Eystrahorn 32.tbl 2019

Page 1

Eystrahorn

www.eystrahorn.is

Fimmtudagurinn 12. september 2019

32. tbl. 37. árgangur

Alþjóðlegi Duchenne dagurinn Kæru Hornfirðingar Síðastliðinn laugardag þann 7. september var alþjóðlegi Duchenne dagurinn haldinn um allan heim. Það er gert í þeim tilgangi að vekja vitund og fræða fólk um þennan alvarlega vöðvarýrnunarsjúkdóm. Það er gríðarlega mikilvægt að fræða fólk um sjaldgæfa sjúkdóma og það hjálpar líka í baráttunni við að safna peningum fyrir rannsóknum á sjúkdómum. Hornfirðingar létu ekki sitt eftir liggja við að hjálpa okkur Ægi í tilraun minni til að vekja athygli á þessum degi. Auglýst var hópmyndataka á íþróttavellinum kl 18.00 á föstudeginum og mættu fjölmargir. Meistaraflokkar Sindra sem hafa staðið þétt við bakið á okkur fórnuðu hluta af æfingatíma sínum til að taka þátt og gáfu Ægi Þór meira að segja áritaðan bolta af bæði kvenna og karlaliði Sindra og vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir það fallega framtak. Síðan var tekin hópmynd af öllum í grænu Duchenne bolunum og einnig var tekin loftmynd þar sem allir höfðu stillt sér upp til að mynda orðið HOPE eða von því það er svo sannarlega vonin sem heldur okkur gangandi í baráttunni. Ægir mætti með spelkurnar sínar og lyfin sín til að sýna krökkunum hvað það er sem hann þarf að lifa við daglega og einnig höfðum við fengið lánað lóðavesti og handlóð frá Sporthöllinni

og þakka ég Kollu kærlega fyrir það. Það skapaði miklar og góðar umræður hjá krökkunum sem mættu og voru þau mjög áhugasöm og spurðu mikið. Einnig fannst þeim áhugavert að máta spelkurnar sem hann þarf að sofa með og prófa að ganga og hlaupa með lóðin á sér því þannig gátu þau sett sig í spor Ægis og hvernig það er fyrir hann að hreyfa sig alla daga, það jók skilning barnanna á því af hverju Ægir getur t.d. ekki hlaupið eins hratt og þau. Sem sagt í heildina var þetta algerlega frábært og vil ég þakka öllum kærlega sem tóku þátt og aðstoðuðu, það er svo sannarlega ekki sjálfgefið að hafa slíkan stuðning og mig langar að deila því

með ykkur að þetta vakti athygli víða um heim þar sem ég deildi þessu á erlendar Duchenne síður. Fólk átti hreinlega ekki til orð yfir þeim stuðningi sem við fengum og margir hafa beðið um að fá að nota myndina. Þið getið sannarlega verið stolt af ykkur og vitað að þið hjálpuðuð til við að vekja vitund um Duchenne víða um heim og það er ekki lítið. Það sýnir sig að hver og einn getur hjálpað og lagt sitt af mörkum til góðra málefna. Enn er ég orðlaus yfir samkenndinni og kærleiknum sem þið sýnið honum Ægi Þór og mun seint geta þakkað. Annars eru nýjustu fréttir af Ægi að við munum fara með hann í lok september til Svíþjóðar í svokallað screening ferli þar sem kannað er hvort hann sé gjaldgengur í klíníska tilraun þar sem hefst líklega í nóvember. Það mun svo skýrast fljótlega hvort hann komist þar inn og mun ég setja inn allar nýjustu fréttir á facebook síðunni : stuðningur fyrir Ægir Þór Sævarsson Með kærleikskveðju og innilegri þökk fyrir hlýhuginn Hulda Björk

Þakklæti

Laugardaginn, 7. september fór fram Flugslysaæfing 2019 á Hornafjarðarflugvelli. Æfð voru viðbrögð við alvarlegu flugslysi þar sem allar viðbragðseiningar á Höfn og nágrenni komu að, með einum eða öðrum hætti, auk þess sem aðgerðarstjórn í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi og Samhæfingarstjórn Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra voru virkjaðar. Samstarf eininga var til fyrirmyndar og tókst æfingin í heild sinni mjög vel. Alls tóku þátt í undirbúningi og viðamikilli æfingu yfir 150 manns, bæði á Höfn, Selfossi og Reykjavík. Reynt var á þolmörk þar sem mikill áhugi var á æfingunni og fjölmargir sjálfboðaliðar tóku þátt í að leika slasaða, og er þeim sérstaklega færðar hér þakkir fyrir frábært starf. Isavia Lögreglustjórinn á Suðurlandi Sveitarfélagið Hornafjörður


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.