Eystrahorn 15. tbl. 36. árgangur
Fimmtudagurinn 26. apríl 2018
www.eystrahorn.is
Sindri Íslandsmeistarar í 2. deild
Það skalf allt og nötraði í íþróttahúsinu laugardaginn 14. apríl þegar meistaraflokkur karla í körfubolta háði úrslitaleik við sterkt lið KV frá Reykjavik. Troðfull stúka, trommur, tónlist, þriggja stiga körfur og troðslur var bara smjörþefurinn af því sem koma skal. Lokatölur 8277, stórkostlegur sextándi sigur í röð og með því komnir upp í 1. deild á næsta leiktímabili. Stjórn körfuknattleiksdeildarinnar vill þakka öllum þeim fjölmörgu sem komu að þessum frábæra árangri hjá drengjunum og þá sérstaklega styrktaraðilum og stuðningsmönnum án þeirra hefði þessi árangur ekki orðið að veruleika. Einnig óskum við strákunum og þjálfara til hamingju með árangur og frábært starf í vetur. Síðar um kvöldið var svo uppskeruhátíð fyrir meistaraflokk karla þar sem árið var gert upp og veittar viðurkenningar. Mikilvægasti leikmaður tímabilsins var Jordan Jacks. Efnilegastur Ivan Kecik, besti varnarmaðurinn Árni Þorvarðarson, besti félaginn Sigurður Hallsson og mestu framfarir hlaut Bartek Sk. Einnig var veitt viðurkenning fyrir vel unnin störf fyrir deildina í gegnum tíðina og hana hlaut Ingvar Ágústsson. Verðlaun kvöldsins voru í boði Pakkhússins, Íshússins, Hótels Hafnar og Sundlaugar Hafnar. Sérstakar þakkir til þeirra.
Íslandsmót í Hornafjarðarmanna Þórhildur Kristinsdóttir er nýkrýndur Íslandsmeistari í Hornafjarðarmanna en keppnin var haldin í 20. skipti þann 18. apríl. Í úrslitum glímdi hún við Rúnar Þór Gunnarsson og Hróðmar Magnússon fv. Íslandsmeistara. Þórhildur spilaði í úrslitum árið 2008, var þá 12 ára efnilegur spilari. Þessir þrír stórspilarar tengjast inn í öflugar hornfirskar spilaættir. Þinganes, Snjólfar og Vallarnes. Hornafjarðarmanni er samt sem áður meira leikur en keppni. Skaftfellingafélagið í Reykjavík stóð fyrir keppninni í ár en frá árinu 1998 hefur Albert Eymundsson séð um útbreiðslu manna-spilsins. Góð verðlaun voru í boði fyrir þrjú efstu sæti og komu þau frá ferðaþjónustuaðilum. Hótel Höfn gaf gistingu fyrir tvo, Árnanes gaf kvöldverð fyrir tvo og sigling fyrir tvo á Fjallsárlóni. Auk þess fylgir farandgripur sigurvegaranum. Það er mikill félagsauður í Hornafjarðarmanna. Hann tengir saman kynslóðir en Hornafjarðarmanninn hefur lengi verið spilaður í Hornafirði og breiðst þaðan út um landið, meðal annars með sjómönnum og því hefur nafnið fest við spilið. Talið er að séra Eiríkur Helgason í Bjarnanesi (1892-1954) hafi verið höfundur þess afbrigðis af manna sem nefnt hefur verið Hornafjarðarmanni. En Hornafjarðarmanni sker sig frá öðrum afbrigðum manna með því að spilari á hægri hönd við gjafara velur samning með því að skipta spilastokki