Eystrahorn Fimmtudagurinn 1. mars 2018
8. tbl. 36. árgangur
www.eystrahorn.is
Vinir Vatnajökuls úthluta styrkjum Vinir Vatnajökuls úthlutuðu 23. febrúar við hátíðlega athöfn á Hótel Natura hátt í 50 milljónum króna til styrktar verkefnum í Vatnajökulsþjóðgarði og 13 umsóknarverkefnum sem falla undir rannsóknir, kynningu og fræðslu um Vatnajökulsþjóðgarð og nágrenni hans. Vinir Vatnajökuls eru frjáls félagasamtök sem stofnuð voru árið 2009. Samtökin hafa á síðastliðnum sjö árum veitt yfir 500 milljónum króna til styrktar verkefnum sem stuðla að fræðslu, rannsóknum og kynningu á Vatnajökulsþjóðgarði. Nú hafa Vinir Vatnajökuls og Vatnajökulsþjóðgarður ákveðið að vinna í nánara samstarfi en áður og gera með sér langtíma samninga um viðamikil, tíma- og fjárfrek verkefni. Vinirnir hafa kostað gerð fræðsluáætlunar fyrir Vatnajökulsþjóðgarð sem unnið hefur verið að um nokkurra ára skeið og sér nú fyrir endann á verkinu. Fræðsluáætlunin er mjög kærkomið tæki fyrir þjóðgarðinn og Vinina þar sem hún gerir allt fræðslustarf innan garðsins hnitmiðaðra og árangursríkara. Fræðsluáætlunin verður lögð til grundvallar sýningu sem Vinirnir og þjóðgarðurinn ætla að setja upp við Jökulsárlón. Sýndar verða á bökkum Lónsins myndir frá þjóðgarðinum teknar af Ragnari Th. Sigurðssyni ásamt texta vísindamanna. Verður sýningin við Lónið tengd enn viðameiri upplýsingasýningu á vefsíðu, þar sem myndir og texti kynna allan þjóðgarðinn enn ítarlegar og á fleiri tungumálum en íslensku. Vinirnir styrktu umsókn þjóðgarðsins til heimsminjaskrár UNESCO. Umsóknin geymir samantekt og texta um merka staði
Styrkþegar Vina Vatnajökuls ásamt stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra Vina.
og náttúruundur í garðinum og verður sú þekking nýtt við gerð áðurnefndrar sýningar. Myndasýningin við Jökulsárlón verður þannig uppsett að hana má auðveldlega flytja milli staða. Til gamans má geta þess að fyrsta verkefnið sem Vinir Vatnajökuls styrktu var sýning á myndum Ragnar Th. Sigurðssonar á bökkum Jökulsárlóns. ,,Það er ánægjulegt að styrkja þessi fjölbreyttu verkefni sem umsækjendur hafa lagt mikla vinnu og metnað í. Þau eiga það sameiginlegt að stuðla að því að sem flestir geti notið þeirra náttúrufyrirbæra og þeirrar sögu sem Vatnajökulsþjóðgarður hefur að geyma,“ segir Kristbjörg Hjaltadóttir, framkvæmdastjóri Vina Vatnajökuls. Við afhendinguna kynnti einn af styrkþegum Vinanna Snorra Þór Tryggvason tvö verkefni sem hann hefur unnið fyrir styrki
frá samtökunum. Og Snorri Baldursson verkefnastjóri UNESCO-umsóknar hjá þjóðgarðinum kynnti fyrir gestum umsóknarferlið og mikilvægi þess fyrir land, þjóð og umheiminn að fá Vatnajökulsþjóðgarð skráðan á heimsminjaskrá. Kristbjörg segir að til að ná settum markmiðum og sinna sínu hlutverki þurfi Vinir Vatnajökuls á liðsinni að halda. Fram til þessa hafa margir lagt Vinunum lið, en stærsti bakhjarl samtakanna frá upphafi er Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði. Þá hafa Landsvirkjun, Íslensk Erfðagreining, verkfræðistofan Mannvit, Bílaleiga Akureyrar, Toyota, Icelandair og þeir einstaklingar sem gerst hafa Vinir Vatnajökuls veitt samtökunum dyggan stuðning.
Leikhópur FAS og Leikfélag Hornafjarðar setja upp Ronju Ræningjadóttur Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu bætti nýlega nýju sviði við skólann, Lista-og menningarsviði. Undanfarin ár hefur verið mikil gróska í listastarfi innan skólans og hafa nemendur í Leikhópi FAS í samstarfi við Leikfélag Hornafjarðar og Tónskóla AusturSkaftafellssýslu sett upp leiksýningu á hverju vori, mörg ár í röð. Lista- og menningarsviðið er frábær viðbót við gott starf skólans og býður upp á fjölbreyttara námsval fyrir fjölbreyttan nemendahóp. Í vetur hafa nemendur á Lista- og menningarsviði undir leiðsögn Stefáns Sturlu krufið ævintýrið um Ronju ræningjadóttur eftir Astrid Lindgren í þaula. Nemendur og leiðbeinandi unnu jafnframt leikgerð og setja nú upp leiksýningu byggða á bókinni. Leikstjóri er Stefán Sturla. Nemendur æfa stíft um þessar mundir og ríkir gott samstarf við Leikfélag Hornafjarðar og Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu eins og síðustu ár. Leiksýninguna á að frumsýna í Nýheimum þann 3. mars næstkomandi. Miðasala og sýningatímar verða auglýstir nánar á komandi dögum. Við hvetjum alla Hornfirðinga að koma á sýningar og lofum mikilli gleði og skemmtun!
Leikhópur FAS