Eystrahorn 1. tbl. 30. árgangur
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 5. janúar 2012
Gleðilegt nýtt ár!
Þorri (Þorvarður Árnason) tók þessa mynd á hlaðinu hjá sér á Hvannabrautinni þegar mest gekk á á gamlárskvöld.
Áramótapistill bæjarstjóra Mannfólkið má sín lítið í samanburði við reginöfl náttúrunnar. Á það vorum við rækilega minnt á árinu, fyrst þegar Grímsvötn gusu og seinna þegar hlaupið í Múlakvísl rauf hringveginn á háannatíma í ferðaþjónustu. Þessi tvö tilfelli sönnuðu líka hversu björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar eru okkur dýrmæt. Það var því ein af ánægjulegri stundum á árinu þegar sveitarfélagið og Björgunarfélag Hornafjarðar skrifuðu undir samstarfssamning sín á milli. Árið 2011 var gjöfult og margt bendir til þess að margir þættir samfélagsins séu farnir að þróast til betri vegar.
Vel heppnað íbúaþing Á annað hundrað íbúar komu saman á íbúaþingi í Mánagarði í febrúar og lögðu línur í margvíslegum málaflokkum, skrifuðu upp ábendingar um aðgerðir sem þarft er að ráðast í, settu fram hugmyndir um nýsköpun í atvinnu- og menningarmálum og fjölluðu um landnotkun í sveitarfélaginu til framtíðar. Síðan þá hefur verið unnið að því að koma áherslum íbúaþingsins í verk. Skammt er bíða þess að fólk verði kvatt saman til að fara
yfir stöðu verkefna og hvernig best verði haldið áfram að vinna að þeim. Eftirfarandi upptalning er ekki tæmandi en gefur hugmyndir um þau verkefni sem komin eru af stað í kjölfar þingsins: • Unnin hefur verið heildstæð áætlun um frágang á opnum svæðum, götum og gangstéttum og vinnu hrundið af stað. • Úrbætur við félagsheimili til sveita eru hafnar og verður haldið áfram á nýju ári. • Í skoðun er hvernig auka megi endurvinnslu með notkun 2ja tunna við hvert heimili og úrbótum við gámastöð. • Unnið er að úrbótum á fráveitum til að draga úr mengun. • Fjölbreytt verkefni í orkumálum er í deiglunni. • Rannsóknir standa yfir á innsiglingunni um Hornafjarðarós og því hvernig hægt er að auka öryggi þeirra sem þar fara um. • Unnið er að auknu námsframboði í samstarfi sveitarfélagsins og FAS með áherslu á list- og verkgreinar. • Í samstarfi við fyrirtækið Innovit hélt sveitarfélagið atvinnu- og nýsköpunarhelgi fyrir skömmu, til að ýta undir nýsköpun og
fjölga atvinnutækifærum, sem heppnaðist vel. • Unnið er að markvissri lýðheilsu- og forvarnarstefnu sem mun byggja á niðurstöðum heilsuþings sem haldið var í haust. • Annar áfangi var stiginn í gerð göngu- og hjólreiðastígs meðfram strandlengjunni á Höfn. • Lokið hefur verið við gerð deiliskipulags fyrir Hafnarvík – Heppu og fyrirhugaður er flutningur Gömlubúðar á sinn upprunalega stað auk þess sem er verið að skoða uppbyggingu hótels á svæðinu. Íbúaþingið heppnaðist vel. Sýnir að vel megi leita fjölbreyttra leiða við stjórnun sveitarfélaga með áherslu á aukna þátttöku íbúa í starfi þeirra. Á næsta ári er mikilvægt að sveitarfélagið bæti upplýsingagjöf til íbúa. Til að hægt sé að gera kröfur um virka þátttöku þurfa upplýsingar að liggja fyrir um mál sem til umfjöllunar eru hverju sinni, þannig að fólk hafi tækifæri til að kynna sér þau. Framhald á bls. 4