Eystrahorn 12. tbl 2017

Page 1

Eystrahorn 12. tbl. 35. árgangur

Fimmtudagurinn 30. mars 2017

www.eystrahorn.is

Rættist vel úr vertíðinni

Það má segja að þokkalega hafi ræst úr vetrarvertíðinni eftir langt sjómannaverkfall. Jói á Fiskmarkaðnum, inntur frétta, sagði að Sigurður Ólafsson hefði landað tæplega 400 tonnum frá áramótum, mest þorskur. Línubáturinn Beta VE hefur landað um 150 tonnum og aðrir minna. Þessar fréttir fengust hjá Skinney-Þinganesi; „Eftir langt hlé vegna verkfalls sjómanna brast loðnuvertíð á af fullum þunga. Það var ljóst að ekkert mátti út af bregða til að ná þeim kvóta sem skyndilega og óvænt var úthlutað í loðnu, eftir að útgerðarmenn tóku sig saman og leituðu norður og vestur af landinu. Skemmst er frá að segja að nær allt gekk eins og í sögu. Veðrið var gott, fært var nánast alltaf um Ósinn þannig að ekki slitnaði í sundur í verksmiðjunni að neinu ráði, fryst voru þúsundir tonna af Japansloðnu ásamt því að ný og endurbætt fiskimjölsverksmiðja starfaði vel. Jafnframt lönduðu uppsjávarskipin alls fjórum förmum hjá hrognaframleiðendum á Austurlandi. Á sama tíma hófust neta- og línuveiðar og saltfiskvinnsla á Höfn, og togbátar félagsins hófu að landa bolfiski í vinnslu félagsins í Þorlákshöfn. Neta- og línuveiðar fóru fremur hægt af stað en hafa tekið mikið við sér og undanfarið hefur verið hörkugóð veiði og miklar annir hjá fólki í landi. Humarveiði hófst svo eftir miðjan mars mánuð og sinna nú bæði Þinganesið og Þórir humarveiðum á suðausturmiðum. Eftir hrygningarstopp bætist Skinney í hóp humarbáta en Hvanney fer á snurvoð. Steinunn heldur áfram að veiða fyrir vinnsluna í Þorlákshöfn. Það lítur því út fyrir annasama tíma framundan.“

Heimsókn frá Póllandi

Fyrr í þessum mánuði komu góðir gestir í FAS. Það voru 17 nemendur og tveir kennarar frá Wroclaw Póllandi í samstarfsverkefninu „Your Health is Your Wealth“ en það er undir merkjum Erasmus+ áætlunarinnar. Þessi heimsókn er liður í tveggja ára verkefni sem lýkur formlega í haust. Verkefnið er byggt á hugmynd um heilsueflandi framhaldsskóla þar sem hugað er að andlegri sem líkamlegri líðan og hvernig megi ná sem bestum árangri í leik og starfi. Það er gert með fjölbreyttri verkefnavinnu og skólaheimsóknum. Hægt er að skoða verkefnið á http://health.fas.is/ Á síðasta skólaári tóku rúmlega 30 nemendur þátt í verkefninu og í ár voru 17 nemendur í hvoru landi sem tóku þátt í ferðunum. Það eru því um 70 nemendur sem hafa tekið beinan þátt í verkefninu. Þá eru ótaldir allir þeir sem kynnast verkefninu á annan hátt. Í heimsóknum er miðað að því að þátttakendur kynnist eins og kostur er landi og þjóð. Það er m.a. gert með því að nemendur búa hjá gestafjölskyldum meðan á dvöl stendur. Þá er farið í heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir til að gefa sem besta mynd af lífinu á staðnum. Gestirnir okkar urðu margs fróðari um sögu staðarins og líf í sjávarþorpi eftir heimsóknina hingað. Það er mikils virði fyrir okkur í FAS hversu margir eru tilbúnir að aðstoða við að taka á móti gestunum. Það á við bæði um gestafjölskyldur og ekki síður þá sem opna dyr sínar, segja frá starfseminni og jafnvel leysa gestina út með gjöfum. Öllum þeim sem komu að móttöku gestanna eru hér með færðar bestu þakkir. Í júní verður svo síðari fundur verkefnastjóra þar sem m.a. er hugað að skýrslugerð. Sá fundur verður haldinn í Póllandi. Það eru þó ekki

bara umsjónarmenn verkefnisins sem mæta á þann fund heldur ætlar lunginn af starfsliði FAS með í þá för og þá á jafnframt að skoða fleiri skóla.

Næsta blað kemur út 6. apríl, ekki kemur út blað í páskavikunni, fimmtudaginn13. apríl.

Hjördís Skírnisdóttir


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.
Eystrahorn 12. tbl 2017 by Héraðsfréttablaðið Eystrahorn - Issuu