Eystrahorn 9. tbl. 35. árgangur
Fimmtudagurinn 9. mars 2017
www.eystrahorn.is
Bæjarráð furðar sig á ákvörðun samgönguráðherra
Mynd: Þorvarður Árnasson Bæjarráð Sveitarfélagsins Hornafjarðar furðar sig á þeirri ákvörðun samgönguráðherra og ríkisstjórnar Íslands að fara ekki eftir samgönguáætlun sem Alþingi samþykkti samhljóða í október 2016. Í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnar, frá 10. janúar 2017 segir: "Álag á samgöngukerfið hefur vaxið mikið undanfarin ár, einkum vegna fjölgunar ferðamanna. Í því ljósi verður aukinn kraftur lagður í uppbyggingu í samgöngumálum á öllum sviðum..." Bæjarráð Hornafjarðar getur ekki með nokkru móti séð hvernig þessi orð í stjórnarsáttmálanum ríma við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ætla sér að setja 0 krónur í nýjan veg um Hornafjörð.
Sumarferð eldri Hornfirðinga
Fjögurra ára samgönguáætlun 2015-2018 gerir ráð fyrir því að 1000 milljónir verði settar í framkvæmdir árið 2017 við styttingu hringvegarins um Hornafjörð, um 12 km. Framkvæmdin mun leysa af hólmi þrjár einbreiðar brýr sem komnar eru til ára sinna. Undirbúningur þessa verkefnis hefur átt sér langan og kostnaðarsaman aðdraganda og sveitarfélagið hefur þegar afgreitt framkvæmdarleyfi Vegagerðarinnar vegna framkvæmdarinnar. Það er mat bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar að ráðherra og ríkisstjórn fari fram í fullkomnu heimildarleysi með breytingu á forgangsröðun samgönguáætlunar án þinglegrar meðferðar. Við þetta munu Hornfirðingar ekki una.
Bókun bæjarráðs
Bókun bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar um umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um verslun með áfengi og tóbak frá fundi þess í gær. „Bæjarráð tekur undir ábendingar Landlæknis og fjölmargra annarra aðila sem vinna að heilsueflingu og velferðarmálum sem vara við þeirri breytingu sem felst í frumvarpinu. Auk þess benda rannsóknir á að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar neyslu, meðal annars meðal barna og ungmenna. Kannanir sýna að meirihluti landsmanna er andvígur frumvarpinu. Bæjarráð hvetur alþingismenn til þess að hafna frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi um breytingu á lögum um verslun með áfengi."
Fyrirhugað er að sumarferð Félags eldri Hornfirðinga verði farin dagana 4. – 6. júní nk. Ferðinni er heitið norður í land og helstu áfangastaðir verða; Mývatn, Akureyri og Siglufjörður. Gist verður á Narfastöðum sem er nokkurn veginn miðsvæðis milli Mývatns og Akureyrar. Á þessum stöðum og á þessari leið er margt áhugavert að skoða sem gerð verður betri grein fyrir síðar. Ferðin verður aðeins farin ef 25 þátttakendur eða fleiri skrá sig í ferðina. Kostnaður á hvern þátttakanda er um 45.000- kr. Innifalið er aksturskostnaður, gisting í tvær nætur með morgunverðarhlaðborði og kvöldverður báða dagana. Allir Hornfirðingar eldri en 60 ára eru velkomnir en ef þátttaka verður framar vonum hafa félagsmenn FeH forgang. Frekari upplýsingar veita Haukur Helgi formaður sími 897-8885 og Albert sími 862-0249 og tilkynna skal þátttöku til þeirra fyrir 25. mars nk. Ferðanefnd FeH
ÍBÚAR LOKA ÞJÓÐVEGI 1 VIÐ HORNAFJARÐARFLJÓT SUNNUDAGINN 12. MARS KL. 17:00 MÆTUM ÖLL OG SÝNUM SAMSTÖÐU!