Eystrahorn Fimmtudagur 23. júní 2016
25. tbl. 34. árgangur
www.eystrahorn.is
Fiskur og Fólk
Ljósmyndasýning Steinars Garðarssonar Fiskur & Fólk er fyrsta ljósmyndasýning hans og eru myndirnar teknar á níunda áratug síðustu aldar á Höfn. Steinar er borinn og barnfæddur Hornfirðingur eins og áður hefur komið fram í blaðinu. Aðal ljósmyndaefni Steinars hafa ætíð verið mannlífsmyndir og allt sem þeim viðkemur. Það er óhætt að segja að myndirnar eru sérstaklega áhugaverðar og ekki síður skemmtilegar.
Sýningin er í Stúkusalnum í austurenda Miklagarðs og verður opin til 10. júlí.
Söngtónleikar Nönnu Halldóru og Sólveigar
Nanna Halldóra Imsland og Sólveig Sigurðardóttir halda tónleika í Hafnarkirkju þriðjudaginn 28. júní.
Þær stöllur sungu saman í kór frá 7 ára aldri, fyrst í Barnakór Hornafjarðar og síðan í sönghópnum Vox Luminae. Árið sem þær fermdust fóru þær að syngja með Samkór Hornafjarðar og sungu þar oft einsöng auk þess að spila á hljóðfæri við ýmsar athafnir í kirkjunni. Þær hafa báðar lagt stund á söngnám
og sungið víða, bæði einar og með ýmsum hópum. Síðastliðinn vetur söng Nanna Halldóra með Kammerkór Egilsstaðakirkju, en Sólveig með Sönghópnum Fjárlaganefnd sem einmitt tók þátt í afmælishátíð hjá Hafnar- og Bjarnaneskirkju í síðasta mánuði. Tónleikarnir hefjast kl. Aðgangseyrir kr. 1.500.
20:00. Nanna Halldóra og Sólveig nýbúnar að syngja á tónleikum fyrir 15 árum
Skuggakosningar á Hornafirði
Undanfarið hefur Ungmennaráð Hornafjarðar unnið að framkvæmd skuggakosninga fyrir ungmenni, þær fyrstu á Íslandi. Munu þær fara fram þann 25. júní, samhliða alvöru forsetakosningunum. Kosningarétt hafa einstaklingar með lögheimili í sveitarfélaginu fæddir á árunum 1998-2003. Markmið verkefnisins er að auka dvínandi kosningaþátttöku ungs fólks, að kenna ungmennum sveitarfélagsins að kjósa, mynda sjálfstæðar skoðanir og auka áhuga á samfélagslegum málefnum, þar á meðal pólitík. Unnið verður úr niðurstöðunum og mun Ungmennaráð Hornafjarðar senda frá sér ítarlega skýrslu um allt ferlið sem önnur ungmennaráð um land allt geta nýtt sér við framkvæmd skuggakosninga í framtíðinni. Sem ungmenni tel ég ástæður fyrir dvínandi kosningaþátttöku ekki vera leti eða áhugaleysi, heldur er kunnáttan og fræðslan ekki til staðar. Fræðsla um pólitík er mikilvæg fyrir alla, en sérstaklega fólk sem er að kjósa í fyrsta skipti. Ekki að það
eigi að gefa ungmennum allt upp í hendurnar, heldur reyna að höfða til okkar og vekja áhuga áður en flokkar, og einstaklingar, til dæmis forsetaframbjóðendur þurfa á atkvæði okkar að halda. Ungt fólk verður að læra að taka upplýsta og sjálfstæða ákvörðun, og koma henni til skila með því að nýta kosningaréttinn til fulls. Við erum næsta kynslóð sem mun koma til með að taka þátt í allskonar kosningum í framtíðinni, og tel ég það mjög mikilvægt og í samræmi við fullkomið lýðræði að við kunnum og getum nýtt okkur kosningaréttinn okkar til hins ýtrasta. Að því sögðu hvet ég alla unglinga Hornafjarðar til að mæta á kjörstað á laugardaginn, á milli 12:00 og 20:00 (kjörstaðir í sveitunum opnir á öðrum tíma, auglýst seinna)og hjálpa okkur að setja gott fordæmi og sýna Íslandi að okkur er ekki sama, við höfum svo sannarlega rödd og við ætlum að láta í okkur heyra.
Þitt atkvæði skiptir miklu máli! Virðingarfyllst, Þórdís María Einarsdóttir Formaður kjörstjórnar Skuggakosninga 2016 og aðalmaður ungmennaráðs Hornafjarðar