Eystrahorn 44.tbl 2016

Page 1

Jólablað 2016

Eystrahorn 44. tbl. • 34. árg. • fimmtudagur 22. desember

Mynd Þorvarður Árnason

Tímamót

Tímamót eru margs konar. Þau geta haft varanleg áhrif á líf okkar hvers og eins. Tímamót geta einnig haft varanleg áhrif á líf heillar þjóðar eða þá alls mannkyns. Þannig var það þegar engill Drottins vitjaði barnungrar stúlku í Nasaret forðum og sagði henni að hún myndi fæða son sem „mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta.“ Og þegar drengurinn fæddist urðu svo stórkostleg tímamót í sögu mannkyns að tímatal okkar var síðar miðað við fæðingu hans. Og nú undirbúum við hátíðina þegar við minnumst þessara tímamóta. Við höfum miklar væntingar um jólin. Við viljum að allt verði fullkomið. Við sjáum fyrir okkur hinn fullkomna jólamat, heyrum fallegu jólalögin, samferðafólkið brosandi; allt svo gott og fullkomið. En hjá mörgum er þessi tími mjög erfiður vegna þess að eitthvað hefur skyggt á gleðina. Það kunna að vera veikindi eða andlát ástvinar, skilnaður, fátækt eða hvers konar erfiðleikar aðrir. En hvernig sem aðstæður okkar eru þá þurfum við að spyrja okkur þeirrar spurningar hvað koma Krists táknar fyrir okkar eigin aðstæður. Eitt af því sem gerir jólin svo stórkostleg er að það er ekki spurt um verðleika. Jesús Kristur óskar eftir því að fá rúm í hjörtum okkar hver sem við erum og hvað sem við gerum. Enginn annar en við sjálf getum hleypt honum þangað inn. Koma Krists í heiminn á hinum fyrstu jólum breytti heiminum. Á sama hátt breytir það lífi manna til batnaðar enn í dag að taka á móti Jesú Kristi og búa honum stað í hjarta sínu. Það er hlutverk aðventunnar að undirbúa komu Krists. Gjöf Guðs, Jesús Kristur, er fyrsta og besta jólagjöfin sem gefin hefur verið. Já, tímamót eru margs konar. Nú stöndum við Kristín á tímamótum og horfum til nýrrar framtíðar eftir rúmlega tveggja áratuga dvöl og starf í Hornafirði. Við viljum því tjá okkar dýpstu þakkir fyrir gott samstarf og ánægjuleg samskipti. Við förum héðan með góðar minningar um gott fólk og óskum Hornfirðingum alls hins besta. Megi kirkjustarf eflast með nýjum starfsmönnum í fylgd með Guði sem öllu ræður og stýrir. Guð gefi ykkur gleðilega jólahátíð. Sigurður og Kristín

Heims um ból

Á Hornafirði er áralöng hefð fyrir aðventutónleikum, þar sem tónlistarmenn í samfélaginu, ungir og aldnir, taka þátt og syngja inn jólin. Síðasta sunnudagskvöld var engin undantekning frá þessum fallega sið. Fimm kórar, lúðrasveit og hljóðfæraleikarar höfðu æft sín atriði vel. Að venju fylltist kirkjan af fólki, sem í leiðinni styrkti gott málefni með aðgangseyri við innganginn. Undirritaður tók eftir því að fyrir tónleikana settist aftarlega hópur fólks. Andlitin voru ókunn en ég komst að því að þetta voru ferðalangar sem voru komnir langt að. Gestirnir voru að sjálfsögðu velkomnir og einhvern veginn var það viðeigandi að aðventutónleikarnir væru nú farnir að trekkja að ferðamenn líka. Tónleikarnir voru hefðbundnir og hátíðlegir. Kirkjan ómaði öll undir fallegum tónum tónlistarmannanna. Í lokin stóðu kirkjugestir upp og sungu saman -Heims um ból-, alveg eins og alltaf. Þar sem ég stóð á kórpöllum tók ég eftir því að aðkomugestirnir tóku vel undir í lokasöngnum. En ég sá að varir þeirra mótuðu önnur orð en annarra. Þau sungu Heims um ból… á sínu tungumáli, af innlifun! Það var eitthvað svo fallegt og hjartnæmt við þessa sjón. Saman sungum við öll, frá mörgum heimshornum, sameinuð í fallegum söng... helg eru jól. Þetta kvöld voru í kirkjunni margir, sem ég hef skipst á skoðunum við síðustu misseri. Þarna voru framsóknarmenn, sjálfstæðiskonur og 3. framboðs fólk, Öræfingar, Hafnarbúar, Suðursveitungar, Nesja- og Lónmenn. Fólk sem ég hef verið sammála og ósammála í skoðunum í gegnum árin. Öll sungum við samt saman hástöfum: “…Heyra má himnum í frá, englasöng, hallelújá, friður á jörðu…” Við sameinuðumst í söngnum. Og stundin var heilög. Samsveitungar þurfa ekki og eru ekki alltaf sammála um öll málefni. Gleymum samt ekki að við ættum öll að geta verið vinir og félagar þrátt fyrir að hafa mismunandi skoðanir. Stundum gleymist það í þrasi og dægurmálum líðandi stundar. Þegar öllu er á botninn hvolft þá farnast okkur best þegar við stöndum saman sem samfélag. Alveg eins og kórarnir, tónlistarmennirnir og allir gestir kirkjunnar síðasta sunnudagskvöld. Gleðileg jól, farsælt komandi ár Sæmundur Helgason, kennari og formaður bæjarráðs


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.