Eystrahorn
www.eystrahorn.is
Fimmtudagurinn 8. mars 2018
9. tbl. 36. árgangur
Bókmenntahátíð Þórbergsseturs
Hin árlega bókmenntahátíð Þórbergsseturs verður haldin sunnudaginn 11. mars næstkomandi, en þá verður minnst 130 ára afmæli Þórbergs Þórðarsonar, sem var fæddur 12. mars 1888. Framundan er spennandi dagskrá þar sem Steinarnir tala verður umfjöllun fræðimanna og rithöfunda. Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona ætlar að heiðra okkur með nærveru sinni og lesa upp úr verkum Þórbergs. Gísli Pálsson mannfræðingur flytur fyrirlestur og les úr bók sinni Fjallið sem yppti öxlum:maður og náttúra. Hér er fjallað á nýstárlegan hátt um ,,jarðsambönd fólks" og nábýli við lifandi náttúruöfl. Bókin á sannarlega erindi við okkur Skaftfellinga, nú þegar Öræfajökull er að rumska,- en reyndar alla daga. Þessi voldugi nágranni okkar, Öræfajökull, - sem við lítum upp til á hverjum degi,- en er reyndar stærðar eldfjall sem getur haft áhrif á líf okkar og aðstæður eins og hendi væri veifað. Hann og jöklaveröldin allt um kring eru nú mikið aðdráttarafl og uppspretta tækifæra í ferðamannabransanum. En skjótt skipast veður í lofti sem dæmin sanna, eins og í Vestmannaeyjum 1973. Sambýli manns og náttúru er umfjöllunarefni í bók Gísla, hver stjórnar? Hvað er maðurinn að gera í náttúrinni, erum við á ,,mannöld" að skaða með óafturkræfum áhrifum bólstaði okkar og jörðina sjálfa? Oddný Eir Ævarsdóttir verður einnig gestur hátíðarinnar.,,Ég steig inn í hefð Þórbergs Þórðarsonar" sagði Oddný í hádegisumræðum bókmenntahátíðar í Reykjavík árið 2015. Það verður forvitnilegt að heyra hana lýsa því hvernig Þórbergur Þórðarson hefur haft áhrif á hana og aðra nútímarithöfunda, - verk hans virðast ódauðleg og endalaus
uppspretta nýrra hugmynda þrátt fyrir breytta heimsmynd, enda Þórbergur stundum kallaður fyrsti nútímarithöfundur Íslands. Á bókmenntahátíðinni fjallar Oddný Eir um samband ofurnæmra vísinda við tilraunaskáldskap í tengslum við skáldsögur Þórbergs, Steinarnir tala og Sálminn um blómið og nýjustu skáldsögu hennar, Undirferli. Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ætlar að kynna útgáfu Landsdómsskjala frá fyrri öldum, en þegar hafa verið gefnar út tvær bækur. Þar er margt forvitnilegt að finna og ætlar hún að fjalla um tillögur presta í AusturSkaftafellssýslu til viðreisnar landinu árið 1771. Jónína Aradóttir frá Hofi í Öræfum hefur verið
að æfa nokkur ,,Þórbergslög" og syngur við gítarundirspil á milli þátta Daginn eftir þann 12. mars á afmælisdegi Þórbergs fer stóra upplestrarkeppnin fram í Þórbergssetri og fer vel á því. Það verður því mikið um að vera á menningarsviðinu þessa daga, en einnig er mikill fjöldi ferðamanna alls staðar að úr heiminum gestir þessar vikurnar. Þórbergssetur er sannarlega alþjóðleg miðstöð þar sem mætast margir ólíkir menningarheimar og fer vel á því, þar sem Þórbergur var mikill alþjóðasinni á sama tíma og Hali í Suðursveit var viðmið hans og umfjöllunarefni alla tíð. Tilvalið er að taka sér góðan sunnudagsrúnt í sveit sólar og njóta einstakrar dagskrár. Allir velkomnir
Kiwanisklúbburinn Ós heldur Groddaveislu í Sindrabæ 17. mars • •
Húsið opnað kl. 19:30 og er opið til 23:00. Málverkauppboð til góðgerðarmála og pakkahappdrætti.
Gamanmál og gaman saman. Veislustjóri er Gunnar Helgason leikari og skemmtikraftur. Boðið verður upp á hlaðborð með söltuðu spikfeitu hrossa- og sauðakjöti og grillaða langreyðasteik. Þetta verður borið fram með Seljavallakartöflum, rófum, uppstúf og öðru meðlæti.
Styrkið styrktarsjóð Óss.
Verð aðeins kr 6.500. Forsala miða hjá næsta Ósfélaga og í Martölvunni. Ennfremur er hægt að senda póst á os@kiwanis.is eða osskemmtun@kiwanis.is
• •