Eystrahorn
www.eystrahorn.is
Fimmtudagurinn 25. janúar 2018
3. tbl. 36. árgangur
Starfið í Nýheimum
Árið 2017 urðu Nýheimar 15 ára, þá er átt við bygginguna við Litlubrú 2. Starfsemi þar hófst haustið 2002 þegar Framhaldsskólinn í AusturSkaftafellssýslu (FAS) flutti úr Nesjaskóla í Nýheima. Frá þeim tíma hafa hinar ýmsu stofnanir haft aðstöðu á neðri hæð hússins, á Háskólagangi og Frumkvöðlagangi. Óhætt er að segja að nú sé kominn nokkuð þéttur og stöðugur kjarni stofnana sem hafa starfsstöð í húsinu.
Þekkingarsetrið Nýjasta stofnunin er Nýheimar þekkingarsetur sem stofnað var árið 2013. Það hefur á sínum upphafsárum vaxið talsvert og starfa nú hjá setrinu þrír fastráðnir starfsmenn. Auk for stöðumanns, Hugrúnar Hörpu Reynisdóttur, starfa Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir og Kristín Vala Þrastar dóttir sem verkefnastjórar hjá setrinu. Á næstunni mun fjölga í starfsmannahópi setursins en stjórn þess hefur nýverið ákveðið að auglýsa eftir starfsmanni í fjórða stöðugildið. Þekkingarsetrið er samstarfshattur ólíkra stofnana sem starfa á sviði menntunar, menningar, nýsköpunar og rannsókna á Suðausturlandi. Í húsnæði Nýheima eru ólíkar stofnanir sem flestar eiga aðild að setrinu og þar með fulltrúa í stjórn þess. Þekkingarsetrið er eins og aðrar stofnanir í húsinu sjálfstæð eining, en eitt af meginmarkmiðum
þess er að efla samvinnu ólíkra stofnana. Eru samstarfsverkefni aðila innan og utan Nýheima því stór þáttur í starfsemi setursins. Tilgangurinn er að skapa öflugt þekkingarsamfélag á landsbyggðinni og er óhætt að segja að tekist hafi nokkuð vel til. Gjarnan er litið á Nýheima sem „skólabókardæmi“ um farsæla uppbyggingu þekkingarstarfs utan höfuðborgarsvæðisins.
Starfið Framundan eru spennandi verkefni. Setrið hefur tekið við þjónustu við háskólanema, kemur að starfi með ungmennum í FAS, sinnir ráðgjöf á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar fyrir hönd SASS ásamt því að vinna að sjálfstæðum verkefnum sem og samstarfsverkefnum með innlendum og erlendum aðilum. Á heimasíðunni www.
nyheimar.is eru fundargerðir stjórnar aðgengilegar og einnig starfsáætlun ársins 2018 fyrir þá sem áhuga hafa á að kynna sér og fylgjast með starfsemi þekkingarsetursins. Hvernig til hefur tekist við að skapa öflugt þekkingarsamfélag í Nýheimum er afar dýrmætt fyrir samfélag sem okkar. Fyrir utan þá mikilvægu starfsemi sem fram fer innan stofnana sem starfa í húsinu þá hafa með öflugra þekkingarsamfélagi skapast fleiri störf fyrir háskólamenntað fólk á Hornafirði. Oft er rætt um mikilvægi þess að fá unga fólkið okkar heim að loknu framhaldsnámi og að Hornafjörður verði í þeirra augum vænlegur búsetukostur. Fjölbreytt atvinnutækifæri eru þar lykilatriði. Það er með Nýheima þekkingarsetur eins og aðrar slíkar stofnanir að stöðugt þarf að sanna mikilvægi þeirra og höfum við í Nýheimum lagt ríka áherslu á að Nýheimar eru ekki síst mikilvægir í byggðalegu tilliti.
Viltu vita meira?
