Eystrahorn 21.tbl 2017

Page 1

Eystrahorn 21. tbl. 35. árgangur

Fimmtudagurinn 8. júní 2017

www.eystrahorn.is

Lífæðin / Lifeline Skinney – Þinganes í samvinnu við Forlagið gefur út bókina Lífæðin / Lifeline nú á næstu dögum. Tilurð bókarinnar má rekja til 70 ára afmælisárs Skinneyjar - Þinganess árið 2016 þegar portúgalska ljósmyndarann Pepe Brix rak á fjörur þess. Pepe dvaldi hjá fyrirtækinu drjúgan hluta marsmánaðar við myndatökur á sjó og í landi. Hann sýnir mannlífið um borð í fiskiskipum og í vinnslustöðvum og hyllir fólkið sem færir aflann heim og vinnur úr honum. Meðan á dvöl Pepe stóð kom upp sú hugmynd að gefin yrði út ljósmyndabók um starfsemi Skinneyjar – Þinganess í tilefni af 70 ára afmælisári félagsins. Stefnan var þá líka sett á að hafa inngangstexta í bókinni á íslensku og ensku, um sjávarútveg á Íslandi með áherslu á tengsl greinarinnar við vöxt og viðgang Hafnar í Hornafirði, um sögu og þróun Skinneyjar – Þinganess og um náttúrufarið sem er og verður orsakavaldur um stöðu og þróun greinarinnar til framtíðar. Arnþór Gunnarsson tók að sér textagerð og Júlían D’Arcy þýddi yfir á ensku. Eldri myndir í bókina lagði Sigurður Eymundsson til úr safni sínu. Í meira en eina öld hefur sjósókn og vinnsla sjávarafurða verið lífæð bæja og þorpa víða um land. Í bókinni varpar Pepe ljósi á samspil tækni, manns og náttúru til sjós og lands. Bókin er tileinkuð sjómönnum og landverkafólki á Hornafirði í gegnum tíðina.

Útgáfunni verður fagnað í Skreiðarskemmunni kl. 16:00 laugardaginn 10. júní. Allir eru boðnir velkomnir.

Híf opp! Nýverið kom út hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Híf opp! og inniheldur hún gamansögur af íslenskum sjómönnum. Höfundur bókarinnar er Guðjón Ingi Eiríksson og hefur hann leitað efnis víða. Þarna koma meðal annars við sögu Eiríkur Kristófersson, Magni Kristjánsson, Jón Berg Halldórsson, feðgarnir Oddgeir og Addi á Grenivík, Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Lási kokkur, Einar í Betel, Binni í Gröf, Snæbjörn Stefánsson, Fúsi Axels, Ingvi Mór, Slabbi djó, Doddi hestur og Gunnar Trausti Guðbjörnsson. Eru þá sárafáir upp taldir. Hér eru nokkrar sögur úr bókinni, en hægt er að panta hana á netfanginu holar@holabok.is og í síma 692-8508: Sigurður Ólafsson (f. 1890 – d. 1966) útgerðarmaður og lengi formaður á eigin báti, Björgvini, skilaði drjúgum afla á land og reyndist byggðarlagi sínu, Höfn í Hornafirði, mikill máttarstólpi. Hann þótti nokkuð blótsamur og einhvers staðar stendur að þær hafi ekki verið margar setningarnar sem hann tvinnaði ekki í nokkur blótsyrði. Einhverju sinni lenti Sigurður í hafvillu vegna mikillar þoku. Farið var að óttast um bátinn, en þegar hann skilaði sér loksins í höfn, sagði Sigurður meðal annars svo frá: „Þegar loks rofaði aðeins til sá ég glitta í ljós í fjarska. Ég tók auðvitað stefnuna á ljósið, en þegar ég fór loksins að nálgast það, sá ég að þetta var bara helvítis, djöfuls, bölvuð stjarna!“ Einhverju sinni fór hinn þjóðþekkti Lási kokkur upp í brúna til skipstjóra síns og færði honum súpu. Sá gamli var í mjög vondu skapi og sagði við Lása: „Farðu með þessa súpu og troddu henni í rassgatið á þér.“ Lási tók þessu ljúfmannlega og svaraði: „Og á ég svo að koma með hana aftur, skipstjóri?“ Eiginkonur skipverjanna á Ísleifi VE fengu einhverju sinni kveðju frá þeim í óskalagaþætti sjómanna í Ríkisútvarpinu. Þeir höfðu þá verið lengi að veiðum í Norðursjónum og völdu með Bítlalagið „Help“. Viku síðar fengu þeir kveðju frá eiginkonum sínum í sama þætti með laginu ... „Help Yourself“.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.