Eystrahorn 23.tbl 2017

Page 1

Eystrahorn Fimmtudagurinn 22. júní 2017

23. tbl. 35. árgangur

www.eystrahorn.is

Komið að tímamótum - þakka fyrir mig Tæp átta ár eru síðan ég endurvakti útgáfu Eystrahorns. Þá tók ég fram að um þriggja mánaða tilraunaútgáfu væri að ræða. Það hefur teygst á þessum þremur mánuðum sem eru að verða átta ár. Með miklu aðhaldi, þar sem blaðsíðufjöldi hefur verið miðaður við tekjur, hefur þetta gengið. Nú er komið að tímamótum og þetta tölublað er það síðasta sem ég sendi frá mér. Ég er sáttur við að draga mig í hlé, sérstaklega þar sem ég hef fundið fólk til að taka við. Yngra fólk sem ég treysti vel og bind vonir við vegna þess að það hefur meiri möguleika til að breyta og efla útgáfuna með kunnáttu sinni og jafnvel nýta upplýsingatæknina betur. Mörgum ber að þakka eftir þennan tíma; svo mörgum að ég verð að sleppa því að telja þá alla upp. Öllum sem ég hef átt samskipti við og samvinnu færi ég þakkir sem og lesendum og vildaráskrifendum sem geta nú hætt greiðslum. Ég er þakklátur fyrir hvað starfsemin hefur almennt gengið vel fyrir sig. Ég óska, Tjörva og Guðrúnu Ásdísi, nýjum útgefendum velfarnaðar og vona að einstaklingar, stofnanir, félagasamtök og fyrirtæki standi við bakið á útgáfunni áfram eftir sumarhlé. Albert Eymundsson

Þessi hafa aðstoðað og tekið mestan þátt í útgáfunni f.v. Heiðar Sigurðsson, Tjörvi Óskarsson, Guðlaug Hestnes, Maríus Sævarsson, Ásta Ásgeirsdóttir, Albert Eymundsson, Sævar Þór Gylfason, Sigríður Arna Ólafsdóttir, Örn Arnarson og Jón Gunnar Gunnarsson.

Lífæðin

Útgáfu bókarinnar Lífæðin, eftir þá Pepe Brix og Arnþór Gunnarsson, var fagnað í Skreiðarskemmunni laugardaginn 10. júní. Fjöldi fólks lagði leið sína á viðburðinn þar sem aðdragandi útgáfunnar var rakinn og ljósmyndum eftir höfundinn varpað upp á vegg. Fyrsta eintak bókarinnar var afhent Birni Lúðvík Jónssyni (Lúlla) en það vildi þannig til að hann kemur tvívegis fyrir í bókinni. Fyrst á eldri mynd eftir frænda sinn Sigurð Eymundsson í Framnesi, þá ungur að árum á síldveiðum norður fyrir landi. Síðar í bókinni birtist hann á einum af myndum Pepe, þá meira en hálfri öld síðar, við vinnu í veiðafæragerð Skinneyjar – Þinganess. Sannarlega góður fulltrúi þess fólks sem bókin er tileinkuð, sjómönnum og landverkafólki á Hornafirði í gegnum tíðina. Andri Þorsteinsson spilaði á harmonikku við upphaf viðburðarins og þau Salome Morávek, Birkir Þór Hauksson og Þorkell Ragnar Grétarsson spiluðu síðan nokkur lög í lokin. Bókin er gefin út af Forlaginu í samvinu við Skinney-Þinganes. Bókin er nú fáanleg í Gömlubúð, Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Þórbergssetri og Skaftafellsstofu.

Samtímaljósmyndun á Humarhátíð

FÍSL2017 nefnist stór ljósmyndsýning á vegum Félags Íslenskra samtímaljósmyndara sem opnuð verður í Miklagarði um Humarhátíðarhelgina. Sýningin verður í 4-5 rýmum hússins og þar sýna 22 listamenn nýleg verk ásamt verkum í vinnslu. FÍSL2017 verður opnuð föstudaginn 23. júní kl. 16:00. Á opnuninni munu Biggi Hilmars og María Kjartans flytja nokkur lög af plötu sinni sem væntanleg er seinna í sumar en María á auk þess verk á sýningunni. Einn Hornfirðingur, Sigurður Mar, er meðal sýnenda á FÍSL. Þar sýnir hann myndir sem eru hluti af verki í vinnslu sem hann kallar Ær. Í þessu verki veltir hann fyrir sér samskiptum mannsins og sauðkindarinnar og þeim sess sem þessi skepna hefur haft hjá Íslendingum í gegn um aldirnar. Sigurður sækir áhrif og viðfangsefni djúpt í menningu og sögu þjóðarinnar og síðasta verkefni hans, Sögur er byggt á sama grunni. Það eru fleiri tengingar við Hornafjörð á FÍSL2017 því Hallgerður Hallgrímsdóttir og Inga Sólveig Friðjónsdóttir hafa báðar átt heima á Höfn um tíma og eru í hópi þeirra listamanna sem eiga verk á sýningunni. FÍSL2017 verður opin til 13. ágúst.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.