Eystrahorn 1.tbl 2018

Page 1

Eystrahorn

www.eystrahorn.is

Fimmtudagurinn 11. janúar 2018

1. tbl. 36. árgangur

Áramótakveðja bæjarstjóra

Ég óska íbúum og starfsfólki sveitarfélagsins, sem og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og farsældar á árinu sem er að hefjast. Sálmur Valdimars Briem frá árinu 1886 hefst á þessum frægu línum „Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka.“ Þessi sálmur fangar vel þessi tímamót sem áramót eru í hugum okkar flestra. Minningar frá liðnu ári eru okkar um ókomna tíð, þó árið komi ekki aftur. Í mínum huga var árið 2017 nokkuð gott ár. Það einkenndist af fjölmörgum verkefnum og áskorunum bæði í einkalífi og störfum mínum sem bæjarstjóra.

Atvinnulífið Atvinnuástand er mjög gott í sveitarfélaginu og atvinnumöguleikar með þeim betri á landinu. Atvinnuleysi síðustu árin hefur verið undir 1% og er vöntun á starfsfólki í mörgum greinum. Að búa í þessu fallega sveitarfélagi í nálægð við svo stórbrotna náttúru eru mikil forréttindi sem fleiri og fleiri sækjast eftir. Þetta umhverfi laðar fram nýsköpun og frjóa hugsun sem endurspeglast í fjölgun fyrirtækja sem nýta sér þessar aðstæður, sem og stórbrotið landslag, sem hvata til listsköpunar. Við höfum nú verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fjölgun íbúa sveitarfélagsins á þessu kjörtímabili nemur 5.8% og er nú íbúafjöldi sveitarfélagsins 2.294 manns. Er þetta mjög jákvæð þróun. Undirstöður sveitarfélagsins byggja á sjávarútvegi, ferðaþjónustu og landbúnaði. Það er því í mörg horn að líta varðandi framtíð og þróun sveitarfélagsins. Innsiglingin um Hornafjarðarós og Grynnslin halda áfram að vera þröskuldur í frekari þróun sjávarútvegs. Mikilvægt er að fundin verði varanleg lausn til að tryggja ásættanlegt dýpi á Grynnslum fyrir utan Hornafjarðarós og henni hrint í framkvæmd. Einnig þarf að ýta undir að fjölbreyttur landbúnaður blómstri í sveitarfélaginu því þar felast mikil tækifæri til nýsköpunar. Starfsumhverfi greinarinnar þarf að vera hvetjandi til að tryggja afkomu þeirra sem innan hennar starfa því landbúnaður styður meðal annars við aðrar atvinnugreinar. Sem stendur er unnið að gerð nýrrar fjallskilasamþykktar fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð sem er ætlað að einfalda framkvæmd fjallskila og mæta nýjum aðstæðum vegna samfélagsbreytinga í landbúnaði. Náttúruöflin hafa spilað stóran þátt í samfélaginu okkar gegnum árin og nú á nýliðnu ári var það skjálftavirkni í Öræfajökli og náttúruhamfarir vegna rigninga. Þess háttar inngrip geta haft mikil áhrif á undirstöðu atvinnugreinanna, og er

því mikilvægt að áætlanir og uppbygging taki mið af því. Ferðaþjónustan er ört vaxandi atvinnugrein og er mikilvægt að hún haldi áfram að vaxa og dafna með öryggi gesta okkar í öndvegi, og ekki síður mikilvægt að uppbygging sé í sátt við íbúa sveitarfélagsins.

