Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 27. nóvember 2014
41. tbl. 32. árgangur
Gjafir til Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands Það ríkir mikil og góð velvild í garð Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands. Nú undanfarið hefur okkur borist töluvert að gjöfum sem okkur langar að segja frá um leið og við viljum færa þeim aðilum kærar þakkir fyrir þessar frábæru gjafir. Hirðingjarnir á Hornfirði gáfu gjafir að verðmæti 800.000 krónur en þær nýttust til kaupa á sjónvarpi á hjúkrunardeildina ásamt því að keypt voru 3 borð og 4 stólar sem munu prýða hjúkrunardeildina. Kvenfélagið Vaka gaf heilbrigðisstofnuninni tvær spjaldtölvur sem munu nýtast vel í starfsemi á hjúkrunardeildinni. Nú undanfarið hefur ný tækni verið að ryðja sér inn í daglegt líf landsmanna og viljum við á HSSA ekki sitja eftir. Það er því verið að tækjavæða stofnunina með það að markmiði að auka við afþreyingarmöguleika íbúa ásamt því að tengjast betur umheiminum. Kiwanesklúbburinn Ós gaf sendiboðtæki í sjúkrabíl HSSA. Senditækið gerir það mögulegt að senda rafrænt hjartalínurit úr Lifepack tæki sjúkrabíls til læknis til úrlestrar. Þetta flýtir fyrir greiningu og meðferð sjúklinga og eflir öryggi þeirra. Gjafa- og minningasjóður Skjólgarðs hefur ávallt stutt vel við stofnunina en sjóðurinn er fjármagnaður með frjálsum framlögum einstaklinga og með sölu minningakorta. Nú í vor fjármagnaði sjóðurinn rafvæðingu minningarkorta en nú er hægt að kaupa minningakortin beint á heimasíðu HSSA, www. hssa.is og fara greiðslur í gegnum millifærslu í banka eða með kreditkorti. Þetta bætir aðgengi til muna að minningarkortunum. Gjafasjóðurinn gaf stofnuninni nú á dögunum súrefnisvél með rafhlöðu sem gerir einstaklingum sem þurfa á súrefni að halda mögulegt að ferðast á milli staða á auðveldari hátt en áður var. Einnig gaf sjóðurinn MaxiTwin seglalyftara en slíkur lyftari auðveldar starfsfólki umönnun til muna. Að lokum voru keyptar 2 spjaldtölvur til viðbótar sem munu nýtast dagdvöl aldraðra og dvalarheimili HSSA í Mjallhvít.
Viltu gerast lestrarvinur? Grunnskóli Hornafjarðar hefur lagt aukna áherslu á lestur og lestrarþjálfun meðal nemenda sinna á síðustu misserum. Þetta er gert í samstarfi við foreldra nemenda og hafa undirtektir allra aðila verið mjög góðar. Fyrstu skimanir vetrarins hafa þegar sýnt verulegar framfarir í lestri meðal nemenda skólans. Í fyrravetur gekk skólinn til samstarfs við Félag eldri Hornfirðinga um að áhugasamir félagar kæmu í skólann og settust niður með nemendum og hlustuðu á þá lesa. Flestar vikur vetrarins komu tveir til sex einstaklingar í heimsókn á yngra stiginu og biðu nemendur spenntir eftir því að fá að lesa fyrir lestrarvini sína. Þessir aðilar fá bestu þakkir fyrir að liðsinna unga fólkinu í skólanum á þennan hátt. Með pistli þessum er vakin athygli á því að í skólanum er rými fyrir fleiri aðila til að hlýða á nemendur lesa og ræða við þá um efni þess sem lesið er.
Lestrarvinirnir hafa aðeins heimsótt yngra stig skólans fram að þessu en stefnt er að því að gefa nemendum á eldra stigi færi á að fá þessar skemmtilegu og hjálplegu heimsóknir líka. Liður í þessu samstarfi er einnig sá að auka á samskipti yngri og eldri íbúa samfélagsins okkar. Þeir sem áhuga hafa á að gerast lestrarvinir, bæta lestrarkunnáttu barnanna í samfélaginu okkar og hafa tíma aflögu eru velkomnir í skólann til að ræða við skólastjórana þær Huldu og Eygló, og fá nánari upplýsingar. Lestrarvinirnir hafa engar skuldbindingar um mætingu. Í skólanum er sett upp tímaáætlun fyrir lesstundir og lestrarvinirnir koma og láta lesa þegar þeim hentar. Lestrarvinir koma þannig inn í venjulegan skóladag og eru hrein viðbót við hann, þannig að ef fólk af einhverjum ástæðum kemur ekki breytir það engu fyrir dagskrá skólastarfsins. Að lokum
eru hér nokkur orð um lestur. Lestur er ekki eðlislægur, meðfæddur eiginleiki, heldur lærð aðgerð og að því leyti gjörólíkur því að læra að tala. Lestur og ritun eru hugvit mannsins og menning læsis hefur aðeins fylgt hluta mannkynsins, til lengri tíma litið. Flest börn læra að lesa án sérstakrar fyrirhafnar og sum að því er virðist nánast áreynslulaust. Fyrir önnur verður lestrarnámið fyrirhafnarmeira. Starfsfólk skóla sér í flestum tilfellum um að leggja grunn að lestrarnámi barna og mikið er lagt upp úr því að heimilin séu þátttakendur í að æfa það sem nemendur læra í skólanum. Hvort sem lestur gengur auðveldlega hjá nemendum eða erfiðlega þá er æfingin lykilatriði í lestrarnáminu og er það þessi æfingaþáttur sem við viljum efla með aðstoð ykkar sem viljið gerast lestrarvinir.
Jólablað Eystrahorns kemur út 18. desember