Eystrahorn
www.eystrahorn.is
Miðvikudagurinn 24. maí 2017
19. tbl. 35. árgangur
Nýr frisbígolfvöllur á Höfn
Samkvæmt nýlega samþykktu deiliskipulagi var gert ráð fyrir nýjum frisbígolfvelli í Hrossabithaga. Bæjarráð ákvað í framhaldi af því að festa kaup á 9 holu frisbígolfvelli og hafa starfsmenn bæjarins ásamt verktaka unnið að uppsetningu síðustu daga. Frisbígolf er eins og nafnið gefur til kynna afþreying þar sem golf er spilað með frisbídiskum. Sportið er sérlega hentugt fyrir alla aldurshópa og auðvelt fyrir hvern sem er að ná tökum á því. Völlurinn verður opinn öllum og frítt verður að
spila á honum. Til stendur að vígja frisbígolfvöllinn fimmtudaginn 25. maí kl. 15:00. Sveitarfélagið gerðist aðili að samningi um heilsueflandi samfélag en markmiðið með því er að hafa heilsu íbúa í fyrirrúmi í öllum málaflokkum og er uppsetning frisbígolfvallar eitt skref í þeirri vinnu. Allar nánari upplýsingar um sportið má finna á heimasíðunni www.folf.is. Komdu út að leika.
Vallahönnuðir frá fyrirtækinu Fuzz
Erum þakklát fyrir góðan stuðning Eydís Diljá er 4 ára stúlka hér á Höfn með CFC heilkenni. CFC er mjög sjaldgjæft og alvarlegt heilkenni. Vitað er um rúmlega 100 einstaklinga með heilkennið en einungis tvö börn eru með heilkennið á Íslandi í dag. Foreldrar hennar Joanna Skrzypkowska og Ágúst Ágústsson lýsa aðstæðum hennar þannig í viðtali við blaðið; „Frá fæðingu hefur Eydís Diljá verið með hjarta- og húðvandamál, vandamál við að nærast auk þroskaseinkunar sem allt tengist heilkenninu. Annað hvert ár eru skipulagðar ráðstefnur fyrir fjölskyldur barna með CFC. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að hitta aðra foreldra, tala saman um vandamál sem fylgja fötluninni, hvetja hvort annað og svo að sjálfsögðu að hitta alla sérfræðingana og læknana. Á þessum tveimur árum getur margt breyst svo þetta er gott tækifæri fyrir okkur að læra nýja hluti um Eydísi. Í ár sóttum við um að fara á ráðstefnu í Manchester sem er í október. Af því að CFC heilkennið er sjaldgæf erum við alltaf að læra eitthvað nýtt. Við erum afar þakklát fyrir þann stuðning sem fólk hefur veitt okkur hingað til og sem velunnarar eru að hvetja til núna vegna ferðar okkar í ár. “ Velunnarar fjölskyldunnar vildu vekja athygli á þessum aðstæðum fjölskyldunnar og hvetja fólk til að styðja þau, marg smátt gerir eitt stórt.
Stuðningsreikningurinn er 0172 - 05 - 060125 kennitala 200613 – 2600.
Big-band Tónskóla A-Skaft. Verður með tónleika sunnudaginn 28. maí kl. 16.00 í Nýheimum. Fjölbreytt dagskrá bæði leikin og sungin. Við fáum fyrrum félaga til liðs með okkur. Tónleikarnir eru tileinkaðir Gunnlaugi Þresti sem stofnaði hljómsveitina og byggði hana upp.
Aðgangseyrir kr. 1000-