Eystrahorn
13. tbl. 33. árgangur
www.eystrahorn.is Gleðilega páska
Miðvikudagur 1. apríl 2015
Heiðursfélagi og íþróttamaður USÚ Hreinn Eiríksson heiðursfélagi USÚ
María Birkisdóttir íþróttamaður USÚ 2014
María hvílir lúin bein eftir erfitt hlaup í keppni við Anítu Hinriksdóttur.
Á ársþinginu var íþróttamaður USÚ árið 2014 útnefndur og þar að auki fengu þrjú ungmenni sem þótt hafa staðið sig vel á árinu viðurkenningu og hvött til áframhaldandi velgengni. Íþróttamaður USÚ árið 2014 er María Birkisdóttir. María er fædd árið 1995. Hún hefur stundað íþróttir alla ævi, bæði knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Fyrir fáum árum ákvað hún að einbeita sér að frjálsum enda þá orðin efnileg í hlaupum. Það þarf mikla elju og sjálfsaga til að stunda frjálsar á Hornafirði í litlum árgöngum. Maríu hefur tekist það og oft hefur hefur hún verið ein í árgangi. Nú um síðustu áramót tók María þá ákvörðun að skipta yfir í ÍR þar sem hún nýtur leiðsagnar færustu frjálsíþrótta- og hlaupaþjálfara landsins. Á 50. ársþingi USÚ, árið 1982, var fyrsti heiðursfélagi USÚ, Torfi Steinþórsson á Hala í Suðursveit, útnefndur. Eftir því sem stjórnin kemst næst, hefur það ekki verið gert síðan, og hefur því Torfi heitinn verið eini heiðursfélagi USÚ til þessa. Stjórninni fannst kominn tími til að útnefna annan heiðursfélaga og strax kom upp eitt nafn í því samhengi. Hreinn Eiríksson. Greint var frá þessu á 82. ársþingi USÚ í Mánagarði, 26. mars sl. Hreinn er fæddur þann 10. mars 1931 og ólst upp á Miðskeri í Nesjum og hefur alla tíð verið mikill Mánamaður. Aðspurður hafði hann ekki tölu á því hversu lengi hann var í stjórn Mána en mundi þó eftir að hafa verið formaður þegar húsið sem ársþingið fór fram í, Mánagarður, var vígt árið 1952. Hann sagðist þó vera nýlega hættur í sóknarnefnd Bjarnaneskirkju, eftir um 40 ára setu. Hreinn var mikill íþróttamaður á sínum yngri árum, líkt og systkini hans. Eitt er það þó sem mörg ungmennafélög hafa sem íþróttafélög hafa fæst, en það er allt hitt starfið sem fram fer í félögunum. Hreinn hefur alla tíð verið mikill framámaður í leikhópi Mána, sem glöggt má sjá vitni um í grein hans í nýjasta tölublaði héraðsritsins Skaftfellings. Síðast setti leikhópurinn upp Fiðlarann á þakinu á 100 ára afmæli Mána árið 2007, og var þá Hreinn í stóru hlutverki. Hreinn hlaut starfsmerki UMFÍ árið 2007. Hreinn sat í stjórn USÚ á árunum 19601965 og aftur 1972-1976, þar af sem formaður 1963-1965. Hreinn gat því miður ekki mætt sjálfur og tekið við viðurkenningunni. Hann bað fyrir kærar kveðjur til allra sem hann hefur unnið með í gegnum árin. Regína, dóttir Hreins tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.
Helstu afrek Maríu á árinu 2014 voru þessi: • Íslandsmeistari 18-19 ára í 800 m og 1500 m hlaupi úti og inni. • Íslandsmeistari í 800 m og 5000 m hlaupi í fullorðinsflokki. • Annað sæti í 10 km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu. • Fast pláss í landsliðshóp FRÍ. María er góð fyrirmynd og hefur sýnt að hægt er að ná eftirtektarverðum árangri með góðri ástundun og heilbrigðum lífstíl.
Hvatningarverðlaun hlutu: Ingibjörg Lucía Ragnarsdóttir, fædd 1998, fyrir góðan árangur í knattspyrnu en Ingibjörg hefur keppt fyrir U17 landslið kvenna ásamt því að vera fastamaður í æfingahóp landsliðsins. Ingibjörg Valgeirsdóttir, fædd 1998, fyrir góðan árangur í knattspyrnu en Ingibjörg er efnilegur markmaður. Hún hefur keppt fyrir U17 landslið kvenna líkt og nafna hennar og sömuleiðis verið fastamaður í æfingahóp landsliðsins. Gísli Þórarinn Hallsson, fæddur 1999, fyrir góðan árangur í körfubolta og knattspyrnu en hann hefur verið í æfingahópi hjá U16 landsliðinu í körfubolta og Gísli er jafnframt efnilegur markmaður í knattspyrnu.