaður að æfa aftur með liðinu

A-in þrjú: Arnór, Andrea og Aþena.

Atvinnuknattspyrnumaðurinn Arnór Ingvi Traustason segir að í Malmö í Svíþjóð, þar sem hann býr, fari fólk mikið í göngutúra á tímum COVID-19. Hann æfir sjálfur heima við en allir leikmenn sænska liðsins Malmö voru í tveggja vikna fríi frá æfingum, því „fríi“ lýkur nú í dymbilvikunni. Landsliðsmaðurinn svaraði nokkrum spurningum Víkurfrétta um stöðuna á veirutímum.

Hvernig ert þú að upplifa ástandið í kringum COVID-19?

Þetta er rosalegt ástand sem við erum að ganga í gegnum en það eina í stöðunni er að fara varlega og halda í jákvæðnina um að þetta líði hjá sem fyrst.

Hefurðu áhyggjur?

Auðvitað hefur maður áhyggjur og þá sérstaklega af fólkinu sínu. Svo er fótboltinn að skekkjast og ekki vitað hvenær nákvæmlega hann fer af stað aftur, sem er vissulega óþægilegt.

Hvaða áhrif hefur faraldurinn á þitt daglega líf?

Við hjá Malmö fórum allir í tveggja vikna pásu frá æfingum og æfðum heima og hlupum sjálfir úti. Það hefur því verið mikil heimavera undanfarið og þar sem vinnan mín bíður ekki mikið upp á það hef ég notið aukins tíma með Andreu og Aþenu.

Hefur þú þurft að gera miklar breytingar varðandi þína vinnu?

Ég hef æft sjálfur heima síðustu vikur en í þessari viku hittist liðið á nýjan leik. Æfingarnar verða með breyttu sniði og klúbburinn gerir sitt besta til að aðlaga okkur að ástandinu. Við byrjuðum í þessari viku morgun. Það fær enginn að fara inn í búningsklefa. Allir þurfa að klæða sig heima hjá sér og sturta heima. Svo verðum við að vera í síðbuxum og langermabol. Þá komum við í veg fyrir snertingu.

Hvernig ert þú að fara varlega?

Við erum mikið heima, förum varlega, pössum upp á hreinlæti og fylgjum öllum fyrirmælum yfirvalda.

Hvernig hagar þú innkaupum í dag og hvernig er staðan almennt í Malmö?

Hér í Malmö má fara út og hitta fólk á kaffihúsum og svo framvegis. Fólk er mikið úti í göngutúrum og að hreyfa sig.

Við reynum að versla inn fyrir vikuna. Við notum hinsvegar netið líka og pöntum mat heim.

Hvað gerir þú ráð fyrir að ástandið muni vara lengi?

Það er stóra spurningin. Það veit það enginn. Svo lengi sem við pössum okkur og förum eftir reglum þá mun þetta deyja hægt og rólega út. Ég þori ekki að fara með það en maður heldur í vonina að þetta fari að ganga yfir.

This article is from: