Eystrahorn Fimmtudagurinn 15. febrúar 2018
6. tbl. 36. árgangur
www.eystrahorn.is
Undankeppni söngkeppni Samfés á Suðurlandi 2018 Félagsmiðstöðin Þrykkjan tók þátt í Undankeppni söngkeppni samfés á Suðurlandi(USSS). Keppnin fór fram þann 2. febrúar síðastliðinn í íþróttahúsinu á Laugarvatni og tóku 11 félagsmiðstöðvar á Suðurlandi þátt. Þetta var í fyrsta sinn sem Þrykkjan keppti á Suðurlandi. Dagmar Lilja Óskarsdóttir tók þátt fyrir hönd Þrykkjunar og vann hún sér rétt til að keppa í söngkeppni Samfés sem fer fram í Laugardalshöll þann 24. mars nk. en alls unnu 3 félagsmiðstöðvar rétt til að keppa í aðalkeppninni.
Fyrirmyndar fyrirtæki 2017
Í könnun VR á Fyrirtæki ársins er viðhorf starfsmanna til lykilþátta í starfsumhverfi vinnustaðarins metið. Könnunin er vettvangur fyrir félagsmenn til að koma skoðunum sínum á framfæri og láta stjórnendur vita af því sem vel er gert og hvað betur má gera. Niðurstöðurnar eru stjórnendum hafsjór upplýsinga og hagnýtur leiðarvísir um hvort úrbóta sé þörf og hvar. Þær sýna ekki einungis hver staða fyrirtækisins er í augum starfsmanna heldur einnig hver staða þess er í samanburði við önnur fyrirtæki á vinnumarkaði. Eftirtalin fyrirtæki í sveitarfélaginu hlutu titilinn Fyrirmyndar fyrirtæki 2017. Lítil fyrirtæki: Erpur ehf. Árnanes ehf. Humarhöfnin ehf. Meðalstórra fyrirtækja: JÖKLAVERÖLD ehf. Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf. Ís og ævintýri ehf. Ránarslóð ehf. Þriftækni ehf. Sigurður Ólafsson ehf. Hótel Höfn ehf. Hótel Skaftafell ehf. Stór fyrirtæki: Útgerðarfélagið Vigur ehf. Skinney-Þinganes hf.
Kiwanisklúbburinn Ós gefur öryggisvesti
Kiwanisklúbburinn Ós gaf 8 öryggisvesti sem forvörn fyrir börn á námskeiðum hjá Hestamannafélaginu Hornfirðingi. Formaður Hornfirðings Pálmi Guðmundsson og Snæja kennari námskeiðanna með nokkrum barnanna veittu vestunum viðtöku. Sex félagar mættu og aðstoðuð börnin að klæðast þeim. Öryggisvestin eru merkt Ós og Hornfirðingi. Viðstaddir félagar voru Álfgeir Gíslason, Diðrik Sæmundsson, Sigfús Þorsteinsson forseti Óss, Sigurður Einar Sigurðsson svæðisstjóri Sögusvæðis, Ingvar Snæbjörnsson fráfarandi forseti Óss og Pétur Bragason kjörforseti Ós.
Lokun á heilsugæslunni á Hornafirði Vegna árshátíðar verður heilsugæslan á Höfn lokuð frá kl. 13 á föstudag 23. febrúar. Fólki er bent á að hringja í vaktsímanúmerið 1700 eftir hádegi ef þarf að ná í lækni. Í bráðatilfellum skal hringt í 112. Lyfjaendurnýjanir eru gerðar til hádegis 23. febrúar.