Eystrahorn 40. tbl. 2014

Page 1

Eystrahorn

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Fimmtudagur 20. nóvember 2014

40. tbl. 32. árgangur

Vel sóttur íbúafundur á Höfn Um eitthundrað manns mættu á íbúafund sem var haldinn á Hótel Höfn 13. nóvember þar sem Víðir Reynisson deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Magnús Tumi Guðmundsson prófessor frá Jarðvísindastofnun, Halldór Björnsson frá Veðurstofunni, Þorsteinn Jóhannsson frá Umhverfisstofnun og Þórólfur Guðnason frá Embætti Sóttvarnalæknis fóru yfir ástand mála vegna eldgossins í Holuhrauni. Í máli Magnúsar Tuma kom m.a. fram að ekkert er hægt að segja til með vissu um framvindu mála en þrír möguleikar eru þó taldir líklegastir. Að gosið í Holuhrauni fjari fljótlega út og öskjusig í Bárðarbungu hætti. Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gosið í Holuhrauni verður langvinnt eða vex. Mögulegt er að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annars staðar undir jöklinum. Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubrotinu. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi. Öskufall gæti orðið nokkurt. En ekki hægt að útiloka aðra möguleika. Halldór Björnsson greindi frá spálíkönum Veðurstofunnar og sagði mikilvægt að fylgjast með þeim á heimasíðu Veðurstofunnar www.vedur.is/vedur/spar/ gasdreifing. Þegar spá um mengun liggur fyrir á svæðinu er hins vegar mikilvægt að fara inn á síðu Umhverfistofnunar www.ust.is/einstaklingar/loftgaedi þar sem upplýsingar um loftgæði eru settar inn af beintengdum loftgæðamælum. Sú mengun sem kemur með gosmekkinum er aðallega SO2 .sem oft er kölluð blámóða.Verstu mengunartoppar eru í kjölfar hægviðris þegar vind herðir í ákveðna átt og getur vindurinn þá blásið uppsöfnuðum skammti yfir byggð. Þorsteinn Jóhannsson sagði í erindi sínu að mestu skammtímatopparnir vegna mengunar frá Holuhrauni hafi komið á Höfn þar sem gildi mældust allt að 20.000 µg/ m3 26. október á Höfn en ekki hefur mælst svona hátt gildi í byggð áður. Næst hæsta gildi er 5.800 µg/m3 1. október Reykjahlíð. Eftir að mælir kom á Höfn hefur þó lítið mælst. Þótt lítil mengun hafi mælst undanfarið er mikilvægt að vita hvernig best er að bera sig að þegar hún stendur yfir. Gott ráð er loka öllum gluggum og hækka í ofnum, taka 5 gr. af venjulegum matarsóda og leysa upp í 1 lítra af vatni, bleytið með þunnum klút eða tusku og vindið mesta vatnið úr þannig að ekki leki

vatn úr. Gott er að festa þennan raka klút upp á einhverskonar grind eða nálægt ofni, þó ekki á ofninn. Til að klúturinn haldi virkni sinni þarf hann að vera rakur og gott er að halda rakastiginu við með því að úða á hann vatni t.d. úr blómaúðabrúsa. Besta ráðið er að halda sig innan dyra og fylgja fyrrgreindum upplýsingum. Klútar eða rykgrímur gagnast ekki en ef vætt í matarsódalausn gera klútar eða grímur gagn í einhverjar mínútur, blaut gríma gagnast ekki. Þórólfur Guðnason frá Embætti Sóttvarnarlæknis greindi frá hvaða áhrif mengun frá gosinu hefur á heilsuna. Þegar einstaklingur andar að sér þá sogast 85% frá í nefi og efri öndunarvegi og fer inní blóðrásina og umbreytist í lifrinni og skolast út með þvagi. Það verður engin uppsöfnun í líkamanum né skaði á líffærum þar sem ekki um fituleysanlegt efni er að ræða. Ef brennisteinsdíoxíð kemst í lungu í miklu magni er hætta á astmaeinkennum og lungabjúg, sérstaklega hjá þeim sem hafa undirliggjandi lungnasjúkdóma. Við útivinnu er mikilvægt er að fara eftir reglum um heilsuverndarmörk en Vinnueftirlitið miðar við að hætta skuli útivinnu ef gildi ná 2.600 µ/m3 í 15 mínútur, eða tryggja notkun öndunargríma. Skammtímaáhrif 15.

mín. brennisteinsdíoxíð koma strax fram og hverfa fljótt, en fari gildi yfir 350 µ/m3 er hætta á ertingu í augum, nefi og kok jafnvel höfuðverk. Fari gildi brennisteinsdíoxíð yfir 500-600 µ/m3 getur það valdið hósta (og astma) erfitt er að alhæfa því mismunandi er hve einstaklingar eru næmir fyrir áhrifum mengunar. Fari gildi yfir 2.600 µ/m3 eru einkenni líkleg til að koma fram hjá flestum eða öllum. Alvarleg einkenni eru ólíkleg hjá heilbrigðum undir 9. 000 µ/m3 en brennisteinsdíoxíð getur orðið lífshættulegt ef gildin geta náð 100.000-150.000µ/m3. Langtímaáhrif eru líklega lítil sem engin hjá heilbrigðum einstaklingum. Ekki er óyggjandi munur á börnum og fullorðnum en börn anda oftar en fullornir og nota síður nefið til að anda því ætti að gæta vel að þeim og halda þeim inni á meðan mengun stendur yfir. Einnig eru fræðsluupplýsingar yfir foreldra og börn á heimasíðu Umhverfistofnunar ust.is. Á heimasíðu sveitarfélagsins eru samandregnar upplýsingar frá hinum ýmsu stofunum um eldgosið einnig má finna þar upplýsingar á ensku og pólsku.

hornafjordur.is/gosupplysingar

Jólablað Eystrahorns kemur út 18. desember


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.