Eystrahorn Fimmtudagur 10. janúar 2013
1. tbl. 31. árgangur
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Báran skapar aðstöðu fyrir alla aldurshópa sem vilja hreyfa sig
Ljósmyndir: Þórgunnur Þórsdóttir
Fjölmenni var við vígslu og afhendingu Bárunnar laugardaginn 22. desember sl og fólkið greinilega í hátíðarskapi. Dagskráin var fjölbreytt með tónlist, ávörpum, leikjum og hamborgaraveislu. Efnt var til samkeppni um nafn á húsinu og alls bárust 140 tillögur. Salvör Dalla Hjaltadóttir níu ára stúlka átti vinningstillöguna. Nafnið hefur víðtæka skírskotun í bygginguna sjálfa, umhverfið og samfélagið á Hornafirði. Gunnar Ásgeirsson, stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess, rakti aðdraganda og byggingarsögu hússins í ávarpi sínu. Til að setja stærð hússins í samhengi nefndi hann að öll sjö skip og bátar fyrirtækisins rúmast inni í því. Þakkaði hann öllum sem komu að undirbúningi og
framkvæmd byggingarinnar og lagði áherslu á að allir aðilar hefðu lagt sig fram um að vanda til verksins. Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri tók við húsinu fyrir hönd sveitarfélagsins og þakkaði þessa einstöku gjöf. Séra Gunnar Stígur Reynisson blessaði húsið í takkaskónum sínum. Hornstein að byggingunni lagði Albert Eymundsson með aðstoð Ástu Ásgeirsdóttur konu sinnar. Við vígsluna heiðruðu fulltrúar Knattspyrnusambands Íslands Aðalstein Ingólfsson, framkvæmdastjóra SkinneyjarÞinganess, og Gunnar Ásgeirsson og afhentu þeim gullmerki sambandsins. Í lokin var svo heljarmikil hamborgaraveisla og spilaður fótbolti. Í viðtali við blaðamann kom fram
hjá Gunnari Ásgeirssyni, Árna Kjartanssyni arkitekt og Birki Birgissyni að mikil áhersla hefði verið lögð á að húsið yrði opið og gegnsætt þannig að athafnir í því yrðu hluti af bæjarlífinu og þeir sem í húsinu dveldu upplifðu umhverfið fyrir utan, mannlífið, umferðina, árstíðirnar, veðráttuna og birtuna. Þetta töldu þeir að hefði tekist vel og myndi gleðja jafnt vegfarendur í nágrenni hússins og þá sem í því væru við leik eða áhorf. Alltof oft væru hús af þessu tagi risavaxnir svartir kassar, tengslalausir við umhverfið og kaldir jafnt úti sem inni. Jafnframt bentu þeir á að natni hefði verið lögð í alla útfærslu, jafnt í stóru sem smáu.
Byggingarlýsing
Salvör Dalla merkir Báruna.
Húsið er 4.200 fermetrar, rúmtak 28.000 rúmmetrar og lofthæð um 12 metrar. Meginburðarvirki hússins eru límtrésbogar frá Límtré, sem setjast á steypta spyrnuveggi og undirstöður til hliðanna, sem hvíla á steyptum rekstaurum. Á milli burðarboganna koma langásar í skó. Ysta klæðning þaks er sínusbárað alúsink, klæðning á göflum er grófari stálklæðning sem ber sig yfir lengra haf. Á langhliðum og göflum eru gluggafletir til að hleypa inn birtu og til að sjá inn í húsið og út úr því. Hurðir eru í þessu kerfi eftir þörfum. Fyrir miðjum göflum hússins eru vélgengar vinduhurðir. Hæst á þaki er svæði með báruðu glæru plasti til lýsingar og reyklosunar í hugsanlegum eldsvoða. Loftun er sjálfdrifin. Loftrás er bak við rennu eftir öllum langhliðum og upp í gegnum mæni. Öflug raflýsing er í húsinu, stýrt eftir útibirtu og kveikingar í samræmi við starfsemi hverju sinni. Framkvæmdastjóri verkefnisins er Gunnar Ásgeirsson, stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess, og verkefnis- og hönnunarstjóri Birkir Birgisson, starfsmaður hjá fyrirtækinu. Ýmsir aðrir starfsmenn fyrirtækisins komu að verkefninu og vinnu við bygginguna en heimaverktakar unnu sértæka verkþætti, þ.ám. Gunnar Gunnlaugsson byggingarverktaki. Byggingarstjóri er Gísli Guðmundsson tæknifræðingur og Arkitektastofan GlámaKím sá um aðalhönnun og útlit en Verkís og Límtré um burðarvirki.