Eystrahorn
www.eystrahorn.is
Miðvikudagurinn 18. apríl 2018
14. tbl. 36. árgangur
Skinney-Þinganes afhendir smáíbúðir
Starfsemi Fræðslunetsins
Nemendur sem luku íslensku 2 á vegum Fræðslunetsins
Þingey ehf., dótturfélag Skinneyjar– Þinganess hf., afhenti í dag lykla að sex smáíbúðum sem hafa verið í byggingu frá því í haust. Auk íbúðanna er sameiginlegt rými í miðju húsinu sem inniheldur eina geymslu fyrir hverja íbúð, sameiginlega þvottaaðstöðu og hjólageymslu. Húsið er byggt úr krosslímdu tré sem framleitt er í Austurríki og klætt með álklæðningu. Nær allt efni í húsið var flutt inn af fyrirtækinu Idex, en aðalverktaki hússins var Sakki ehf. og byggingastjóri eigandi þess Friðjón Skúlason. Sökklar og plata voru steypt af Mikael ehf. Sakki réð sjálfur til sín alla undirverktaka við byggingu hússins. Húsið er fullklárað og hver íbúð skiptist í anddyri, baðherbergi og alrými þar sem lítil eldhúsinnrétting er til staðar, auk tveggja borða, stóla, sófa
og rúma. Í þremur af sex íbúðum er niðurfellanlegt rúm þannig að rýmið nýtist sem best. Í vor verður gengið frá bílastæðum með malbiki en búið er að steypa stétt meðfram húsinu og umhverfis sorpskýli sem er fyrir miðju húsi. Einnig verður gengið frá lóðinni í vor með sáningu á grasi eða þökulagningu. Þingey ehf. vill þakka öllum þeim sem komu að byggingu hússins. Við úthlutun á íbúðunum var ekki hægt að anna allri eftirspurn. Ljóst er að rík þörf er á frekari uppbyggingu íbúða á staðnum. Núna er Mikael ehf. að byggja sex íbúða blokk fyrir Þingey samhliða byggingu á íbúðablokk fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð sem vonandi slær eitthvað á þá miklu þörf sem til staðar er í íbúðamálum á staðnum.
Fræðslunetið símenntun á Suðurlandi er sjálfseignarstofnun í eigu fjölmargra félaga, sveitarfélaga og fyrirtækja á Suðurlandi. Á ári hverju fá á milli 1.200 - 1.400 manns á Suðurlandi einhverskonar fræðslu á vegum Fræðslunetsins. Fræðslunetið sér um og skipuleggur nám og námskeið fyrir fullorðið fólk. Námsúrræðin eru af ýmsum toga; starfstengt nám og endurmenntun, námsleiðir sem gefa einingar á framhaldsskólastigi, nám fyrir fatlað fólk og námskeið fyrir fólk í starfsendurhæfingu. Þá sér Fræðslunetið um að skipuleggja námskeið eftir óskum fyrirtækja og stofnana, greinir fræðsluþarfir þeirra og útbýr fræðsluáætlanir til langs tíma í kjölfarið. Á vorönn hefur ýmislegt verið í gangi hjá Fræðslunetinu á Höfn. Þar má nefna Fagnám í umönnun fatlaðra sem hófst síðastliðið haust, íslenska fyrir útlendinga (stig 2 og 3), smáréttanámskeið
og núvitundarnámskeið fyrir íbúa, ýmis námskeið fyrir fatlaða og nú á vormánuðum mun fara fram raunfærnimat. Að auki hefur Fræðslunetið tekið að sér að skipuleggja og halda utan um ýmsa fræðslu fyrir sveitarfélagið og fyrirtæki í sveitarfélaginu. Á haustönn 2018 hefur nú þegar verið ákveðið að bjóða upp á fjarnám í félagsliðabrú og leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú, menntastoðum (dreifnám) og íslensku fyrir útlendinga. Verkefnastjóri Fræðslunetsins á Höfn er Sædís Ösp Valdemarsdóttir félagsráðgjafi og er hún við alla virka daga frá kl. 08:00 – 16:00. Þá má finna viðamiklar upplýsingar um Fræðslunetið og námsframboð hverju sinni á heimasíðu þess. Sædís Ösp Valdemarsdóttir Verkefnastjóri Sími: 842-4655 Netfang: saedis@fraedslunet.is Vefsíða: www.fraedslunet.is
Takk fyrir frábærar móttökur
Fyrir hönd Lista- og menningarsviðs FAS vil ég þakka Hornfirðingum og öðrum gestum fyrir frábæra móttöku á leiksýningunni Ronju ræningjadóttur sem sýnd var í leikhúsi Nýheima í mars. Uppselt var á allar sýningar og sýnir það áhuga heimamanna á starfi nema á listabrautum FAS. Þetta gefur góð fyrirheit um að Framhaldsskólinn á Höfn sé á réttri leið með að bjóða nemendum sínum uppá nám í listfögum. Aðsókn í námið á skólaárinu 2017-2018 fór fram úr björtustu vonum. Á næsta skólaári verður boðið uppá nám í hinum ýmsu listfögum og er von skólans og áhersla að styðja nemendur og aðstoða hvern einstakling í að finna þá leið sem hentar hverjum og
einum. Listnám hefur marg sannað gildi sitt það er bæði nærandi fyrir sálina og styrkjandi. Fjórða iðnbyltingin svokallaða er hafin. Þar sem gervigreind vélmenna er að taka við færibandavinnu gamla tímans. Í fjórðu iðnbyltingunni er hugur manneskjunnar, frumkvæði og skapandi hugsun dýrmæti framtíðarinnar. FAS er skóli sem býður nemendum sínum nám á listaog menningarsviði sem leiðbeinir nemendum að takast á við sjálfstæð vinnubrögð og skapandi hugsun. Kæru Hornfirðingar, takk fyrir skólaárið sem er að líða. Stefán Sturla Umsjónarmaður og kennari Lista- og menningarsviðs FAS
Sundlaug Hornafjarðar auglýsir
Sumardaginn fyrsta fimmtudaginn 19. apríl er sundlaugin opin frá kl.10:00 til 17:00 Starfsfólk sundlaugar