Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 13. nóvember 2014
39. tbl. 32. árgangur
Mælingar á Heinabergsjökli Fimmtudaginn 23. október fóru nemendur í umhverfis- og auðlindafræði ásamt tveimur kennurum að Heinabergsjökli til að mæla jökulinn en það hefur verið fastur liður í skólastarfi FAS um langt skeið að fylgjast með breytingum á jöklinum. Fyrir ferð er nemendum skipt í hópa og hefur hver hópur ákveðið hlutverk. Það er gert til að vinna á vettvangi gangi sem best. Að þessu sinni voru einnig með nemendur í kvikmyndagerð ásamt kennara sínum. Nokkuð erfitt er að mæla Heinabergsjökul þar sem lón liggur fram við jökulsporðinn og því ekki hægt að komast að honum með málband. Þá ber einnig að hafa í huga að jöklar sem ganga fram í lón geta tekið örari breytingum frá ári til árs en jöklar sem liggja fram á láglendið. Vegna þess að ekki er hægt að mæla jökulinn beint er brugðið á það ráð að nota hornaföll til að mæla út lengd frá ákveðnum punkti að jökli. Þessar mælingar verða ekki eins nákvæmar eins og þegar hægt er að ganga beint að jökulsporði en gefa þó ákveðna vísbendingu. Mælingar við Heinabergsjökul eru gerðar út frá tveimur föstum mælilínum sem liggja upp á jökulruðningunum. Nyrðri línan er nálægt miðju jökulsins en sú syðri er ekki langt frá þeim stað þar sem lónið fellur í Kolgrímu. Síðustu daga hefur verið unnið úr niðurstöðum. Samkvæmt þeim hafa
orðið mismiklar breytingar á jöklinum frá því í fyrra. Við nyrðri línuna hefur jökullinn gengið töluvert fram frá því eða sem svarar u.þ.b. 700 metrum. Við syðri mælilínuna þar hefur jökullinn hopað um 40 metra. Þó niðurstöður í mælilínunum beri með sér að Heinabergsjökull sé að ganga fram fremur en að hopa þá er þó greinilegt að jökullinn er að þynnast því að geil sem myndaðist fyrir nokkrum árum stækkar stöðugt. Því má segja að þrátt fyrir mæliniðurstöður um framskrið þá megi einnig greina merki um
rýrnun og hop. Niðurstöður jöklamælinga eru sendar til Jöklarannsóknafélags Íslands en þar er safnað saman breytingum á jöklum á milli ára. Á vefnum spordakost.jorfi.is/ er hægt að fylgjast með breytingum á öllum þeim jöklum sem eru mældir. Þá má skoða myndband um ferðina á slóðinni https:// www.youtube.com/watch?v=OwRpLGadS1w &feature=youtu.be Eyjólfur Guðmundsson Hjördís Skírnisdóttir
Leið til árangurs Leið til árangurs er verkefni sem bæjarstjórn, skólayfirvöld, starfsfólk leik- og grunnskóla og foreldrar á Hornafirði hafa sameinast um. Markmið verkefnisins er að bæta námsárangur nemenda í skólum sveitarfélagsins með reglubundnu mati í lestri og stærðfræði og markmiðsbundnum aðgerðaáætlunum byggðum á niðurstöðum hverju sinni. Fyrirmyndin er sótt til Reykjanesbæjar en þar hefur árangur nemenda m.a. á samræmdum prófum aukist umtalsvert eftir að verkefnið hófst þar árið 2010. Ákvörðun um Leið til árangurs var tekin sl. vor og nú í haust hafa staðið yfir lærdómsheimsóknir stjórnenda, umsjónarkennara, deildarstjóra fleiri lykilstarfsmanna til kollega sinna í Reykjanesbæ. Þann 7. nóvember sl. var svo haldinn starfsdagur starfsmanna leik- og grunnskóla Hornafjarðar í Reykjanesbæ þar sem starfsfólkið sótti fjölbreytta kynningar- og fræðslufundi hjá sérfræðingum fræðsluskrifstofu bæjarins og skóla í sveitarfélögum á Suðurnesjum. Ferðin heppnaðist vel í hvívetna og fólk kom heim með margar góðar hugmyndir í farteskinu sem gagnast munu í vinnunni sem framundan er hjá okkur. Ragnhildur Jónsdóttir, fræðslustjóri
www.hornafjordur.is - samfélagsvefurinn okkar