Forstöðumenn undirrita samstarfssamning milli Nýheima þekkingarseturs og Þekkingarnets Þingeyinga síðastliðið haust
Líkt og setrið hefur að markmiði að auðga og efla samfélag okkar þá er afar mikilvægt að samfélagið styðji við starfsemi Nýheima. Það gerir samfélagið best með því að taka þátt og nýta sér það sem stofnanir Nýheima hafa uppá að bjóða. Hvet ég alla til að koma sem oftast í heimsókn í Nýheima, kynna sér starfsemina og setjast niður með þeim sem hér starfa og ræða lífið og tilveruna. Setning þjóðfélagsfræðiráðstefnu sem haldin var í Nýheimum í október síðastliðinn
Hugrún Harpa Reynisdóttir Forstöðumaður Nýheima þekkingarseturs
2
Fimmtudagurinn 25. janúar 2018
Hafnarkirkja
Sunndaginn 28. janúar
HAFNARKIRKJA 1966 2016
Guðsþjónusta kl. 11:00 Allir velkomnir.
Prestarnir
Framsóknarfélag Austur-Skaftfellinga boðar til opins fundar með Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra á Hafinu sunnudaginn 28. janúar nk. fundurinn hefst kl 18:00 og eru allir velkomnir. Stjórn Framsóknarfélags A-Skaft. Sjálfstæðisfélögin í A-Skaft auglýsa bæjarmála fund laugardaginn 27. janúar kl.11 í Sjálfstæðishúsinu að Kirkjubraut 3. Súpa verður í boði og bæjarfulltrúar á staðnum. Í vor verður kosið til sveitarstjórnar og eru þeir sem hafa áhuga á að starfa með okkur hvattir til að mæta á laugardaginn. Allir velkomnir.
Eystrahorn
FÉLAGSSTARF
FÉLAGS ELDRI HORNFIRÐINGA ÞORRABLÓT
Félag eldri Hornfirðinga óskar þorrablótsgestum á Þorrablóti FeH í Sindrabæ á föstudagskvöldið, sem vonandi verða sem flestir, að njóta vel alls þess sem boðið verður upp á þar. Nammi,namm ! Óseldir miðar verða seldir við innganginn.
Sumarvinna Skinney – Þinganes hf. óskar eftir að ráða sumarstarfsfólk 16 ára og eldri til almennra fiskvinnslustarfa fyrir sumarið 2018. Tekið er við umsóknum til 20. mars. Kristín Ármannsdóttir tekur við umsóknum í síma 470-8134 og á netfangið kristin@sth.is.
Af tilefni 90 ára afmælis Slysavarnarfélagsins Landsbjargar viljum við í Björgunarfélagi Hornafjarðar og Slysavarnardeildin Framtíðin bjóða öllum núverandi og fyrrverandi félögum í kaffi í húsi félagsins mánudagskvöldið 29. janúar kl. 20:00. Tippklúbbur Sindra verður með opið hús laugardaginn 27. janúar frá kl. 12.00 – 14.00 í Sindrahúsinu. Allir velkomnir heitt á könnunni. Hlíðartún 25 • Sími: 848-3933 Útgefandi:............ HLS ehf. Ritstjóri og ábyrgðarmaður:.. Tjörvi Óskarsson Netfang: . ............ tjorvi@eystrahorn.is
Prófarkalestur..... Guðlaug Hestnes Umbrot: .............. Tjörvi Óskarsson Prentun: ............. Litlaprent ISSN 1670-4126
Eystrahorn
Fimmtudagurinn 25. janúar 2018
3
Landsbankinn styrkir UMF. Sindra Heilsuvernd grunnskólabarna
Landsbankinn hefur gert styrktarsamning við Ungmennafélagið Sindra til tveggja ára. „Landsbankinn hefur verið öflugur bakhjarl Ungmennafélagsins undanfarin ár og viljum við hjá Sindra þakka honum sérstaklega fyrir það. Það er gríðarlega mikilvægt að hafa samstarfsaðila sem skilja þarfir íþróttafélaga í heimabyggð og Landsbankinn er svo sannarlega einn af þeim sagði Ásgrímur Ingólfsson formaður aðalstjórnar U.M.F. Sindra í tilefni af samningnum. „Með þessum samningi er Landsbankinn að styrkja íþrótta- og félagslíf U.M.F. Sindra á Hornafirði, og er það í samræmi við stefnu Landsbankans í samfélagábyrgð. Við erum sannfærð um að þessi samningur er