Eystrahorn 35. tbl. 34. árgangur
Fimmtudagurinn 20. október 2016
www.eystrahorn.is
Á laugardaginn var frumsýndi Hornfirska skemmtifélagið sýninguna "Þannig týnist tíminn" fyrir troðfullu húsi á Hótel Höfn. Sýningin er tileinkuð 50 ára afmæli Hótels Hafnar og samanstendur hún af vinsælum íslenskum lögum frá árunum 1966 - 2016 í bland við gamanmál. Þetta er 15. árið í röð sem Hornfirska skemmtifélagið setur upp sýningar af þessu tagi á hótelinu og má því segja að þetta sé tvöföld afmælissýning. Þannig týnist tíminn verður sýnd næstu 4 laugardaga á Hótel Höfn. Mjög vel er bókað á allar sýningar en nokkrir miðar eru lausir á sýninguna nk. laugardag. Þeir sem ekki hafa þegar bókað miða á sýninguna ættu að hafa samband sem fyrst við Hótel Höfn í síma 478-1240 og tryggja sér miða.
Yndis-ævintýri á Hornafirði Háskólasetrið réð á dögunum til sín nýjann starfsmann, Arndísi Láru Kolbrúnardóttur sem verkefnastjóra ferðamála og kemur hún til með að sinna þar ýmsum verkefnum. Stærsta verkefnið sem stendur yfir þessa stundina kallast SAINT verkefnið og stendur fyrir „slow adventure in northern territories. Verkefnið byggir á nýlegri hugmyndafræði í ferðamennsku sem hefur verið að ryðja sér til rúms og snýst um að efla hæga ævintýraferðamennsku (e. Slow Adventure Tourism) til aðgreiningar frá ævintýraferðum sem oft einkennast af mikilli líkamlegri áreynslu, iðulega við áhættusamar aðstæður. Þessum hægari ævintýraferðum er ætlað að svala ævintýra- og útivistarþrá hjá ferðamönnum, en eru ekki jafn líkamlega krefjandi eða hættulegar. Slíkar ferðir leggja mikið upp úr upplifun ferðanna, það er náttúru, menningu, matvælum og öðru sem svæðið hefur upp á að bjóða. Þessi nýja hlið á ævintýraferðum grundvallast að miklu leyti á hugmyndinni um hæga
ferðamennsku (e. Slow Travel), þ.e. að fólk ferðist um á tiltölulega rólegum hraða og gefi sér virkilega tíma til að kynnast löndunum sem það heimsækir og njóti ferðarinnar þá betur. Hæg ferðamennska hefur verið útfærð á ýmsan hátt, s.s. í Citta Slow sem sveitafélagið Djúpivogur er til að mynda þátttakandi í og Slow Food hreyfingunni, sem ýmsir Hornfirðingar hafa tekið þátt í. Slow Food hefur verið nefnt „yndisbiti“ á íslensku (til aðgreiningar frá skyndibita) og því mætti kannski kalla Slow Adventure Tourism „Ævintýrayndisferðir“ eða „YndisÆvintýri“ á íslensku. Megintilgangur SAINTverkefnisins er að efla starf fyrirtækja og frumkvöðla á sviði (yndis-) ævintýraferða með fjórum aðferðum: (a) Með rannsóknum sem miða að því að finna mikilvægustu markhópana fyrir slíkar ferðir, (b) ráðgjöf um markhópamiðaða vöruþróun eða nýsköpun, (c) hagnýting nýjustu upplýsingatækni í þágu slíkrar vöruþróunar og (d) klasamyndun
bæði innan hvers lands og milli þátttökulanda, til sameiginlegrar markaðssetningar á YndisÆvintýrum eða „Slow Adventure“ ferðum á norðlægum slóðum. Verkefnið er sett upp til þriggja ára, með sjö þátttökuþjóðum: Skotland, Írland, Finnland, Svíþjóð, Noregur, Grænland og Ísland. Yfirumsjón verkefnisins verður í höndum University of Highlands and Islands í Skotlandi. Alls eru 13 fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu hér á Hornafirði sem ýmist bjóða upp á afþreyingu, mat eða gistingu. Þátttaka í fjölþjóðlegu verkefni sem þessu er mikilvæg fyrir hornfirsk fyrirtæki því þarna fá
þau bæði aðgang að stórum hópi fræðimanna á ýmsum sviðum, sem geta frætt þau um allt það nýjasta sem er efst á baugi ferðamálanna og tengdra greina þar fá þau líka tækifæri til að hitta og spjalla við frumkvöðla og ferðaþjónustuaðila frá ólíkum löndum og læra af þeim. Með þátttöku í slíkum verkefnum sköpum við ferðaþjónustunni á Hornafirði margvíslegt forskot á samkeppnisaðila innanlands, á sama tíma og við stuðlum að aukinni hæfni og fagmennsku hjá fyrirtækjum, auknu samstarfi á milli þeirra innbyrðis og bættum skilningi milli þeirra og stoðkerfisins.