Eystrahorn Fimmtudagurinn 14. desember 2017
41. tbl. 35. árgangur
www.eystrahorn.is
Listasmiðjur á Svavarssafni Barnastarf verður á laugardögum frá kl. 13-15 alls 5 skipti í vetur á Svavarssafninu. Aðaltakmarkið er að kynna fyrir börnum safnið og að þeim finnist þau vera velkomin þangað. Einnig á að kynna fyrir þeim mismunandi aðferðir við listsköpun, tjáningu í gegnum list og verk Svavars Guðnasonar. Smiðjurnar verða þó ekki bara tengdar honum heldur líka þeim sýningum sem eru hverju sinni í aðalsalnum. Um er að ræða smiðjur fyrir alla aldurshópa en þó er ætlast til að foreldrar fylgi yngstu börnunum og hjálpi þeim að vinna að sínum eigin sköpunarverkum. Hanna Dís Whitehead safnvörður og vöruhönnuður leiðir smiðjurnar. Fyrsta smiðjan var 3. desember síðastliðinn. Hún var tengd sýningunni sem stendur í aðalsalnum nú sem nefnist Leit að postulíni. Í tengslum við hana var leirsmiðja þar sem börnum var boðið upp á prófa sig áfram með mismunandi tegundir af
leir, jarðleir og steinleir. Börnin sem komu voru á aldrinum 3-12 ára og leiruðu meðal annars jarðleirspiparkökuskraut, skálar, hús og ýmsar furðuverur. Stefnt er að hafa tvær smiðjur í janúar. Önnur þeirra verður tengd fyrstu sýningu Svavars Guðnasonar í Haraldarbúð en hin meðal annars tengd yfirlitssýningu á myndum Bjarna Hinriksonar sem verður opnuð 19. janúar 2018. Þar verður unnið með tússliti og klippimyndir. Fjórða og fimmta smiðjan verða í febrúar, þar sem annarsvegar verður unnið með hugtakið abstrakt og að mála eftir tilfinningu og hinsvegar grímumyndir Svavars skoðaðar. Smiðjurnar verða auglýstar á facebooksíðum Svavarssafns og Menningarmiðstöðvar og hvetjum við alla til að fylgjast með þar. Þá má bæta við að enginn aðgangseyrir er inn á safnið allt árið um kring og allir velkomnir í heimsókn.
Söfnun fyrir tækjakaupum á HSU Hornafirði Heilbrigðisstofnunin þarf nauðsynlega að endurnýja stuðtæki og sírita fyrir heilsugæsluna og hjúkrunarheimilið. Stuðtækið sem nú er í notkun er komið til ára sinna og bíður ekki upp á þá möguleika sem stuðtæki á heilbrigðisstofnun þarf að bjóða uppá, eins og til dæmis möguleika á útvortis gangráð. Mikilvægt er að endurnýja þetta tæki sem fyrst. Við höfum hug á að kaupa Lifepack 20 tæki sem er á flestum deildum Landspítalans samskonar því tæki sem er í sjúkrabílnum. Einnig er nauðsynlegt að endurnýja sírita fyrir heilsugæslu og bæta við sírita á sjúkradeildina. Síriti er með stórum skjá sem sýnir hjartarit, blóðþrýsting, súrefnismettun, öndunartíðni og líkamshita í rauntíma. Mikilvægt til að fylgjast með mikið veiku fólki og geta brugðist fljótt og rétt við breytingum. Sjúkradeildin hefur ekki verið með sírita, en það kemur oft fyrir að þar liggja einstaklingar í eftirliti eða á meðan beðið er eftir sjúkraflugi, og ekki er síður mikilvægt að geta fylgst vel með lífsmörkum og gert viðvart ef eitthvað breytist.
Jólablað
Gert er ráð fyrir að þessi tæki kosti samtals um 3.500.000 kr án vsk. Vonum að líknarfélög, fyrirtæki og aðrir sjái sér fært að styrkja Heilbrigðisstofnunina til að auka gæði þjónustunnar og öryggi íbúa. Þeir sem vilja leggja verkefninu lið mega leggja fjárhæð inn á reikning Gjafaog minningasjóðs Skjólgarðs en reikningsnúmerið er 0169-26-4307, kt. 430796-2169. Með von um góð viðbrögð. F.h heilbrigðisstofnunarinnar Elín Freyja Hauksdóttir, læknir.
Eystrahorns
kemur út fimmtudaginn 21. desember Ef þið viljið birta jólakveðjur, auglýsingar eða annað efni, sendið á tjorvi@eystrahorn.is