Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 2. febrúar 2012
5. tbl. 30. árgangur
Alltaf eitthvað að gerast í bæjarmálunum Blaðið hafði samband við Hjalta Þór Vignisson bæjarstjóra og innti eftir helstu fréttum af bæjarmálum; „Umræða um breytingar á stjórnkerfi bæjarins er komin í hámæli og bæjarráð ætlar að gefa sér tíma fram í lok febrúar til að ljúka þeirri umræðu. Ástæðan er margþætt, í fyrsta lagi eru auknar kröfur lagðar á herðar sveitarfélaga með nýjum sveitarstjórnarlögum um samráð við íbúa og upplýsingagjöf til þeirra ásamt fleiru. Einnig hafa málefni fatlaðra verið flutt til sveitarfélaga með þeirri auknu ábyrgð sem því fylgir frá því að í gildi var þjónustusamningur Hornafjarðar við ríkið. Sveitarfélagið axlar nú endanlega ábyrgð á þjónustunni og fyrirséð er að umgjörð um málaflokkinn taki miklum breytingum á næstu árum vegna ítarlegrar vinnu sem á sér stað á vegum velferðarráðuneytisins í málefnum sem snerta fatlað fólk. Þá hafa verið gerðar ítarlegar kröfulýsingar í samvinnu HSSA og velferðarráðuneytisins um rekstur heilbrigðis- og öldrunarmála í sveitarfélaginu. Halda þarf vel utan um upplýsingar um gæði og þjónustumagn HSSA til að uppfylla kröfulýsingarnar. Einnig hefur verið ákveðið að efla heimaþjónustu enn frekar, með aukinni samvinnu HSSA og félagsþjónustunnar um frekari liðveislu, heimaþjónustu og heimahjúkrun. Nú hefur komið fram ósk frá skólastjórnendum í sveitarfélaginu um að stuðningur við skólastarf í sveitarfélaginu verði aukinn og bættur. Svo eru alltaf fjölmörg sígild mál uppi á borðum hjá okkur.“ Sagði Hjalti Þór að lokum.
Bæjarstjórn 2010 - 2014
Rafrænt skref í umhverfisvæna átt Álagningaseðlar fasteignagjalda verða sendir út rafrænt frá og með árinu 2012. Einnig er verið að undirbúa að allir reikningar sveitarfélagsins verði rafrænir. Sveitarfélagið hefur ákveðið að allir reikningar útgefnir af sveitarfélaginu verði sendir út rafrænt í framtíðinni. Í stað þess að prenta út seðlana munu reikningarnir vera aðgengilegir á vefsíðunni island.is. Með þessu skrefi
er lögð áhersla á verndun umhverfisins og um leið náð fram hagræðingu en árlega sendir sveitarfélagið um 10.000 greiðsluseðla. Árlegur sparnaður er áætlaður um 1 m.kr. sem helgast af því að dregið verður úr prentunar- og pappírskostnaði, umslagakaupum ásamt póst- og sendingarkostnaði. Fjármála- og framkvæmdasvið svara öllum upplýsingum er málið varðar.
Fólk ekki að gefast upp
Fundarmenn voru ekki á þeim buxunum að leggja Humarhátíð niður.
Það var hress hópur sem mætti í Nýheima á þriðjudagskvöldið til að ræða framtíð Humarhátíðarinnar og ekki var neinn uppgjafartónn í mannskapnum. Eftir framsögur Friðriks Jónasar formanns Björgunarfélagsins og Valdimars framkvæmdarstjóra Sindra var skipt í umræðuhópa sem skiluðu tillögum og hugmyndum um betri hátíð. Umræður voru hreinskiptar og bent á það sem betur má fara. Meðal annars komu fram ýmsar hugmyndir um breytta tímasetningu og virtust flestir tilbúnir að skoða það. Sömuleiðis voru flestir sammála um að sveitarfélagið yrði að vera afgerandi þátttakandi beint og með ýmsum stuðningi. Áhersla var lögð á að Humarhátíðin væri fjölskylduhátíð og markhópurinn heimamenn, brottfluttir Hornfirðingar, vinir þeirra og gestir. Margar áhugaverðar tillögur komu fram m.a. um meira og fjölbreytt námskeiðahald þar sem afraksturinn væri sýndur á hátíðinni. Ein hugmyndin var að gera vef um hátíðina þar sem fólk getur komið með hugmyndir og sömuleiðis skráð sig með atriði. Á þann hátt væri hægt að segja að „fólkið“ hafi skipulagt hátíðina og jafnframt væri þetta leið til að ná til unga fólksins en það var svolítið áberandi að það vantaði unga, hressa og spræka fólkið á fundinn.
Íslandsmótið verður föstudaginn 3. febrúar kl. 20:00 á Höfninni við Geirsgötu.