2 minute read
Ekkert sjálfsagt eða sjálfgefið í þessum heimi
Jóna Sigurðardóttir starfar á skrifstofu SI raflagna í Garðinum. Hún myndi nota símtal til að hringja í mömmu og pabba sem hafa verið í sjálfskipaðri sóttkví í fjórar vikur.
– Hvernig varðir þú páskunum?
Heima hjá mér í rólegheitum, ég hlýði Víði.
– Hvernig páskaegg fékkstu og hver var málshátturinn?
Það voru nú bara keypt lítil páskaegg fyrir okkur hjónin bara til að fá málshátt og málshátturinn minn var: „Enginn sér við öllum rokum.“
– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?
Hefðbundin símtöl eða myndsímtöl? Nota FaceTime mikið þessa dagana að tala við mömmu og pabba, börnin og barnabörnin Zoom til að hlusta á fyrirlestra hjá Samtökum iðnaðarins.
– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?
Ég myndi hringja í mömmu og pabba þar sem þessar elskur eru búnar að vera í sjálfskipaðri sóttkví í sumarbústað sínum í nærri fjórar vikur og ég sakna þess að geta ekki knúsað þau.
– Hvernig ertu að upplifa nýjustu tíðindi um að það muni jafnvel taka margar vikur inn í sumarið að aflétta hömlum vegna COVID-19?
Ég bara veit það ekki, vinnulega séð finnst mér það frekar erfitt en þetta er bara verkefni sem við verðum öll að takast á við saman.
– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?
Að það er bara ekkert sjálfsagt eða sjálfgefið í þessum heimi.
– Ertu liðtæk í eldhúsinu?
Já, já, svona sæmilega en bóndinn samt betri en ég.
– Hvað finnst þér virkilega gott að borða?
Góða steik.
– Hvað var í páskamatinn?
Sko þessu var skipt upp í ár, ég á þrjú börn, þrjú tengdabörn og fimm barnabörn þannig að það var veisla fyrir hverja fjölskyldu fyrir sig. Smjörsteikt lambalæri og meðlæti á skírdag fyrir fyrsta holl, lamba konfekt og meðlæti á föstudaginn langa fyrir holl númer tvö og hægeldað nautakjöt og meðlæti á páskadag fyrir þriðja hollið.
– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?
Góðar súpur og heita rétti.
– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?
Hjónabandssæla.
– Ef þú fengir 2000 krónur. Hvað myndir þú kaupa í matinn?
Harðfisk og smjör.
– Hvað hefur gott gerst í vikunni?
Að fá að eiga samverustund með börnunum mínum og fjölskyldum þeirra.
– Hvað hefur vont gerst í vikunni?
Ekkert vont en skrýtið að geta ekki boðið öllu fólkinu sínu í afmæliskaffi og spjall.
Hvaða spurningu hefðir þú viljað fá að svara í þessu viðtali?
Hver er spurningin og svarið við henni?
– Hvað finnst þér skemmtlegast að gera?
AÐ FARA ÚT AÐ HLAUPA.