skref í áttina að enn öflugri starfsemi hjá U.M.F. Sindra og óskum þeim til hamingju með nýja félagsheimilið“ sagði Sigríður Birgisdóttir við sama tilefni. UMF. Sindri hefur verið hornsteinninn í íþróttalífi Sveitarfélagssins og standa vonir til þess að geta haldið þeirri uppbyggingu áfram með tilkomu nýja félagsheimilis Sindra að Hafnarbraut 15, sem Ungmennafélagið keypti nýlega. Landsbankinn hefur gert samkomulag um að starfsemi bankans verði áfram á Hafnarbraut 15 fram á mitt ár 2018. Mörg verkefni eru þó enn óunnin við að koma húsinu í rétt horf miðað við nýtt hlutverk og vonum við að Hornfirðingar standi þétt við bakið á Sindra við þetta verkefni, samfélaginu til heilla.
Heilsuvernd grunnskólabarna er hluti af heilsugæslunni og framhald af ung- og smábarnavernd. Hjúkrunarfræðingar sjá um heilsuvernd skólabarna og er markmið hennar að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Embætti landslæknis hefur gefið út leiðbeiningar um heilsuvernd grunnskólabarna sem skólahjúkrunarfræðingar á landinu öllu fara eftir og er notast við sameiginlegt skráningarkerfi. Hlutverk skólahjúkrunarfræðinga er margþætt en þar má helst nefna skipulagða fræðslu og heilsueflingu til nemenda þar sem fjallað er um ákveðna þætti svo sem hollustu, svefn og hvíld, hreyfingu, tannvernd, hreinlæti, hamingju, hugrekki, slysavarnir og kynheilbrigði. Skimanir og skoðanir eru framkvæmdar í 1.,4.,7. og 9. bekk þar sem gerðar eru hæðar -og þyngdarmælingar, sjónpróf auk þess sem tekin eru einstaklingsviðtöl um lífstíl og líðan þar sem markmiðið er að styrkja vitund nemenda um eigin heilsu. Þessi viðtöl gera hjúkrunarfræðingum einnig kleift að grípa til úrræða ef nemendur tjá vanlíðan eða áhyggjur. Þá halda hjúkrunarfræðingar utan um bólusetningar allra nemenda í skólanum og bólusetja nemendur, í samráði við foreldra/forráðamenn, ef bólusetningar eru ófullnægjandi. Einnig sjá þeir um almennar bólusetningar í 7. og 9.bekk. Skólahjúkrunarfræðingar sinna einnig ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra, og starfsfólks skólans. Þeir vinna í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda með velferð nemenda að leiðarljósi. Skólahjúkrunarfræðingar sitja nemendaverndaráðsfundi í skólanum og einnig samráðsfundi með félagsþjónustunni og öðru heilbrigðisstarfsfólki. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Þá sinna skólahjúkrunarfræðingar einnig slysum og veikindum nemenda á þeim tíma sem hjúkrunarfræðingur er við störf. f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands Hugrún Jóna Hilmarsdóttir skólahjúkrunarfræðingur í Sunnulækjarskóla
Starf verkefnastjóra hjá Nýheimum þekkingarsetri á Höfn í Hornafirði Óskað er eftir öflugum aðila í starf verkefnastjóra hjá Nýheimum þekkingarsetri. Starfið er fjölþætt og heyrir undir forstöðumann setursins. Verkefnastjóri mun þó jafnframt sinna verkefnum fyrir Náttúrustofu Suðausturlands í tengslum við samstarfssamning stofnananna. Helstu ábyrgðarsvið: • Umsjón með stærri og smærri verkefnum • Undirbúningur, skipulagning, áætlanagerð og eftirfylgni verkefna í samræmi við stefnu setursins • Verkefnavinna, þjónusta og samskipti við samstarfsaðila, samstarfsfólk og hagsmunaaðila. • Hafa frumkvæði að þróun og mótun verkefna og rannsókna, svo sem leit að samstarfsaðilum, styrkjasókn og styrkumsóknagerð.
Menntunar- og hæfniskröfur: • Háskólamenntun sem nýtist í starfi • Góð samskiptahæfni • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum • Leiðtogahæfileikar • Gott vald á mæltu og rituðu máli, bæði á íslensku og ensku Búseta í sveitarfélaginu Hornafirði er skilyrði fyrir ráðningu.
Upplýsingar um starfið veitir Hugrún Harpa Reynisdóttir, forstöðumaður Nýheima þekkingarseturs, í síma: 470-8088/892-3757. Umsóknir skulu merktar „Nýheimar þekkingarsetur" og berast á rafrænu formi á netfangið: hugrunharpa@nyheimar.is. Með umsókn skal fylgja kynnisbréf auk ferilskrár með yfirliti yfir námsferil og fyrri störf. Umsóknarfrestur er til og með 31. janúar næstkomandi og gert ráð fyrir að umsækjandi geti hafið störf 1. mars eða eftir samkomulagi. Öllum umsóknum verður svarað.
Starfsmaður í mötuneyti SÞ
Körfuknattleiksdeild Sindra
Skinney – Þinganes hf. auglýsir eftir starfskrafti í mötuneyti félagsins. Um er ræða vaktavinnu í 75% starfshlutfalli. Helstu verkefni starfsmannsins er annars vegar undirbúningur og framreiðsla á mat fyrir starfsmenn félagsins og hinsvegar frágangur og þrif í matsal. Æskilegt er að umsækjendur hafi góða reynslu af starfi við matreiðslu. Mikilvægt er að umsækjendur eigi gott með samskipti við aðra, geti starfað sjálfstætt og haft frumkvæði Nánari upplýsingar um starfið veitir Kristín Ármannsdóttir, í s: 470-8134 / 895-4569 eða á kristin@sth.is. Umsóknarfrestur er til 31. janúar nk. Umsóknum skal skilað á skrifstofu Skinneyjar – Þinganess hf. eða á kristin@sth.is.
Körfuknattleiksdeild Sindra startaði nýju ári með stæl. Meistaraflokkur karla átti heimaleik 6. janúar gegn Stjörnunni b og gerðu þeir sér lítið fyrir og smelltu í fimmta sigur sinn í röð. Um miðjan janúar fengum við svo til okkar, með hjálp frá Flugfélaginu Örnum og Höfn Inn Guesthouse, landsliðsmanninn og KR-inginn Brynjar Þór Björnsson í heimsókn. Brynjar rekur körfuboltaþjálfun Brynjars í Reykjavík og hefur verið talinn helsta þriggja stiga skytta landsins síðustu ár. Heimsótti hann grunnskólann og ræddi við nemendur og bauð þeim að koma og prófa opnar æfingar sama dag. Alls tóku þátt 51 krakkar, sem er frábært og þökkum við öllum þeim sem komu og voru með okkur. Það að fá slíkan meistara og fyrirmynd til að ræða við krakkana og gefa af sér er okkur dýrmætt og þökkum við Brynjari fyrir að koma og ekki síst Höfn Inn Guesthouse fyrir að styrkja þetta verkefni hjá okkur. Framundan er svo Íslandsmót hjá 7fl. og verður tourneringin haldin hér heima næstu helgi 27.-28. janúar. Hér á ferð eru ungir og efnilegir leikmenn sem eru að gera góða hluti á Íslandsmótinu og hvetjum við alla til að koma og styðja við Sindra. Einnig verður mfl. leikur á laugardeginum gegn topp liði deildarinnar KV. Það verður því sannkölluð körfuboltaveisla í íþróttahúsinu Höfn ! Sjáumst á vellinum, áfram Sindri !