Eystrahorn
www.eystrahorn.is
Fimmtudagurinn 9. febrúar 2017
5. tbl. 35. árgangur
Dagur leikskólans
Dagur leikskólans var haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins 6. febrúar. Þetta var í tíunda skipti sem haldið var upp á þennan dag en 6. febrúar er merkisdagur í sögu leikskólakennara því á þessum degi árið 1950 stofnuðu leikskólakennarar fyrstu samtök sín. Samstarfsaðilar um Dag leikskólans eru Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, Samband íslenskra sveitarfélaga, Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Heimili og skóli, Landssamtök foreldra. Dagur leikskólans var að þessu sinni helgaður því góða starfi sem fram fer í leikskólum landsins og dregið fram það sem hefur áunnist sl. ár t.d. með kynningarátakinu Framtíðarstarfið. Að verkefninu standa Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, Menntaog menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Efling stéttarfélag. Framtíðarstarfið er átak til að fjölga leikskólakennurum. Mikil vöntun er á leikskólakennurum til starfa í leikskólum landsins og mikilvægt að manna flestar stöður í skólum af fagfólki. Leikskólakennarastarfið er skemmtilegt og gefandi, engir tveir dagar eru eins. Í leikskólanum eru allir að læra, hver á sinn hátt, hvort sem þú ert kennari eða nemandi. Ómögulegt er að vita hvaða upplifanir hver og einn fær að
njóta og hvaða ávinninga hver og einn hreppir. Í leikskólanum er mikill sveigjanleiki og aðalmarkmiðið er að öllum líði vel. Okkur finnst gaman að fá gesti enda alltaf allir velkomnir í heimsókn, foreldrar eru sérstaklega velkomnir í leikskólann enda nauðsynlegt að eiga gott samstarf við þá. Að þessu sinni var mikið um að vera í leikskólunum og við fengum marga góða gesti. Ragnhildur Jónsdóttir fræðslustjóri og Herdís Waage verkefnastjóri á skólaskrifstofu komu í heimsókn í báða leikskólana. Hópur úr dagþjónustu aldraðra í Ekrunni kom í heimsókn á Lönguhóla. Boðið var upp á nýbakaðar kleinur og kaffi. Opið hús var í skólanum og börnin hoppuðu á milli deilda og léku sér í frjálsum leik. Hópur úr dagþjónustu fatlaðra kom í heimsókn á Krakkakot og fengu nýbakaðar vöfflur sem árgangur 2012 bakaði. Elstu börnin buðu svo upp
á tvær leiksýningar. Þau settu upp leikritin um Rauðhettu og úlfinn og Mjallhvíti og dvergana. Ekki var annað að sjá og heyra en að allir hefðu skemmt sér konunglega og það er einstaklega gaman að brúa bilið á milli kynslóða á þennan hátt.
112-dagurinn og ný slökkvibifreið Slökkvulið Hornafjarðar fékk nýja slökkvibifreið í flotann nýlega. Bifreiðin er af gerðinni FORD F550 Super duty crew cab árgerð 2015 breyttur af fyrirtækinu Ósland ehf. vélin er Turbo Diesel Intercooler Power stroke. V 8 sex gíra með burðargetu upp á 5.200 kg. Bifreiðin er með öllum nýjustu tækjum, rúlluhurðum, froðutanki og öðrum staðalbúnaði. 112 dagurinn verður haldinn á laugardaginn 11.2 og í tilefni af deginum verður opið hús hjá slökkviliðinu kl. 13:00 – 16:00. Jafnframt mæta þar aðrir viðbragðsaðilar s.s. lögreglan, björgunarsveit og sjúkraflutningamenn. Allir velkomnir.