Jólablað 2017 Tíminn líður, árin færast yfir, alla stund í hugarfylgsnum lifir minning björt um bernsku okkar jól. Húsið bjart og börnin smá á iði biðu aðeins þess að tíminn liði meðan snjórinn huldi sérhvern hól.
Jólasveinar ennþá frískir flakka og færa börnum undarlega pakka og kannske birtist jólakötturinn. Koma þessar gullnu gleðistundir, gleðibros og kærir vinafundir. Megi verða bjart um bæinn þinn.
Móða tímans vefur vegi farna en vonir kvikna enn í hjörtum barna því jólin koma enn sem áður fyrr. Enn er gleðin eins og forðum daga áfram heldur gömul jólasaga, ljósin tindra, tíminn stendur kyrr.
Birtan lýsi ykkar ævivegi og ykkur veiti styrk á hverjum degi, komi jól með kærleika og frið. Nýja árið verði mikils virði, vinarkveðjur nú frá Hornafirði og okkar beztu óskir sendum við. Guðbjartur Össurarson
Eystrahorn 42. tbl. • 35. árg. • fimmtudagur 21. desember
Mynd: Sóley Lóa Eymundsdóttir
Hafnarhittingur – hverjir vilja vera með? Fyrsti Hafnarhittingurinn var 5. desember síðastliðinn og tókst afar vel. Í gestabók skrifuðu 259 manns og 120 manns borðuðu kvöldmatinn sem var etinn upp til agna. Mikið líf og fjör var bæði í Heppuskóla og íþróttahúsinu allan tímann eins og sjá má á myndunum. 16. janúar stendur til að endurtaka leikinn og blása til annars Hafnarhittings. Af því tilefni bjóðum við áhugasömum aðilum sem vilja gera eitthvað sérstakt á hittingnum eða eru með hugmyndir að dagskrá að hafa samband. Allar ábendingar og tillögur eru vel þegnar og ef einhver vill vera með einhvern viðburð þá er hann hvattur til að hafa samband. Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við Þórgunni í síma 470-8400 eða á thorgunnur@ hornafjordur.is. Markmiðið með Hafnarhittingi er að efla bæinn okkar innan frá og fjölga tækifærum þar sem bæjarbúar sjálfir bjóða öðrum upp á nám, leik, hreyfingu, afþreyingu eða hverskonar samveru sem eflir andann og lætur fólki líða vel. Fyrir lítil samfélög eins og Höfn eða Austur-Skaftafellssýslu þá skiptir miklu máli að fólk fái uppfyllt sem flestar af sínum félagslegu þörfum í heimabyggð. Það þýðir ekki að allir geti gert allt sem þá langar til að gera
heldur frekar að allir geta gert nóg af því sem er nauðsynlegt fyrir þá til að uppfylla grunnþarfir sínar. Á þann hátt líður fólki vel í eigin skinni og er ánægt og sátt við lífið og tilveruna. Félagsleg sjálfbærni er einn megin tilgangur Hafnarhittings. Sjálfbærni má skipta í þrjú megin svið, stærst er umhverfið sjálft, jörðin og
himingeimurinn og allt sem því fylgir. Samfélagið er næst stærst en það er það umhverfi sem maðurinn hefur skapað sér innan náttúrunnar. Þriðji þáttur sjálfbærninnar er síðan hagkerfið sem er algerlega mótað af mönnunum sjálfum. „Hagkerfið
verður því að taka mið af þeim gildum sem móta gott samfélag og samfélagið er allt innan umhverfisins og hlýtur að laga sig að þeim reglum og lögmálum sem náttúran setur“ (Sjálfbærni -Grunnþáttur menntunar á öllum skólastigum. (Rvk. 2013). Á vetrarönn er sjálfbærni megið þema skólastarfsins í Grunnskóla Hornafjarðar og markmiðið er að auka smám saman hverskonar vinnu sem snýr að sjálfbærni. Umhverfisteymi skólans er mjög virkt og m.a. er unnið er að endurnýjun umhverfissáttmála skólans. Flokkun og fræðsla um náttúruna og umhverfisvernd eykst stöðugt og markmiðið er að nemendur okkar verði í fararbroddi
í umhverfismálum, ekki bara hér í sýslunni heldur á landinu öllu. Með þessa feikilega fallegu og sérstæðu náttúru allt í kringum okkur, sem er jafnframt undirstaða atvinnulífs bæði til sjós og lands, stöndum við ekki bara öðrum framar heldur berum við líka meiri skyldu til þess að vernda umhverfi okkar og ganga vel um það. Við þessar frábæru aðstæður viljum við leggja okkar af mörkum til að efla samfélagið okkar og bjóðum því öllum áhugasömum til að leggja sitt af mörkum á næsta Hafnarhittingi og hafa samband sem fyrst. Svo sjáumst við öll þriðjudaginn 16. janúar frá kl. 17:00-20:00.