Vatnajökulsþjóðgarður Vatnajökulsþjóðgarður er mikilvægur fyrir sveitarfélagið vegna sérstöðu náttúrunnar á svæðinu.Eftir að jörðin Fell og þjóðlendur á Breiðamerkursandi voru friðlýstar sem hluti af Vatnajökulsþjóðgarði eru um 58% sveitarfélagsins innan þjóðgarðsins, og á landsvísu er það hæsta hlutfall sveitarfélags innan þjóðgarðsins. Sem stendur er í undirbúningi stofnun þjóðgarðastofnunar og munu Vatnajökulsþjóðgarður, Snæfells­ þjóðgarður og þjóðgarðurinn á Þingvöllum auk allra friðlýstra svæða á Íslandi tilheyra stofnuninni. Í ljósi þess hve stór hluti Sveitarfélagsins Hornafjarðar er innan þjóðgarðs myndi hæfa vel að höfuðstöðvar þjóðgarðastofnunar yrði staðsettar innan sveitarfélagsins, og væri það okkur mikill heiður ef svo yrði.

Hjúkrunarrými, húsnæðismál og leikskólamál Í október síðast liðnum gaf Velferðar­ ráðuneytið út nýja áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma til ársins 2022. Hjúkrunar­ heimili hér á Höfn er hluti af þessari framkvæmdaáætlun, en bæjarstjórn hefur barist fyrir því að ráðist verði í byggingu nýs hjúkrunarheimilis. Markmið bæjarstjórnar er að hönnun byggingar fari fram á þessu ári og framkvæmdir hefjist að ári. Í fjárhagsáætlun 2018 og næstu þrjú árin þar á eftir er gert ráð fyrir að árlegt framlag sveitarfélagsins til byggingar nýs hjúkrunarheimilis verði 150 milljónir króna. Þetta eru miklar og löngu tímabærar framkvæmdir sem bæta svo um munar aðbúnað starfsfólks og íbúa hjúkrunarheimilisins. Brýnt hefur verið að auka framboð íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu til að mæta mikilli eftirspurn. Á árinu sem leið hófu bæði sveitarfélagið og einkaaðilar byggingu tveggja lítilla fjölbýlishúsa, en íbúðir þeirra verða tilbúnar til útleigu í byrjun sumars. Því til viðbótar er í byggingu sex íbúða raðhús auk þess sem nokkur einbýlishús hafa risið eða eru í byggingu á árinu. Mikilvægt er að haldið verði áfram að auka framboð á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og ættu næstu verkefni þar að lútandi að snúa að byggingu hagkvæmra

leiguíbúða fyrir eldri íbúa. Einnig er brýnt að frekari uppbygging íbúðarhúsnæðis hefjist í dreifbýli. Nægt framboð á íbúðarhúsnæði og gott atvinnuástand er undirstaða þess að sveitarfélagið haldi áfram að vaxa og dafna. Æskulýðs- og tómstundastarf er hverju samfélagi mikilvægt. Stuðningur stuðlar að heilsueflandi samfélagi og styrkir einstaklinga til stærri verka. Samstarf sveitarfélagsins og Ungmennafélags Sindra við kaup á félagsheimili, vænti ég að verði lyftistöng fyrir starfsemi félagsins. Þá hefur sveitarfélagið í samvinnu við USÚ og Sindra hafið undirbúning að Unglingalandsmóti 2019. Óhætt að segja að hér séu spennandi tímar og verkefni framundan. Á kjörtímabilinu hafa leikskólarnir á Höfn verið sameinaðir og hefur nýr leikskóli fengið heitið Sjónarhóll. Starfsemin fer nú fram í bráðabirgðahúsnæði sem reynt hefur á starfsfólk og leikskólabörn, eiga þau öll hrós skilið fyrir samstöðu og útsjónarsemi meðan á framkvæmdum stendur. Leikskólinn flyst í nýtt og glæsilegt húsnæði í sumar þar sem aðstaðan verður öll eins og best verður á kosið svo nú hillir undir betri tíð.

Fráveitu- og sorphirðumál Fyrirferðarmikið verkefni á árinu 2017 var áframhaldandi vinna við að koma fráveitumálum sveitarfélagsins í betra horf. Liður í því er að byggja hreinsivirki og sameina ..framhald á bls. 3


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.