Eystrahorn
www.eystrahorn.is
Fimmtudagurinn 15. mars 2018
10. tbl. 36. árgangur
Kids save lives á Höfn
Fimmta apríl 2017 fórum við af stað með verkefnið KIDS SAVE LIVES. Þetta var í fyrsta sinn sem við keyrum þetta verkefni hér á Höfn og einnig í fyrsta sinn sem það er gert á Íslandi. Fenginn var styrkur frá bæjarfélaginu fyrir kaupum á 30 dúkkum, svo hægt væri að kenna heilum bekk í einu, annars hefur þetta verið fjármagnað og unnið af björgunarfélaginu í sjálfboðavinnu. Kjarni þessa verkefnis er að kenna börnum frá 12 ára aldri endurlífgun árlega, helst sem hluta af skólaskyldunni. Með þessu stuðlum við að því að fleiri kunni rétt viðbrögð þegar á reynir. Við kennum börnunum handtökin og hvernig skal bregðast rétt við. Áhugi þeirra smitar út frá sér til þeirra sem eru í þeirra nánasta umhverfi og vonandi ýtir það við þeim fullorðnu að skella sér á námskeið. Við völdum að fá Unglingadeildina Brand inn í þetta verkefni, þar sem það hefur oft gefið betri árangur ef jafningjar sjá um kennsluna. Krakkarnir í unglingadeildinni eiga auðvelt með að ná til skólakrakkanna og útskýra afhverju
þeim finnst það vera mikilvægt að kunna endurlífgun. Við leggjum mikla áherslu á það, að 70% af öllum hjartaáföllum gerast heima hjá fólki, og þar af leiðandi eru þau að læra endurlífgun til að bjarga sínum nánustu en ekki bara Pétri og Páli úti í bæ. Endurlífgunarkennsla hefur verið stunduð í grunnskólum í Danmörku í þónokkur ár og er nú orðin hluti af skólaskyldunni. Fljótlega fór að bera á því í Danmörku að fleiri voru að fá viðeigandi aðstoð eftir hjartaáfall/stopp og þegar tölfræðin var skoðuð kom í ljós að það voru 50 % fleiri. Þessi árangur er hreint ótrúlegur og sjaldgæft að sjá jafn afgerandi tölur í læknisfræðinni. Í ár höfum við tekið verkefnið lengra og ætlum ekki að takmarka það við skólastofuna. Við höfum hitt börnin í sjöunda bekk og kennt þeim handtökin. Foreldrar þeirra eru vonandi orðin vel æfð í endurlífgun, þar sem við sendum börnin heim með dúkkurnar og lögðum til að þau myndu nýta þær til að kenna sínum nánustu í heila viku. Nú þegar höfum við frétt víða, að þessu hefur
verið vel tekið og börnin jafnvel lagt á sig ferðalag með dúkkuna til að kenna enn fleirum. Í vikunni munum við hitta sjöunda bekk aftur, heyra hvernig gekk og verðlauna þau fyrir áragurinn. Munum svo gera hið sama með áttunda og níunda bekk í kjölfarið. Við viljum biðja foreldra um að hjálpa börnunum að passa dúkkurnar og muna eftir að taka þær með í skólann á miðvikudögum, því við viljum svo gjarnan halda þessu verkefni áfram. Ef þið haldið að tíundi bekkur sé undanskilinn, þá er það alls ekki rétt. Þau fá fjögurra tíma skyndihjálparnámskeið í boði Rauðakrossdeildar Hornafjarðar í maí. Við vonum að þetta verði árlegur viðburður hér á Hornafirði um ókomna tíð, við munum a.m.k. leggja okkar að mörkum til þess. Draumur okkar er að sjálfsögðu að endurlífgun verði á endanum gerð að skólaskyldu á Íslandi öllu. Fyrir hönd Björgunarfélags Hornafjarðar Elín Freyja Hauksdóttir
2
Fimmtudagurinn 15. mars 2018
Hafnarkirkja HAFNARKIRKJA 1966 2016
Sunnudaginn 18. mars Guðþjónusta kl.11:00
Gídeon deildin á Höfn kynnir starf sitt. Allir hjartanlega velkomnir Prestarnir
Aðalfundur Aðalfundur verslunar- og skrifstofudeildar AFLs Starfsgreinafélags verður haldinn 21. mars kl. 12:15 – að Víkurbraut 4 Hornafirði Dagskrá 1. Kjaramál 2. Skýrsla formanns deildar 3. Breytinga á reglugerð deildarinnar 4. Kjör stjórnar deildarinnar 5. Önnur mál Stjórn verslunar- og skrifstofudeildar AFLs
AÐALFUNDUR FÉLAGS ELDRI HORNFIRÐINGA er í Ekrunni laugardaginn 24. mars kl. 14:00. Venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins.
Eystrahorn
FÉLAGSSTARF
FÉLAGS ELDRI HORNFIRÐINGA Bingó- Köku - og prjónlesBingó í Ekrunni laugardaginn 17.mars kl. 14:00. Aðalvinningur er, út að borða á Hótel Höfn fyrir tvo. Spjaldið kostar 1000 kr. Allir velkomnir ! Muna leikfimi í sal kl. 16:30 á þriðjudögum og sundleikfimina kl. 16:00 á fimmtudögum. Íþróttir í íþróttahúsinu kl. 11:50 - 13:00 á miðvikudögum. Hreyfing er nauðsynleg !
Núvitundar námskeið Fræðslunetið býður upp á námskeið í núvitund þar sem farið verður í grunnþætti núvitundariðkunnar. Nemendur gera verklegar æfingar í tímum og heima auk þess sem stuttir fyrirlestrar verða í hverri kennslustund. Kennari er Hulda Laxdal Hauksdóttir. Kennt verður einu sinni í viku á miðvikudögum kl. 17:00-18:00 í fundarsal AFLs. Námskeiðið hefst 4. apríl og lýkur 30. maí. Verð: 23.500 kr. (við minnum á að athuga rétt til endurgreiðslu hjá stéttarfélögum). Lágmarksfjöldi: 10 Skráning og nánari upplýsingar hjá Sædísi, verkefnastjóra Fræðslunetsins á Höfn: saedis@fraedslunet.is eða í síma 842-4655. Tekið við skráningum til 28. mars.
Gestir fundarins eru hjúkrunarfræðingarnir Jóna Bára Jónsdóttir og Laufey Sveinsdóttir sem fræða um heilsu og hreyfingu. Kaffiveitingar. Mætið vel. Stjórnin
Eystrahorn Fiskhól 5 • Sími: 848-3933 Útgefandi:............ HLS ehf. Ritstjóri og ábyrgðarmaður:.. Tjörvi Óskarsson Netfang: .............. tjorvi@eystrahorn.is Prófarkalestur..... Guðlaug Hestnes Umbrot: .............. Tjörvi Óskarsson Prentun: .............. Litlaprent ISSN 1670-4126
Vildaráskrift Nýir vildaráskrifendur velkomnir í hópinn. HLS ehf. Rnr. 0537-14-409068 Kt. 500210-2490
XB-2018 Undirbúningsfundur vegna sveitarstjórnarkosninganna í vor verður haldinn í Golfskálanum laugardaginn 17. mars. Fundurinn hefst kl. 13.00. Allir velkomnir
Eystrahorn
Fimmtudagurinn 15. mars 2018
3
Milljarður rís 2018
Dansbylting gegn kynbundnu ofbeldi í Þr ykkjunni, vöruhúsi 16. mars kl. 12.00 í boði UN Women á Íslandi.
Ofbeldi gegn konum er heimsfaraldur – tökum afstöðu gegn ofbeldinu, mætum og dönsum! Milljarður rís er dansbylting sem haldin er víða um heim. Með samtakamætti lætur heimsbyggðin til sín taka. Yfir milljarður karla, kvenna og barna kemur saman til að dansa fyrir réttlæti, fyrir heimi þar sem allir fá að njóta sömu tækifæra án ótta við ofbeldi. Í krafti #MeToo byltingarinnar hafa konur úr ólíkum geirum stigið fram og lýst því kynbundna ofbeldi og kynferðislegu áreitni sem þær hafa þurft að þola. Byltingin er hafin og ofbeldi í garð kvenna verður ekki lengur liðið. Í sjötta sinn ætlum við að sameinast í yfir 200 löndum og dansa fyrir þolendur kynbundins ofbeldis og sýna þeim samstöðu. Í fyrra komu saman um fjögur þúsund manns á öllum aldri um allt land í tilefni af Milljarður rís. Dansað var af krafti um allt land; í Reykjavík, Akureyri, Seyðisfirði, Reykjanesbæ, Neskaupstað, Höfn í Hornafirði, Egilsstöðum, Hvammstanga og Borgarnesi. Samtakamátturinn var allsráðandi! Konur um allan heim þurfa að þola óþolandi ofbeldi. Einn berskjaldaðasti hópur kvenna fyrir ofbeldi í dag eru Róhingjakonur sem flúið hafa Mjanmar til Bangladess sem flýja ofsóknir, hópnauðganir og linnulaust ofbeldi undanfarinna áratuga. Í ljósi þess grimma veruleika sem Róhingjakonur á flótta búa við í Bangladess um þessar mundir hefur UN Women Íslandi efnt til neyðarsöfnunar. Af gefnu tilefni hvetur UN Women á Íslandi alla til að senda smsið KONUR í 1900 (1900 kr.) og lýsa upp myrkur Róhingjakvenna í Bangladess sem þurft að þola ofsóknir og gróft ofbeldi. UN Women á Íslandi hvetur á vinnustaði, skóla og vinahópa til að mæta og dansa fyrir réttlátum heimi. Aðgangur er ókeypis. Ekki missa af stærstu dansveislu heims – mætum og gefum ofbeldi fingurinn! Myllumerkið er #milljardurris #fokkofbeldi
Auglýsing um skipulagsmál
Óveruleg breyting á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar 2012 – 2030 Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar samþykkti á fundi sínum þann 8. mars 2018 að gera breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar 2012-2030. frístundabyggð við Stórulág - Myllulæk, í greinargerð breytist eftirfarandi: Breyting í greinargerð Breyting verður gerð á töflu 21.2, F9 Frístundabyggð í Nesjum. Breyting verður gerð á leyfðri starfssemi fyrir [F9]. Þar sem nú stendur í töflu 21.2: [F9]: Stórulág – Myllullækur ~ 11ha 12 lóðir Mun standa (breytingar eru undirstrikaðar): [F9]: Stórulág – Myllullækur ~ 11ha 12 lóðir Heimilað er tjaldsvæði á allt að þriðjungi lóðar og þjónustuhús á einni lóðinni Aðalskipulagstillagan verður send Skipulagsstofnun til staðfestingar, skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um óverulegar breytingar á aðalskipulagi. Þeir sem óska nánari upplýsinga geta haft samband við skipulagsstjóra sveitarfélagsins Hafnarbraut 27, 780 Höfn Hornafirði.
Beinþynning og beinbrot Töluvert hefur verið um beinbrot í hálkuslysum undanfarna mánuði og þá jafnframt vaknað upp spurningar hjá þolendum um hvort þeir séu með beinþynningu. Hvað er beinþynning. Beinþynning verður þegar massi beinanna minnkar og uppbygging beinanna breytist þannig að hætta er á að bein brotni við álag sem ekki myndi valda brotum í ,,heilbrigðum“ beinum. Beinþynning er einkennalaus og uppgötvast oft ekki fyrr en við það að bein brotna og er áætluð að 1000 – 1200 beinbrot á ári megi rekja til beinþynningar. Talið er að þriðja hver kona og fimmti hver karlmaður yfir fimmtugt verði fyrir beinþynningu einhvern tíma á ævinni. Áhættuþættir beinþynningar. Erfðir: Aukin hætta er hjá þeim sem eiga foreldra sem greinst hafa með beinþynningu. Aldur: Beintap eykst með hækkandi aldri hjá bæði konum og körlum en tíðni beinþynningar er algengari hjá konum. Snemmbær tíðahvörf Hreyfingarleysi Reykingar Lélegt mataræði: Þá aðallega skortur á kalki og D-vítamíni Ákveðin lyf og sjúkdómar: Geta valdið beinþynningu og þá þarf gjarnan að gefa lyf til mótvægis Fólki af hvítum kynstofni og grannt fólk Greining Besta leiðin til að mæla beinþéttni er svonefnd DEXA-aðferð og er framkvæmd á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Ómskoðun af hæl getur gefið vísbendingu um góðan beinhag hjá eldra fólki en er ekki nothæf til að greina beinþynningu. Hverjir ættu að fara í beinþéttnimælingu Þeir sem eru með áhættuþætti fyrir beinþynningu. Einstaklingar sem til dæmis hafa framhandleggsbrotnað við lágt fall (standandi eða sitjandi á stól) , eða fengið samfallsbrot á hrygg. Þar sem röntgenmynd hefur vakið grun um beinþynningu. Fólk með ákveðna sjúkdóma eða á lyfjum sem leitt geta til beinþynningar. Leiðir til að verjast beinþynningu. Regluleg hreyfing, helst 30 – 40 mín á dag þar sem lyftingar eða styrktarþjálfun er hluti af hreyfingunni. Gæta að mataræði innihaldi nægilegt kalk og vítamín D Hætta að reykja og að neyta áfengis í hófi f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands Guðný Bogadóttir Hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Vestmannaeyjum
Skemmtikvöld Kvennakórs Hornafjarðar 2018 Föstudagskvöldið 23. mars n.k. mun kvennakórinn sjá Hornfirðingum fyrir skemmtun í Sindrabæ Barinn verður fullur af veigum og skemmtiatriðin frábær, eins og kvennakórnum er einum lagið. Eftir dagskrána munum við syngja og dansa saman inn í nóttina. Komdu og taktu með þér vini og samstarfsfólk og skemmtum okkur saman.
18 ára aldurstakmark Miðaverð 2000 krónur Húsið opnað kl. 20:30 og dagskráin hefst kl. 21:00 Fylgist með okkur á facebook.com/kvennakor
Sveitarfélagið auglýsir eftir flokkstjórum í Vinnuskólann fyrir sumarið 2018. Auglýst er eftir bæði körlum og konum, 20 ára eða eldri. Leitað er eftir einstaklingum sem eiga gott með að vinna með öðrum, hafa frumkvæði, eru góðar fyrirmyndir, stundvísir, metnaðarfullir og samviskusamir. Starfið felst í að vinna með unglingum, aðallega í umhirðu grænna svæða sveitarfélagsins og ýmsu öðru skemmtilegu. Ráðnir verða fjórir einstaklingar, launakjör samkv. kjarasamningum AFL stéttarfélags og launanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Umsóknir skal senda í rafrænu formi á netfangið herdisiw@hornafjordur.is Frekari upplýsingar um starfið veitir Herdís I Waage, tómstundafulltrúi í síma 470-8028. Umsóknarfrestur er til og með 25. mars n.k.
Smáréttanámskeið í Pakkhúsinu
Dóri og Gústi ætla í samstarfi við Fræðslunetið að kenna Hornfirðingum að útbúa fljótlega, auðvelda og gómsæta smárétti. Þátttakendur fá uppskriftir með sér heim. Hvar: Pakkhúsinu Hvenær: Laugardaginn 24. mars frá 12:00 til 15:00 Verð: 5.000 kr. Fjöldi: Lágmark 10 Skráning og nánari upplýsingar hjá Sædísi, verkefnastjóra Fræðslunetsins á Höfn: saedis@fraedslunet.is eða í síma 842-4655. Tekið við skráningum til 21. mars.