Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 4. desember 2014
42. tbl. 32. árgangur
150 ára afmæli Gömlubúðar
Það var virkilega skemmtileg uppákoma í Gömlubúð á sunnudaginn var. Minnst var 150 ára afmæli hússins og fluttu nemendur úr Heppuskóla fróðlegan og skemmtilegan leikþátt um upphaf verslunar á Papósi og Höfn. Var flutningur og framsetning unga fólksins til fyrirmyndar en Vala Garðarsdóttir skrifaði textann og Kristín Gestsdóttir leikstýrði. Á myndinni eru frá vinstri: Vala Garðarsdóttir, Zóphonías Torfason, Salóme Morávek, Stefán Þór Jónsson, Sunna Guðmundsdóttir, Andri Þór Agnarsson og Agnes Jóhannsdóttir.
Fab Lab smiðjan í Vöruhúsinu Á Hornafirði og um landið allt hefur umræða átt sér stað um mikilvægi þess að efla áhuga á tækni og tölvutengdum greinum með því markmiði að auka áhuga á nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Stjórnvöld gáfu nýlega út hönnunarstefnu til þess að hvetja sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki til dáða. Í Vöruhúsinu hefur markvisst verið unnið við að setja upp Fab Lab hönnunarsmiðju með það að leiðarljósi að auka vægi nýsköpunar og frumkvöðlastarfs. Fyrir þá sem ekki vita þá er Fab Lab stafræn smiðja með tækjum og tólum til að skapa. Fab Lab smiðjan gefur ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Nafnið Fab Lab stendur fyrir Fabrication Laboratory. Það eru yfir 330 Fab Lab smiðjur í heiminum, þannig að Fab Lab er stórt samfélag fólks sem hefur það markmið að ná sér í þekkingu og miðla þekkingu til annarra. Það er mikil gróska hjá íslenskum Fab Lab smiðjum. Fab Lab Vestmannaeyjar opnuðu fyrst og svo hafa sprottið upp nýjar smiðjur eins og Fab Lab Sauðárkrókur, Fab Lab Ísafjörður, Fab Lab Akranes, sem er verið að enduropna, Fab Lab Reykjavík og Fab Lab Austurland (Fjarðabyggð) sem opnaði glæsilega smiðju 8. nóvember. Þessar smiðjur hafa allar það markmið að tengja saman einstaklinga, fyrirtæki, skóla og aðrar stofnanir til að ná fram aukinni samkeppnishæfni á sviði tækni, vísinda, hönnunar og nýsköpunar. Í Vestmannaeyjum hafa fleiri ungmenni skráð sig
í tækninám sem er rakið til Fab Lab smiðjunnar. Fab Lab Hornafjörður hefur unnið með Nýsköpunarmiðstöð frá 2013 en á næstu vikum verður skrifað undir samstarfssamning. Í kjölfarið verður smiðjan okkar fullgild Fab Lab smiðja sem gefur okkur aukin tækifæri til að bjóða upp á formlegt nám. En 2016 verður boðið upp á fjarnám frá MIT í Boston sem kallast Fab Academy. Um miðjan desember lýkur löngu námskeiði sem heitir Fab Lab Hönnunar og frumkvöðlasmiðja og er unnin í samstarfi við Fræðslunet Suðurlands. Það
eru um fjórtán manns sem hafa sótt námskeiðið og það hefur verið mikið um að vera og góður hópur þar á ferð. Unnið er markvisst við það að tengja Fab Lab verkefnið við öll skólastigin, endurmenntun og fræðslu. Við þurfum einnig að byggja á því sem við erum góð í og tengjast betur atvinnulífinu. Tökum dæmi um samstarf við atvinnulífið þar sem Millibör, FAS og Vöruhúsið gerðu með sér samstarfssamning. Millibör kom inn með þekkingu og hefur kennt fatahönnun og fatasaum á framhaldsskólastigi. Gerður var samningur til tveggja ára þar sem Millibör kom með helming af tækjum og Vöruhúsið með styrk frá ríkinu, annan helming til þess að hægt væri að hefja námið. Í samstarfssamningnum fékk Millibör tækifæri til að nýta stofuna fyrir utan kennslutíma til að framleiða sínar vörur. Á móti skilar hún tímum sem nýttir hafa verið í Vöruhúsinu eins og t.d. stefnumótun Vöruhúss, undirbúning keppenda fyrir Stíl hönnunarkeppni og fleira. Nemendur FAS sem hafa nýtt sér þessa áfanga hafa lært mikið og einnig þeir sem hafa farið á námskeið í fatasaum í gegnum Fræðslunetið. Þessi þekking sem hefur orðið til er stóri plúsinn við slíkt samstarf og að sjá okkar lið lenda í öðru sæti í Stíl Hönnunarkeppninni sem haldin var í Hörpu síðustu helgi er ómetanlegt. Ég hvet alla sem hafa áhuga á list- og verkgreinum að kíkja í Vöruhúsið eða Fab Lab smiðjuna, Vöruhúsið er fyrir alla. Hægt er að fá frekari upplýsingar á heimasíðunni www.voruhushofn.is. Nýtum tækifærin! Vilhjálmur Magnússon
Bæjarstjórnarfundur 210. fundur Bæjarstjórnar Hornafjarðar verður fimmtudaginn 4. desember kl. 16:00 í Ráðhúsinu. Bæjarstjóri Björn Ingi Jónsson