Eystrahorn 7. tbl. 36. árgangur
Fimmtudagurinn 22. febrúar 2018
www.eystrahorn.is
Ævintýraferðaþjónusta á Hornafirði - nýsköpun og menntun Háskólasetrið og FAS eru í forsvari fyrir tveimur fjölþjóðlegum verkefnum sem snúast um þróun, nýsköpun og menntun í ævintýraferðaþjónustu. Verkefnin nefnast SAINT - Slow Adventure in Northern Territories, styrkt af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPA) og ADVENT - Adventure Tourism in Vocational Education and Training, styrkt af Menntaáætlun Evrópusambandsins (Erasmus+). Starfstími verkefnanna beggja er þrjú ár - SAINT hófst sumarið 2015 og lýkur nú á vormánuðum, en ADVENT hófst í september s.l. og lýkur haustið 2020. SAINT er samstarfsverkefni fjölmargra aðila (háskóla, stofnana, markaðsstofa og ferðaþjónustufyrirtækja) í sjö löndum: Skotlandi, Írlandi, Norður Írlandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi. Íslenski hluti verkefnisins er unninn í samstarfi við Rannsóknamiðstöð ferðamála en með aðaláherslu á ferðaþjónustuaðila á Hornafirði. Meginmarkmið SAINT er að vinna með fyrirtækjum í afþreyingarferðaþjónustu að vöruþróun og markaðssetningu svo að þau geti betur nýtt sér þau tækifæri sem felast í Slow Adventure ferðum. Slow Adventure – eða „yndisævintýri“ á íslensku – vísar til afþreyingarferða sem eru ekki adrenalíndrifnar og hraðar eins og hefðbundnar ævintýraferðir eru gjarnan. Slow Adventure leggur áherslu á afslappaðar og innihaldsríkar ferðir, að upplifa náttúruna í augnablikinu óháð veðri, árstíma eða hvað annað sem kann að hafa áhrif á upplifunina. Þessar ferðir fela gjarnan í sér: Staðbundinn mat, nálægð við dýralíf, þægindi í náttúrunni, aukinn skilning á umhverfinu, göngur eða annan óvélknúinn ferðamáta og tengingu við staði og staðarmenningu. ADVENT er samstarfsverkefni framhaldsog háskóla, rann sóknarstofnana og lítilla og meðalstórra fyrirtækja í afþreyingarferðaþjónustu í Finnlandi, Skotlandi og á Íslandi. Meginmarkmið þess er að virkja á markvissan hátt þann
Mynd tekin á SAINT vinnufundi sem haldinn var í Fjällnäs i Svíþjóð 2017
mannauð, þekkingu og reynslu sem afþreyingarferðaþjónustan býr yfir til eflingar fyrirtækjanna og samfélagsins í heild. Í ADVENT verkefninu er unnið með starfandi aðilum á þessu sviði ferðaþjónustunnar að gerð námsefnis út frá greiningu þeirra á þörf fyrir menntun innan greinarinnar. Ferðaþjónustuaðilarnir nýta þekkingu sína og reynslu til að byggja upp námspakka í samstarfi við aðra þátttakendur verkefnisins. Stefnt er að því að þessir námspakkar nýtist síðan á fjölbreyttan hátt í samfélögum þátttökuaðilanna, meðal annars fyrirtækjunum sjálfum við að efla endurmenntun starfsmanna sinna. Einnig verður hefðbundið nám í afþreyingarferðaþjónustu í þátttökuskólunum endurskoðað í samstarfi við fyrirtækin. Miðvikudaginn 14. mars n.k. munu erlendir og innlendir samstarfsaðilar FAS og Rannsóknarsetursins í SAINT og ADVENT koma til Hafnar og taka þátt í sameiginlegri ráðstefnu verkefnanna. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Nýsköpun og Menntun í Ævintýraferðaþjónustu“ og eru íbúar hvattir til að mæta í Nýheima og hlýða á áhugaverða fyrirlestra og kynningar. Dagskrá ráðstefnunnar verður auglýst hér i blaðinu þegar nær dregur.