Eystrahorn 11.tbl 2018

Page 1

Eystrahorn 11. tbl. 36. árgangur

Fimmtudagurinn 22. mars 2018

www.eystrahorn.is

Allt á fullri ferð í körfunni Það er óhætt að segja að það gangi vel hjá körfuknattleiksdeild Sindra þessa dagana. Í byrjun mars fóru 1.-5. bekkur á Nettómót í Reykjanesbæ. Alls fóru 7 lið eða 27 iðkendur sem er mesti fjöldi sem hefur farið til þessa. Þess má líka geta að eitt af liðunum var stelpulið en erfitt hefur verið að fá stelpur til að æfa og því fannst okkur frábært að þær 5 stelpur sem gera það gátu farið saman og spilað sem lið. Öll liðin stóðu sig frábærlega og hópurinn ánægður með ferðina. Strákarnir í 6.-7. bekk fylgdu svo í kjölfarið suður helgina eftir að keppa á Íslandsmóti 7. flokks. Vegna veikinda og forfalla fóru þeir með engan skiptimann og létu það ekki á sig fá heldur gáfu sig alla í leikina og uppskáru tvo sigra af fjórum leikjum. Komu þeir mjög þreyttir en sáttir heim. Einnig erum við með tvo stráka í 9. bekk sem hafa verið að keppa á Íslandsmótinu fyrir sameiginlegt lið Hattar/ Sindra og gengur þeim vel. Á nýloknu ársþingi USÚ var deildin svo lánsöm að taka á móti viðurkenningum. Tómas Orri Hjálmarsson er ungur og efnilegur körfuknattleiksmaður sem hlaut hvatningarverðlaun 2017. Við val á íþróttamanni ársins var svo breytt útaf vananum þetta árið og í staðinn var valið það lið sem þótti sýna bestu liðsheildina og góðan árangur á árinu. Hlotnaðist sú viðurkenning

meistaraflokki Sindra. Liðið hefur að mestu verið skipað heimamönnum og í fyrra vann liðið sig upp í 2.deild eftir að hafa aðeins tapað einum leik á leiktíðinni og það í bikarkeppninni. Liðið stefnir nú ótrautt áfram upp í 1.deild og hafa unnist 14 leikir í röð og spennandi úrslitakeppni framundan. Viljum við nota tækifærið og þakka USÚ fyrir þessa viðurkenningu og óska strákunum til hamingju. En það er meira í gangi hjá okkur þótt ótrúlegt sé því deildin hefur komið af stað bumbubolta fyrir karla sem eru komnir af léttasta skeiði og koma þeir saman einu sinni í viku og er leikgleðin þar í fyrirrúmi og kappið aldrei meiri en forsjáin. Kvennaboltinn er líka að koma sér af stað og stelpurnar hittast einu sinni til tvisvar í viku og aldrei að vita nema að náist að senda inn kvennalið á næstu leiktíð! Leikskólaboltinn er á sínum stað í íþróttahúsinu á laugardagsmorgnum. Framtíðin er því björt hjá körfuknattleiksdeild Sindra.

Glæsileg tilþrif í leik Sindra gegn Haukum b. Mynd: karfan.is / Benóný

Körfuboltakveðja, stjórnin

Meistaraflokkur Sindra í körfubolta með viðurkenninguna frá USÚ

Næsta blað kemur út miðvikudaginn 28. mars Skilafrestur á auglýsingum og öðru efni er til kl. 14:00 mánudaginn 26. mars


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.