Eystrahorn 10. tbl. 35. árgangur
www.eystrahorn.is
Fimmtudagurinn 16. mars 2017
Mótmæli við Hornafjarðarfljót
Íbúar Sveitarfélagsins Hornafjarðar hafna ákvörðun stjórnvalda að fresta löngu tímabærum vegaframkvæmdum við Hornafjarðarfljót. Íbúar vilja strax fá nýja tvíbreiða brú yfir Hornafjarðarfljót og nýtt vegstæði sem styttir vegalengðir innan héraðs um 12,7 km. Íbúar eru búnir að bíða eftir þessari samgöngubót í 20 ár og sætta sig ekki við að þurfa að bíða lengur. Um sýsluna fer mikill fjöldi ferðamanna og auk þess er mikil hagkvæmni í styttingu vegalengda fyrir starfandi fólk innan ferðaþjónustunnar. Íbúar sveitarfélagsins vestan Fljóta þurfa að sækja alla þjónustu til Hafnar. Ung börn þurfa að sækja skóla og leikskóla allt að 70 km aðra leið á dag, sem er algjörlega óásættanlegar
búsetuaðstæður fyrir ungt fjölskyldufólk og hamlar búsetuþróun á svæðinu. Í sveitarfélaginu er 21 einbreið brú en við framkvæmdir við nýtt vegstæði um Hornafjarðarfljót mun þeim fækka um þrjár; yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót og Hoffellsá. Þessar brýr eru allar á hættulegum stöðum, úr sér gengnar og löngu kominn tími til úrbóta. Það yrði því veruleg samgöngubót fyrir Suður- og Austurland ef farið yrði í þessar framkvæmdir eins og stjórnvöld höfðu lofað. 12. mars 2017 fyrir hönd mótmælenda Marie-Louise Johansson
„Mikilvægur partur af hornfirskri menningu.”
Viðtal við Helga Sæmundsson og Salóme Morávek, leikara úr leikritinu Piltur og stúlka. Salóme Morávek er 16 ára, ný útskrifuð úr grunnskóla og tekur nú þátt í sínu fyrsta stóra leikhúsverki, hennar hlutverk er jómfrú Sigríður Bjarnadóttir. Helgi Sæmundsson er 17 ára og er leikritið einnig fyrsta stóra verkið sem hann tekur þátt í en hans hlutverk er Guðmundur á Búrfelli. Þau koma bæði að sýningunni Piltur og Stúlka, sem sett verður upp í Mánagarði þann 18. mars n.k. Leiksýningin er samvinnuverkefni Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (Leikhópur FAS), Leikfélags Hornafjarðar og Tónskóla A-Skaft. Verkið er byggt á samnefndri bók Jóns Thoroddsen, en sett upp í nýrri mynd og í nýjum búningi. Handritið skrifaði Stefán Sturla sem einnig leikstýrir. Salóme segir leikritið vera dramatískt-gaman verk með söngvum, sem fjallar um stúlku sem er að læra á lífið og er ástfangin, þvert á vilja móður sinnar sem vill frekar að hún giftist öðrum manni, sem Salóme segir að sé algjör „sveitalúði”. Bæði tóku Salóme og Helgi þátt í uppsetningu á leikritinu Útskriftarferðin sem sett var upp af Grunnskóla Hornfjarðar árið 2016. Aðspurð að því hvort að mikill munur sé á milli leikritanna tveggja eru þau bæði sammála um að munurinn sé mikill og að þetta verk sé mun þyngra. Salóme segir að æfingaferlið sé skipulagðra og skuldbindingin meiri. Helgi er sammála henni og bætir við að mikilvægt sé að vera einstaklega einbeittur þegar taka á þátt í svona stóru verkefni, æfingar eru langar og strangar og mikilvægt er að taka leikritið fram yfir margt annað, þetta er mikil skuldbinding sem borgar sig þó margfalt að lokum. Bæði hvetja Helgi og Salóme alla til þess að tryggja sér miða á sýninguna. Helgi tekur það skýrt fram að uppákomur sem og leikrit séu mikilvægur partur af hornfirskri menningu og mikilvægt sé að standa við bakið á þeim sem taka það að sér að færa svona list inn í samfélagið og bjóða öðrum upp á það að taka þátt með því að mæta og sjá afraksturinn. Salóme bætir við að leikritið sé einstaklega skemmtilegt og að í því sé rosalega fjölbreyttur, stór hópur af myndarlegum leikurum, svo engum ætti að leiðast áhorfið. Þeim finnst báðum mikilvægt að fólk mæti þá sérstaklega til að styðja við sköpunargleði ungs fólks og taka það fram að það sé ekki síður mikilvægt að manna allar sýningar, þó að þetta leikrit sé ekki jafn þekkt og önnur leikrit sem sett hafa verið upp undanfarin ár.
Þeim finnst þau bæði hafa lært rosalega mikið af því að taka þátt í uppsetningu á sýningu sem þessari. Salóme bendir á að reynsla hennar á sviði muni fylgja henni í gegnum lífsleiðina, hún hafi lært hvernig tala skuli fyrir framan stóran hóp fólks sem mun nýtast henni bæði í námi og öðru. Helgi bætir við að það þurfi ákveðinn aga til þess að allt gangi upp á æfingum og sýningu, en eins og áður var sagt er skuldbindingin mikil og hafa þau lært að ekki sé hægt að ganga frá svona verki hálfkláruðu og að það þurfi allir að gefa sig 100% til Helgi Sæmundsson þess að allt gangi upp. Salóme segir það algjörlega frábært að svona starf sé í boði í litlu samfélagi sem Hornafjörður er og það lífgi upp á tilveruna. Þau segja þetta ótrúlega gott tækifæri fyrir fólk, þá sérstaklega ungt fólk, til að finna sig og prufa eitthvað nýtt. Helgi bætir við að ekki sé það verra hversu góðan félagsskap og góða vináttu maður myndar, enda sé leikhópurinn einstaklega góður í ár. Aðspurð að því hvaða orð þau myndu nota til að lýsa hópnum, hlæja þau bæði og segja „ADHD”, næstum samtaka. SalómetilMorávek Að lokum vilja þau Salóme og Helgi koma á framfæri þökkum Stebba leikstjóra, fyrir endalausa þolinmæði og fullt af góðum ráðum en þeim finnst það algjör forréttindi að fá að vinna með og læra af atvinnumanni eins og honum. Þá vilja þau einnig þakka Leikfélagi Hornafjarðar fyrir að standa ávallt við bakið á leikhópnum og undantekningalaust redda því sem redda þarf. Viðtalið tók og vann Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir.