Eystrahorn 11. tbl. 35. árgangur
www.eystrahorn.is
Fimmtudagurinn 23. mars 2017
Drengjalið Sindra bikarmeistarar 2017
Þann 26. febrúar var haldið bikarmót unglinga í hópfimleikum í Gerplu, Kópavogi. Fimleikadeild Sindra sendi frá sér þrjú lið, samtals 24 keppendur. Drengjalið Sindra gerði sér lítið fyrir og unnu sinn flokk með glæsibrag. Stelpurnar kepptu í tveimur 4. flokks liðum og kepptu í c deild. Þær stóðu sig með stakri prýði. 10 lið kepptu í deildinni, Sindri b lentu í 7. sæti og voru margar hverjar á sínu fyrsta keppnismóti. Sindri a unnu deildina ásamt Gerplu c. 11. mars var WOW-bikarmótið haldið í hópfimleikum í Stjörnunni, Garðabæ. Fimleikadeildin sendi frá sér eitt lið til keppni í 1. flokk b, samtals 10 keppendur. Stelpurnar gerðu gott mót en ekki nógu góðar lendingarnar á trampólíni varð þeim að falli og enduðu þær í 4. sæti af 4 liðum. Þetta er í fyrsta skipti sem hópfimleikalið frá Sindra keppir
með tvöfallt heljarstökk en það voru tvær stelpur sem gerðu það. Það er mikið fagnaðarefni að við getum keppt með stökk sem eru með hærri erfiðleika og meira krefjandi. Fimleikadeildin og fimleikaþjálfarar halda í vonina að það finnist leið til að bæta aðstöðu fimleikanna í sýslunni. Það bætir öruggi iðkanda og þjálfara að hafa svokallaða “gryfju” þar sem iðkandi getur gert meira af krefjandi og erfiðum stökkum við minni áhættu. Einar Smári Þorsteinsson yfirþjálfari fimleikadeildar Sindra
Lionsklúbburinn Kolgríma færir Skjólgarði góðar gjafir Föstudaginn 17. mars komu Lionskonur færandi hendi á Skjólgarð. Klúbburinn færði heimilinu tvær fullkomnar vökvadælur, tvö vökvastatíf og eina úðavél að verðmæti 600 þúsund krónur. Þessar gjafir koma að góðum notum en vökvadælurnar leysa af hólmi dælur sem Lions gaf Skjólgarði 1996 þegar flutt var í núverandi húsnæði. Frá og með síðustu áramótum er heimilið aftur komið með fjögur sjúkrarými til að mæta styttri innlögnum vegna veikinda, slysa eða endurhæfingar, en þeim var fækkað niður í þrjú árið 2009. Tuttugu og fjögur hjúkrunarrými eru á Skjólgarði og hafa þau verið fullnýtt síðustu árin. Lionskonur vilja koma sérstöku þakklæti til Pálma Guðmundssonar verslunarstjóra Nettó sem senn lætur af störfum. Pálmi hefur verið sérstaklega velviljaður í garð Lionskvenna að leyfa þeim að selja varning sinn í Miðbæ. Einnig þakka þær íbúum sveitarfélagsins góðar viðtökur og stuðning. Lionskonur vilja einnig minna á hið árlega „Krúttmagakvöld“ sem verður haldið þann 8. apríl nk. þar sem konur koma saman, skemmta sér og styrkja gott málefni. Nánar auglýst síðar.