Eystrahorn
www.eystrahorn.is
Fimmtudagurinn 19. maí 2016
20. tbl. 34. árgangur
„Frábær helgi á Hornafirði“
Þetta sagði Karl Birgir Örvarson eftir að afkomendur Olgu Þórhallsdóttur og Kristjáns Jakobssonar komu hér saman sl. helgi. „Við lögðum blómsveig að styttu forföður- og móður okkar, Þórhalls og Ingibjargar til minningar um þau og þá sem fallnir eru frá. Við heimsóttum Kaupmannshúsið (Kaupfélagshúsið) þar sem Ari og Maja tók á móti okkur og Ari sagði okkur sögu hússins þar sem Þórhallur og Ingibjörg bjuggu um hríð. Einnig fór hann með hópinn út í Miklagarð og um það svæði. Að aflokinni göngu með Ara um plássið var þorstanum svalað hjá þeim hjónum Ara og Maríu og fólki gefinn kostur á að skoða húsið að utan sem innan. Við vorum 85 sem mættum á þetta ættarmót og enduðum það með kvöldverði á laugardagskvöldinu á Hótel Höfn. Veðrið lék við okkur og Hornafjörður skartaði sýnu fegursta og frá Hornafirði fóru allir með gleði í hjarta, góðar minningar og þakklæti fyrir góðar móttökur.“
Fyrstu kosningar ungs fólks verða í Sveitarfélaginu Hornafirði
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar samþykkti beiðni ungmennaráðs sveitarfélagsins að halda skuggakosningar samhliða næstkomandi forsetakosningum. Ungmennaráð óskaði eftir að gera tilraun til að halda skuggakosningar til að auka lýðræðisvitund ungs fólk í sveitarfélaginu. Rannsóknir benda til að ungt fólk sem kýs snemma á ævinni er líklegra til að taka þátt í kosningum í framtíðinni. Bæjarstjórn samþykkti reglur um kosningarnar þar sem ungmennaráð hefur yfirumsjón með skuggakosningunum í samráði við yfirkjörstjórn sveitarfélagsins. Ráðið tilefnir þrjá aðalmenn í kjörstjórn og þrjá til vara. Ungmennaráð mun standa fyrir kynningum um kosninguna og frambjóðendur forsetakosninganna í skólum sveitarfélagsins
og með því að senda út kynningarefni sem höfðar til ungs fólks. Leitast verður við að hafa skuggakosningarnar eins líkar og almennu forsetakosningarnar og verða þær haldnar á sömu stöðum og almennu kosningarnar en kjörseðlar verða ekki í sama lit. Ungmennaráð hefur hafið undirbúning að kosningunum og mun halda kosningavöku í Nýheimum. Á kosningavökunni verða úrslit kosninganna kynnt ásamt því að Emmsjé Gauti skemmtir gestum. Ungmennaráð hvetur ungmenni í sveitarfélaginu til að taka þátt í kosningunum og sýna fram á að ungt fólk lætur sig málin varða með því að taka þátt í tilraun til aukinnar lýðræðislegrar vitundar ungs fólks. Á myndinni eru fjórir aðalmenn ungmennaráðs ásamt Dagbjörtu Ýr Kiesel tómstundafulltrúa sveitarfélagsins.
Frá vinstri: Þorkell Ragnar Grétarsson aðalmaður, Dagbjört Ýr Kiesel starfsmaður ungmennaráðs, Þórdís María R. Einarsdóttir aðalmaður, Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir varaformaður, Sunna Dögg Guðmundsdóttir formaður ungmennaráðs. Á myndina vantar Ragnar Magnús Þorsteinsson aðalmann ráðsins. www.hornafjordur.is
Það er fleira til en við þekkjum Mikið verður um að vera hjá okkur í Grunnskóla Hornafjarðar dagana 25. – 27. maí. Fyrirhugaðir eru fjölmenningardagar sem bera yfirskriftina „ Það er fleira til en við þekkjum“. Skólanum verður skipt upp í hópa eftir heimsálfum og unnin ýmis verkefni og í lokin verður skrúðganga þar sem hver hópur dregur fram einkenni hverrar álfu með búningum fánum og fleira. Skrúðgangan verður þann 27. maí og gengið verður frá Heppuskóla og farinn hringur um bæinn og
stoppað á nokkrum stöðum, dansað og sungið. Leikskólarnir ætla að taka þátt í göngunni og hvetjum við alla bæjarbúa að taka þátt og eiga skemmtilega stund og ekki skemmir fyrir að koma með fána eða klæðast þjóðbúningi. Til að gera bæinn okkar fjölþjóðlegan langar okkur í Grunnskóla Hornafjarðar að leita til fyrirtækja og einstaklinga um að flagga þennan dag fánum frá hinum ýmsu löndum heims.