Eystrahorn
www.eystrahorn.is
Fimmtudagurinn 19. júlí 2018
27. tbl. 36. árgangur
Kaffihús í Golfskálanum
Pallurinn góði í smíði. Arndís og Barði eru á innfeldu myndinni
Nú í byrjun sumars opnaði Cafe Tee í Golfskálanum við Silfurnesvöll. Þau sem reka kaffihúsið eru Arndís Lára Kolbrúnardóttir og sambýlismaður hennar Barði Barðason en þau komu til Hafnar fyrir um tveimur árum og líkar mjög vel hér. Þau höfðu alltaf haft kaffihúsa/bar draum og þegar þau sáu tækifærið að láta báða rætast létu þau slag standa. Kaffihúsið opnaði í byrjun júní og hefur Golfklúbbur Hornafjarðar byggt stóran
og góða pall við skálann sem mun nýtast gestum og golfurum á blíðviðrisdögum. Boðið er upp á hádegismat og léttar veitingar ásamt bar. Alltaf er hægt að fá nýbakaðar vöfflur og annað kruðerí. Þau hafa verið dugleg að halda allskonar viðburði svo sem pub-quiz, karaoke og tónleika. „Planið er að hafa viðburð einu sinni í viku út sumarið, hvort sem það eru spilakvöld, pub-quiz eða annað. Það verður þó lokað helgina 20. - 22 júlí en þá tökum
við okkur smá sumarfrí en fjótlega eftir það mun hornfirska hljómsveitinn Kla Kar halda tónleika á Cafe Tee“ segir Arndís. Arndís og Barði eru opin fyrir öllum uppástungum um viðburði og taka að sér veislur og aðrar uppákomur fyrir hópa. Cafe Tee er fyrir Hornfirðinga til að njóta góðrar stemningar og hafa það kosý.
Hrafnavellir Guesthouse
Um síðustu helgi opnaði gististaðurinn Hrafnavellir Guest House með þessu dásamlega útsýni yfir sléttuna vestan til í Lóninu. Eigendurnir Unnsteinn Steindórsson og Sigurjón Steindórsson og fjölskylda eru að vonum ánægð enda mikil vinna og tími farið í uppbygginguna. Þar með hefur bæst við gistiflóruna austan við Höfn. Gistihúsin eru 7 talsins, svo kölluð Jöklahús og 1 þjónustuhús sem er samsett
úr fjórum gistihúsum. Morgunverður er innifalinn í gistingunni. Eigendur þakka öllum þeim sem litu inn um helgina fyrir komuna, iðnaðarmönnum fyrir þeirra frábæra verk og öðrum sem að verkinu komu á einn eða annan hátt. Sérstakar þakkir fá fjölskylda og vinir sem lögðu hönd á plóg, þvílíkt bakland er ómetanlegt og aldrei full þakkað.
Næsta tölublað Eystrahorns kemur út þann 16. ágúst