Eystrahorn 12. tbl. 2015

Page 1

Eystrahorn 12. tbl. 33. árgangur

Vísindatorg í Nýheimum

Fimmtudagur 26. mars 2015

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Afmælisár Framtíðarinnar

Föstudaginn 27. mars verður Menntalest Suðurlands á ferðinni í Nýheimum með vísindakynningu frá kl. 9:00 – 12:00. Markmið viðburðarins er að auka áhuga á raunvísindum.

Dagskrá kynningarinnar: Eðlisfræði Leikur að ljósi og hljóði, tilraunavísindi og óvæntar uppgötvanir. Kristbjörg Anna Þórarinsdóttir, eðlisfræðinemi og starfsmaður Vísindasmiðju kynnir.

Efnafræði Efni í efnafræðing? Efnilegar blöndur leiða ýmislegt í ljós. Katrín Lilja Sigurðardóttir, stundakennari við HÍ og forsprakki Sprengjugengisins kynnir.

Forritun Frábær áskorun - forritun er málið. Martin Swift, eðlisfræðikennari og starfsmaður Vísindasmiðjunnar kynnir.

Jarðvísindi Hvað er að gerast undir fótunum á þér? Snæbjörn Guðmundsson, doktorsnemi og starfsmaður Vísindasmiðjunnar kynnir.

Verkfræði Viltu smíða kappakstursbíl? Við hjálpum þér. Aðalheiður Guðjónsdóttir félagi í smíði kappakstursbíls (TeamSpark) kynnir. Nemendum, gestum og gangandi gefst tækifæri til að skoða, fikta, prófa og spyrja um forvitnilega hluti. Íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til að líta við og kynna sér skemmtilega dagskrá.

Síðastliðið ár varð Slysavarnadeildin Framtíðin 60 ára. Deildin var stofnuð 7. febrúar 1954 og stofnfélagar voru 40 talsins. Í dag eru félagskonur á annað hundrað. Í tilefni afmælisins héldum við afmælisfagnað á Hótel Höfn og hafa okkur borist margar góðar gjafir frá velunnurum félagsins og viljum við þakka kærlega fyrir þær. Á þessu 60 ára tímabili er margs að minnast og af mörgu að taka. Hlutverk deildarinnar er fyrst og fremst að standa þétt við bakið á björgunarsveitunum okkar. Fyrstu verkefni deildarinnar var að auka björgunartæki á staðnum, þar á meðal björgunarskýli á Austurfjörum, með nauðsynlegum búnaði svo sem góðri hitunaraðstöðu, ullarfatnaði og björgunarbát. Þetta tókst allt með aðstoð góðra manna. Síðar kom svo skýlið á Suðurfjöru, símar á bryggjuna og fleira. Það er hreint ótrúlegt hvað þær konur sem ruddu veginn lögðu á sig til að afla fjár. Þær voru með kaffisölu í gamla bíóinu og til að láta það ganga upp, hituðu þær vatnið heima og báru það svo sjóðandi heitt út í bragga, þar sem gamla bíóið var. Í dag eru einnig fjáraflanir fyrir deildina. Við seljum línuna, candy floss, laufabrauð, sjómannadagsmerki og Bláa naglann. Á sumardaginn fyrsta seljum við kaffi í húsinu okkar sem við fengum 1975. Með tilkomu hússins breyttust aðstæður töluvert. Þar komum við saman, skemmtum okkur, fundum og ýmislegt annað. Strákarnir og stelpurnar okkar eru með okkur þarna og gengur sambúðin oftast nær bara vel. Við erum fyrst og fremst forvarnarfélag. Í gegnum árin höfum við gefið heilmikið af allskonar búnaði sem hefur forvarnarlegt gildi og

á að minnka hættu á slysum. Þar má m.a. nefna hraðahindrun á Hafnarbrautinni, hraðamælinn við Mjólkurstöðina og umferðaspegil á Vesturbraut/ Kirkjubraut. Við höfum heimsótt eldri borgara og aðstoðað þá við að fjarlægja slysagildrur á heimilum, gefið 5. bekk hjólahjálma og fært nýburum fingravini. Við höfum gefið skiptiborð í sundlaugina, sjúkrakassa, hjartastuðtæki og margt fleira. Við tökum árlega þátt í umferðakönnunum og athugum öryggi barna í bílum. Jafnframt tökum við þátt í fleiri verkefnum í samstarfi við Slysavarnafélagið Landsbjörg. Auk þessa tökum við þátt í slysaæfingum eins og hópslysa- og stórslysaæfingum. Á afmælisárinu gáfum við Björgunarfélaginu tölvur í bílinn og stjórnstöð. Það leiðir það af sér að Björgunarfélagið Kári í Öræfum fær eldri búnaðinn. Við erum líka búnar að gefa vilyrði fyrir gjöf til Kára í Öræfum um að kaupa Tetrastöð og GPS tæki í Drekann. Einnig gáfum við klemmuvarnir á báða leikskólana hér á Höfn. Það er margs að minnast bæði gleði og sorgar í okkar félagsskap. Þetta er góður félagsskapur, frábærar félagskonur sem alltaf eru tilbúnar að aðstoða ef með þarf. Aðalfundur félagsins verður haldinn í húsi félagsins, laugardaginn 28. mars 2015 klukkan: 11.00. Boðið verður upp á léttan hádegisverð. Allar konur hjartanlega velkomnar, hlökkum til að sjá ykkur. Með kærri þökk fyrir frábært samstarf við ykkur bæjarbúa, sem hafið ávallt stutt okkur vel í gegnum árin. Sigríður Lárusdóttir formaður

Næsta Eystrahorn kemur út miðvikudaginn 1. apríl. Þess vegna þarf efni og auglýsingar að berast blaðinu fyrri kl. 12:00 mánudaginn 30. mars.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.