Eystrahorn
www.eystrahorn.is
Fimmtudagurinn 13. október 2016
34. tbl. 34. árgangur
Sögur í Listasafni Svavars Guðnasonar Sigurður Mar ljósmyndari opnar ljósmyndasýninguna “Sögur í Listasafni Svavars Guðnasonar, föstudaginn 21. október. Á sýningunni mun Sigurður sýna myndir sem hann hefur unnið í ljósmyndabók sína “Sögur”. Myndirnar eru í þjóðsagnastíl enda hefur Sigurður Mar haft áhuga á þjóðsögum frá því að hann man eftir sér. Hann er alinn upp við trú á álfa og huldufólk á Miðhúsum í Egilsstaðahreppi, fæðingarstað Sigfúsar Sigfússonar þjóðsagnaritara. Hann hefur starfað við ýmisskonar ljósmyndun um árabil en lengst af sem fréttaljósmyndari. Þar er gjarnan miðað við að myndin geti staðið ein og sagt alla söguna án texta sér til stuðnings. Sigurður hverfur frá þessari reglu á sýningunni og í bókinni og myndirnar eru
augnablik í atburðarás sem enginn veit um hver er þannig að myndin segir alls ekki alla söguna. Innblástur að myndunum sækir Sigurður í Þjóðsögur og ævintýri, goðafræði og í náttúruna sjálfa en hann segir að margir staðanna sem myndirnar eru teknar á, hafi kallað fram ákveðnar kringumstæður sem hann hafi svo síðar fest á filmu. Gert er ráð fyrir að ljósmyndabókin “Sögur” komi út sama dag og sýningin verður opnuð. Bókin er óvenjuleg að því leyti að í henni eru engin orð heldur
aðeins ljósmyndir. Myndir sem gefa vísbendingar um aðstæður, atburði eða augnablik og skilja eftir spurningar sem lesandinn
verður að leita svara við hjá sjálfum sér og spinna upp sínar eigin sögur.
Mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir Hornafjörð Hornafjörður hefur notið góðs af fjölgun erlendra ferðamanna undanfarin ár, líkt og víða annars staðar. Ekki síst er það jökullinn og nágrenni hans sem laðar að, svo og bæjarlífið og einstæð staðsetningin. Fjöldi ferðamanna hefur til að mynda aldrei komist í návígi við fiskibáta eða fiskvinnslur. Það er léttara yfir mannlífinu, ný fyrirtæki verða til, margt af fólk á ferli og grundvöllur skapast fyrir margvíslega þjónustu sem tengist ferðamönnum og bæjarbúar og nærsveitamenn njóta góðs af. Þessara jákvæðu áhrifa ferðamannsins gætir víða um land. Ferðamaðurinn er mikilvæg lyftistöng fyrir landshlutana sem hann heimsækir og hann skilar þjóðarbúinu dýrmætum gjaldeyri. Á þessu ári er gert ráð fyrir að erlendir ferðamenn skili 440 milljörðum króna í gjaldeyristekjur og að ríkissjóður fái 70 milljarða króna af þeirri upphæð gegnum skatta og gjöld.
Þörf fyrir umræðu um uppbyggingu Í ljósi þessa mikla ávinnings af ferðaþjónustunni sætir furðu hvað lítil umræða hefur verið meðal stjórnmálamanna um aðgerðir til að tryggja eðlilega uppbyggingu ferðaþjónustunnar – okkur öllum til hagsbóta. Aðallega sýna talsmenn stjórnmálaflokkanna áhuga á því að ná meiri peningum af erlendu ferðamönnunum með gjaldheimtuhugmyndum. En það eru ekki fjármunir sem helst vantar, heldur aðgerðir til að tryggja þau tækifæri sem í ferðaþjónustunni felast til framtíðar. Ef ferðaþjónustan á að halda áfram að dafna og starfa í sátt við land og þjóð, þá gengur ekki lengur að stjórnmálin sitji hjá. Við getum ekki tekið við rúmlega tveimur milljónum ferðamanna á næsta ári með sóma nema ráðist verði í uppbyggingu innviða, fyrst og fremst með því að bæta samgöngur og auka öryggi
Grímur Sæmundsen
vegfarenda og gera úrbætur á vinsælum ferðamannastöðum. Ekki síður þurfa sveitarfélögin að fá nýjan tekjustofn til að mæta margvíslegum útgjöldum sem fylgja komu gestanna. Fundur með oddvitum flokkanna í Suðurkjördæmi
Til að upplýsa stjórnmálamennina um stöðuna og eiga samtal við þá standa Samtök ferðaþjónustunnar fyrir opnum fundum með oddvitum stjórnmálaflokkanna. Fundurinn fyrir Suðurkjördæmi verður haldinn á Hótel Selfossi
Helga Árnadóttir
mánudaginn 17. október næstkomandi kl. 20. Allir eru velkomnir og einnig verður bein útsending frá fundinum á vefsíðu SAF og upptaka af honum verður sýnd á sjónvarpsstöðinni N4. Nú er það okkar að nýta tækifærið og mæta á þessa fundi, taka samtalið, hlusta og meta. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.